Helga Reynisdóttir ljósmóðir segir barnshafandi konur ekki eiga erindi upp að gosstöðvunum í Merardölum á Reykjanesi. Helga heldur úti fæðingarfræðslusíðu á Facebook þar sem hún greinir svo frá.
„Kolsýrlingur (e.Carbon Monoxide) er gastegund sem er stórhættuleg, hún er eðlisléttari en súrefni og lyktarlaus og einkenni eitrunar af völdum hennar geta verið engin meðan hún safnast upp í blóði viðkomandi. Hún veldur súrefnisskorti í vefjum og þegar konur eru ófrískar hefur hún mun meiri áhrif á fóstrið heldur en móðurina. Ef þessi gastegund safnast upp í blóði getur móðir og barn orðið fyrir súrefnisskorti með hræðilegum afleiðingum,“ skrifar Helga.
Hún bendir á að þessi gastegund sé í kringum eldsstöðvarnar og því sé best að sleppa því að skoða gosið í persónu og skoða það frekar á vefmyndavélum.
Fjöldi fólks fór að gosstöðvunum í Geldingadölum í gær, en gos hófst þar um miðjan dag í gær. Barnshafandi konur sem og aðrir geta fylgst með eldgosinu úr öruggri fjarlægð í beinni útsendingu mbl.is.
Ljósmæðurnar Helga og Hildur Sólveig Ragnarsdóttir svara spurningum lesenda barnavefsins. Þú getur sent inn spurningu hér.