Gott skólanesti mikilvægt fyrir framúrskarandi skóladag

Hannah Tasker/Unsplash

Nemendur á öllum skólastigum þurfa á haldgóðri næringu að halda til að komast í gegnum skóladaginn. Námsmenn ættu því ekki að vanmeta gott nesti og mikilvægi þess að skipuleggja næringu dagsins þannig að nestið sé bæði fjölbreytt og hollt. 

Gamla góða samlokan

Samlokur eru alltaf klassískar sem nesti en geta orðið leiðigjarnar til lengdar. Til að koma í veg fyrir það og fá sem mestan fjölbreytileika í samlokugerðina er um að gera að prófa sig áfram með mismundandi brauðtegundir og álegg. Auk grófs samlokubrauðs er tilvalið að nota pítubrauð, vefjur, gróft hamborgarabrauð og flatbrauð í samlokugerðina. Prófaðu mismunandi álegg á borð við smurosta, hummus, pestó, lifrarkæfu, kjötálegg, egg, lárperu, reyktan silung og grænmeti, svo dæmi séu tekin. Spennandi sósur lífga upp á allar samlokur og því um að gera að eiga nokkrar sósutegundir í eldhúsinu heima þegar verið er að smyrja fyrir daginn.

Þeytingur í ferðablandara

Fyrir fólk sem er hrifið af þeytingum þá getur verið sniðugt að fjárfesta í ferðablandara. Ferðablandarar eru með hleðslurafhlöðu og því hægt að nota þá hvar sem er. Jafnvel er hægt að hlaða þá í bílnum á leið í skólann.

Afgöngum pakkað í vefjur

Afgangar frá deginum áður koma alltaf sterkir inn sem nesti. Ef ekki á að taka afganginn frá deginum áður með í skólann daginn eftir þá er tilvalið að frysta matinn í hæfilegum stærðum svo hægt sé að grípa með seinna. Fyrir krakka geta afgangar verið mjög spennandi kostur ef þeim er pakkað inn í vefjur.

Taylor Kiser/Unsplash

Kaldir grautar

Flestir krakkar elska mjólkurgraut en hann má alveg borða kaldan. Þá hentar chia-grautur sérlega vel í nesti, enda chia-fræ afar næringarrík. Það er sniðugt að búa til chia-graut í nokkrar krukkur í einu inn í ísskáp og eiga þá fyrir næstu daga til að grípa með sér.

Þurrkað nasl og hnetur

Fullorðnum er óhætt að taka hnetur og möndlur með sér í skólann en í flestum grunnskólum er hins vegar hnetubann. Fyrir grunnskólakrakka eru þurrkaðir ávextir hentugri í staðinn, eins og rúsínur, döðlur, apríkósur, bananar eða epli.

Þjóðlegur matur

Lifrarpylsa eða sviðasulta geta verið ágætiskostur sem nesti, fyrir þá sem borða slíkan mat. Þá er harðfiskur líka góður kostur, jafnvel með smjörklípu. Harðfiskur í skífuformi eða litlum bitum hentar sérlega vel í nestisbox barna.

Hummus og grænmeti

Niðurskorið grænmeti og hummus til að dýfa grænmetinu í er frábært nesti því hummus er bæði prótínríkur og saðsamur. Gulrætur, litlar gúrkur, brokkolí, sellerí og niðurskornar paprikur er dæmi um grænmeti sem hentar vel með hummus.

Framandi ávextir

Það er alltaf auðvelt að grípa ávexti með í nesti. Klassískir nestisávextir eru bananar, vínber, epli og mandarínur. Síðan er um að gera að prófa nýstárlegri ávexti til að auka fjölbreytnina, ávexti eins og til dæmis sólaldin og drekaávöxt en þessir ávextir fást oft í grænmetisdeildum stórverslana.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda