Er valkeisari möguleiki á Íslandi?

Hildur Sólveig Ragnarsdóttir, ljósmóðir, svarar spurningum lesenda.
Hildur Sólveig Ragnarsdóttir, ljósmóðir, svarar spurningum lesenda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hild­ur Sól­veig Ragn­ars­dótt­ir ljós­móðir svar­ar spurn­ing­um les­enda mbl.is um allt sem teng­ist meðgöngu og fæðingu. Hér svarar hún spurningu um hvort hægt sé að velja að fara í keisaraskurð á Íslandi:

„Ég er ófrísk að þriðja barni. Fyrsta fæðing gekk ótrúlega vel en sú næsta (hann er bara eins árs) gekk mjög illa, hann var 4,5 kg, belgurinn var fyrir og ég og hann vorum búin á því í endann og byrjað að ræða bráðakeisara.

Ég get ekki ímyndað mér að ganga í gegnum aðra fæðingu og það veldur mér miklum kvíða, það miklum að ég hef leitt hugann að því ef ég myndi frekar missa fóstrið eða hvað ég gæti gert til að komast í keisara.

Er valkeisari möguleiki á Íslandi? Eins og í Bandaríkjunum og flestum löndum eða eru konur neyddar í fæðingu?“

„Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er ekki gott að heyra að upplifun þín af fæðingunni hafi verið það slæm að þú getir ekki hugsað þér að fæða aftur. Á Íslandi er ekki hægt að fara í keisara að eigin ósk. Keisaraskurðir eru ekki framkvæmdir nema það sé ábending fyrir því. Það eru þá þættir sem ógna heilsu móður eða barns á einhvern hátt. Því fylgir alltaf áhætta að fara í keisaraskurð sem er stór aðgerð. Það er í flestum tilfellum best fyrir móður og barn að ganga í gegnum eðlilega fæðingu, sé það mögulegt.

Ég myndi ráðleggja þér að byrja á því að ræða við þína ljósmóður í mæðravernd og biðja hana um að gefa þér aukatíma til að fara yfir fæðinguna, hvað það er sem veldur þér svo miklum kvíða og hvað sé hægt að gera til að upplifunin af væntanlegri fæðingu verði góð.

Einnig eru ljósmæður á Landspítalanum sem bjóða upp á viðtöl við konur sem þurfa á því að halda. Sú þjónusta kallast Ljáðu mér eyra. Þú getur einnig óskað eftir viðtali við fæðingarlækni í gegnum mæðraverndina og hann ásamt ljósmóður gæti sett upp ákveðið plan/áætlun sem gæti hjálpað þér í fæðingunni. Mundu það að fæðing er eðlilegasti hlutur í heimi og fæðingar ganga í flestum tilvikum vel. Það er ekkert sem segir að væntanleg fæðing muni ganga eins og sú síðasta.

Vona að þetta hjálpi þér.“

Þú getur sent ljósmæðrunum spurningu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda