Íslandsvinkonan og Love Island-stjarnan, Molly-Mae Hague, tók nýverið á móti sínu fyrsta barni með kærasta sínum, Tommy Fury. Parið hefur komið sér vel fyrir á glæsilegu 685 milljón króna heimili sínu í Chasire á Bretlandi.
Nýlega gaf Hague fylgjendum sínum innsýn í glæsilegt barnaherbergi dóttur þeirra, Bambi. Margir virtust afar hrifnir af rýminu, en ef þú ert meðal þeirra sem dreymir um barnaherbergi í anda Hague eru nokkur atriði sem ber að hafa í huga.
Bambi er strax umvafin miklum lúxus, en af myndum að dæma fékk hún rúmgott herbergi með sér baðherbergi og fataherbergi. Parið hefur innréttað herbergið á glæsilegan máta þar sem fallegir litir, áferðir og efni mætast og skapa notalegt og afslappað andrúmsloft.
Þegar kemur að litavali eru ljósir og hlutlausir tónar áberandi. Í svefnherberginu sjálfu er mjúkur hvítur litur í aðalhlutverki, en þau skapa karakter í rýminu með því að nota ýmiskonar efni og form, til dæmis vegglista og púða.
Í rýminu er nóg um notalega lýsingu, en úr loftinu hangir skýjaljós sem setur sterkan svip á rýmið auk þess sem parið hefur látið útbúa ljósaskilti með nafni dótturinnar á vegginn.
Á baðherberginu er sama litapalletta notuð, en þar hafa þau notað marmaraflísar til að gefa rýminu glæsibrag. Þá má sjá frístandandi baðkar með afar fallegum blöndunartækjum á baðherberginu.
Fataherbergið er stórkostlegt, en þar má sjá sérsmíðaðan hvítan fataskáp með gylltum fataslám. Fataskápurinn er opinn og því mikið lagt upp úr því að hafa innihaldið stílhreint og snyrtilega upp raðað. Fallegum barnafötum, aðallega í hvítum, bleikum og gráum tónum, hefur verið raðað afar smekklega á slárnar, en fötin hanga á flottum gylltum herðatrjám – allt í stíl.