Bergþór Óla er mjúki pabbinn

Bergþór og Laufey Rún ásamt dætrunum Lottu og Ósk á …
Bergþór og Laufey Rún ásamt dætrunum Lottu og Ósk á góðri stundu.

Bergþór Ólason og Laufey Rún Ketilsdóttir eignuðust sitt fyrsta barn saman í fyrra en fyrir á Bergþór dóttur á sjöunda ári. Bergþór, sem er þingmaður Miðflokksins, segir Alþingi vera fjölskylduvænan vinnustað og nýtur þess að sjá dætur sínar mynda sterk systratengsl.

Bergþór segir að hann hafi lítið velt því fyrir sér hvort hann ætti eftir að eignast fleiri börn áður en að ástin bankaði aftur upp á hjá honum. „Lífið gekk sinn vanagang og vinnan var í fyrirrúmi ásamt því að eyða tíma með Lottu, dóttur minni, hvenær sem færi gafst en hún er búsett í Berlín með móður sinni. En allt hefur sinn tíma og þó við Laufey hefðum þekkst lengi þá tengdumst við á réttum tíma í lífi okkar beggja og höfum ekki litið við síðan. Ósk okkar slóst svo í hópinn síðastliðið sumar og hefur haldið öllum vel við efnið. Lífið er því ansi gott,“ segir Bergþór.

„Lífið breytist með hverju barni enda nýr einstaklingur mættur á svæðið. En faðmurinn bara stækkar og það hefur verið mest gefandi að fylgjast með sambandi þeirra systra kvikna og þróast eftir því sem þær eldast báðar tvær. Lotta mín var einbirni þar til Ósk mætti til leiks og manni hlýnar við það að þær geti haft stuðning af hvor annarri út lífið,“ segir Bergþór.

Þetta er tveggja manna verk, Lotta verkstýrir.
Þetta er tveggja manna verk, Lotta verkstýrir.

Heppinn með konu

Bergþór segir að hann hafi verið virkari á fyrstu mánuðunum í lífi Óskar, yngri dóttur sinnar, en hann var þegar eldri dóttirin, Lotta, kom í heiminn. „Skýrist það af landafræði og öðrum starfsvettvangi en nú en það hefur verið gefandi að taka meiri þátt á fyrri stigum,“ segir Bergþór sem segir Alþingi vera góðan vinnustað fyrir fjölskyldufólk.

„Að mínu mati er Alþingi fjölskylduvænn vinnustaður enda mikið rými til sveigjanleika þegar kemur að umönnun barnsins og til að uppfylla þarfir og skyldur sem ágerast bara með árunum, þ.e. sækja og skutla í skóla, íþróttir og aðrar tómstundir. Þingmaður ræður sínum tíma sjálfur, getur sinnt vinnu sinni bæði við Austurvöll, heima eða hvar svo sem hann ber niður með kjósendum sínum. Vissulega koma álagspunktar þar sem mikillar viðveru er krafist í húsi og þingfundir eru langt fram á nótt og þá reynir á skilning maka og fjölskyldu. Ég er heppinn að konan mín starfaði lengi á Alþingi og þekkir því gangverkið vel. Svo snýst þetta á endanum bara um að skipuleggja tíma sinn vel í þingmannsstarfinu og tryggja þannig tímann með fjölskyldunni.“ 

Tekur þú fæðingarorlof?

„Ég hafði ekki tök á því að fara í fæðingarorlof þegar Lotta fæddist en ég næ sem betur fer að taka orlof núna með Ósk. Það er hins vegar bagalegt hvernig málum er fyrir komið hvað varðar regluverk fæðingarorlofsmála hér á landi. Frelsi foreldranna, til að skipta með sér þeim heildartíma sem barni er tryggður með foreldrum sinum samkvæmt lögum, og fæðingarorlofssjóður stendur undir með greiðslum til foreldranna, ætti að vera algjört. Forræðishyggja réði ríkjum þegar lögunum var breytt fyrir stuttu síðan og ákveðinn fjöldi mánaða festur á foreldra, óframseljanlegir. Það er enginn betri til þess að ráða sínum málum en fólkið sjálft sem í hlut á. Ef fólki er treyst fyrir því að ala upp barn þá ætti því að vera treystandi til að skipta með sér fæðingarorlofi svo vel sé fyrir barnið og fjölskylduna alla.“

Bergþór og Ósk saman í Stykkishólmi.
Bergþór og Ósk saman í Stykkishólmi.

Góð samskipti lykilatriði

Margir tala um að að vera öruggari þegar barn númer tvö kemur í heiminn og Bergþór er því sammála. „Ég mundi margt en annað alls ekki. Þetta rifjast sem betur fer hratt upp. Laufey, konan mín, sagði mér að henni hefði þótt styrkur í því að ég hefði farið í gegnum þetta áður en Ósk er hennar fyrsta barn. Það kom sem betur fer ekki að sök því hún þurfti engrar leiðsagnar við. En vissulega var ég öruggari þegar kom að umönnun yngri dóttur minnar enda vissi ég það sem nær allir sem hafa átt barn vita – þetta fer allt vel.“ 

Hvernig er að eiga samsetta fjölskyldu?

„Það hefur gengið vel hjá okkur en það er ekki sjálfgefið enda flækjustigið oft mikið. En svo lengi sem maður hefur hagsmuni barnanna efst í huga við allar ákvarðanir þá lendir þetta á góðum stað fyrir alla. Mér og móður Lottu hefur auðnast að eiga góð samskipti þegar kemur að dóttur okkar og fundið lausnir og leiðir sem ekki er alltaf auðvelt þegar foreldrarnir búa hvort í sínu landinu. Ég hef gætt þess að fara mjög reglulega út til Berlinar og eyða tíma með Lottu í hennar umhverfi og takast á við hversdaginn með henni líka. Það hefur gengið vel og eigum við afar gott og náið feðginasamband.

Samsettar fjölskyldur eru auðvitað eitthvað sem allir Íslendingar þekkja, annað hvort af eigin raun eða í gegnum aðra og hver og ein fjölskylda verður að finna sinn takt í þeim efnum. Takturinn þarf ekki að vera sá sami en þarf þó að slá þann tón að barninu líði vel og fái góða tengingu við báða foreldra, sé þess nokkur kostur.“

Systurnar sameinaðar í Berlín.
Systurnar sameinaðar í Berlín.

Heppin með svefninn

Hvernig pabbi ert þú?

„Ég held að ég sé mjúka týpan. Ég á mjög erfitt með að segja nei við þá eldri og grunar að það muni bara versna gagnvart þeirri yngri þegar hún nær viti og aldri til að vefja mér um fingur sér. Ég mun örugglega þurfa að bjarga í horn með því að svara einfaldlega: „Spurðu mömmu þína“ þegar mikið liggur við. En áherslan mín við uppeldi dætra minna er að þeim líði vel, upplifi öryggi og treysti mér fyrir því sem þær eru að eiga við á hverjum tíma. Að þær viti að það er hægt að leysa allt, líka þetta erfiða. Þannig ólst ég upp og þannig vil ég leiða þær í gegnum líf sitt.“

Hvað finnst þér mest gefandi við að vera foreldri?

„Það er að sjá þessi litlu kríli þroskast og dafna. Ég hef verið svo heppinn að báðar dæturnar hafa verið góðar til heilsunnar, þroskast vel og verið hvers manns hugljúfi í samskiptum. Á endanum eru það börnin sem maður raunverulega skilur eftir sig, ef Guð lofar.“

En hvenær er það krefjandi?

„Ætli það sé ekki helst þegar maður er í tímaþröng með eitthvað, sérstaklega gagnvart vinnu og lúrinn klikkar hjá þeirri yngri, eða verður styttri en reikna mátti með. Við höfum verði heppin með svefninn á næturnar til þessa – þannig að þreyta hefur ekki verið til verulegra vandræða, nema þá þegar manni er sjálfum um að kenna. Í stóru myndinni er svo auðvitað krefjandi að vera foreldri í sjálfu sér – það þekkja allir sem það hafa reynt. En eins og klisjan segir, krefjandi en skemmtilegt og það er akkúrat málið.“

Hvenær eigið þið fjölskyldan ykkar gæðastundir?

„Við Laufey og Ósk eigum margar gæðastundir saman á heimavígstöðvunum. Þær þurfa ekki að vera flóknar eða löngu útfærðar. Góður kvöldmatur saman í rólegheitum, þar sem Ósk reynir fyrir sér sem matgæðingur með tilheyrandi leikrænum tilburðum, er alltaf ægilega notalegt. Best er svo auðvitað þegar Lotta er hjá okkur og við blöndum dögunum með alls konar stuði en líka rólegheitum heima. Þær systurnar leika þá saman og aðdáunin skín úr augum þeirrar yngri enda er Lotta afar natin við litlu systur sína og ljóst að þær verða góðar saman þegar fram í sækir. Hvað getur maður beðið um meira?“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda