5 ráð til að styrkja líkamsímynd barnsins þíns

Ljósmynd/Pexels/Rene Asmussen

Foreldrar gegna lykilhlutverki í því að byggja upp líkamsímynd barna þeirra. Næringarfræðingurinn Amelia R. Sherry birti grein á dögunum á vef Psychology Today þar sem hún útskýrði mikilvægi foreldra þegar kemur að líkamsímynd barna og gaf lesendum fimm góð ráð. 

„Fyrir nokkrum árum kom ég að níu ára dóttur minni grátandi fyrir framan fataskápinn sinn,“ byrjaði Sherry pistilinn. „Ég hélt að hún hefði aftur týnt uppáhalds bolnum sínum eða gert gat á sokkabuxurnar sínar. Það sem mætti mér var miklu verra – í gegnum tárin sagði hún: „Mér finnst ég vera feit“.“

1. Sýndu líkama þínum og annarra virðingu

„Ein leið til að gera þetta er með því að forðast að tala niður til eigin líkama og útlits, að tala um þyngd eða þyngdartap, sem og að tala um líkama og þyngd annarra,“ skrifar Sherry.

2. Vertu með það á hreinu að megrun er ekki heilsusamleg

„Með því að leggja áherslu á þá staðreynd að megrun sé skaðleg getur þú verndað barnið þitt frá því að taka þátt í megrun,“ skrifar Sherry og ítrekar mikilvægi þess að koma í veg fyrir að börn fari í megrun, enda eykur það hættuna á að barn fái átröskun fimmfalt. 

Hér segir Sherry einnig mikilvægt að foreldrar setji gott fordæmi og séu ekki stanslaust í megrun sjálfir. 

3. Einblíndu á getu frekar en útlit

„Það er enginn vafi á því að barnið þitt muni fá endalaus skilaboð frá fjölmiðlum, jafnöldrum og hugsanlega fjölskyldumeðlimum, þjálfurum eða kennurum um að líkami þess þurfi að vera grannur til að vera viðurkenndur eða „heilbrigður“,“ útskýrir Sherry. 

„Til þess að vinna gegn þeim hugmyndum er mikilvægt að einblína á það jákvæða sem líkaminn getur, til dæmis að líkaminn geti gengið, hlaupið, hoppað, hlegið og hugsað.“

4. Ræddu vinsælar myndir eða skilaboð við barnið þitt

„Foreldrar barna með jákvæða líkamsímynd eyða tíma í að tala opinskátt um óraunhæfar myndir og skilaboð, en þannig vinna þeir gegn eða ögra myndum í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum og kenna börnunum sínum að vera meðvitaðir neytendur,“ segir Sherry. 

Sem dæmi getur þú rætt við barnið um að ýktir líkamar uppáhaldsteiknimyndapersóna þeirra séu raunhæfar og jafnvel óheilbrigðar í raunveruleikanum. 

5. Vertu vakandi yfir skilaboðum um mat og hreyfingu

„Foreldrar sem forðast að miðla reglum og þekkingu um mat og hreyfingu eiga börn sem líður betur með líkama sinn,“ segir Sherry. „Það að vara börn við því að ákveðin matvæli séu óholl, muni valda þyngdaraukningu eða geti leitt til sjúkdóma, skapar ótta og sektarkennd í kringum mat.“

„Ef við tökum dæmi um þá hugmynd að sleppa eigi nánast öllum kolvetnum vegna þess að þau geti valdið allt frá bólgu í líkama og sykursýki yfir í þyngdaraukningu. Börn sem hafa ekki verið alin upp við að óttast eða takmarka ákveðin matvæli eru mun ólíklegri til að tileinka sér slíkar hugmyndir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda