Hin fimm ára gamla Stormi Webster, dóttir raunveruleikastjörnunnar Kylie Jenner, virðist vera með ansi dýran smekk. Jenner deildi á dögunum myndskeiði þar sem hún sýndi 5,8 milljóna króna Rolex-úr dóttur sinnar.
Jenner deildi myndskeiði á dögunum á TikTok þar sem hún sýndi fylgjendum sínum allt sem hún er með í glæsilegri Bottega Veneta tösku sinni sem kostar 4.500 bandaríkjadali, eða sem nemur rúmlega 636 þúsund krónum á gengi dagsins í dag.
Úr töskunni dregur Jenner upp ýmsar vörur, þar á meðal glæsilegt úr dóttur sinnar. „Ég er með litla úrið hennar Stormi hérna. Þetta var í raun úrið mitt, en hún var með það. Sjáið hvað úlnliðurinn hennar er lítill! Hún var með það í afmælisveislu og vildi ekki vera með það lengur,“ sagði raunveruleikastjarnan.
Úrið virðist vera gyllt Day-Date úr að andvirði 41.500 bandaríkjadala, eða sem nemur rúmlega 5,8 milljónum króna á gengi dagsins í dag.