Ljósmæðurnar Hildur Sólveig og Helga Reynisdóttir buðu læknum og ljósmæðrum í heimsókn til sín á dögunum til þess að fagna Ljósu, nýstofnuðu fyrirtæki sínu. Ljósa er staðsett í Lífsgæðasetrinu á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og þjónustar fjölskyldur sem eiga von á barni. Hægt er að komast í þrívíddarsónar, kynjasónar og hefðbundinn sónar hjá Ljósu.
„Ljósa býður upp á fæðingarfræðslunámskeið þar sem foreldrar geta undirbúið sig undir fæðinguna,“ segir Helga Reynisdóttir og bætir því við að þær bjóði einnig upp á einstaklingsmiðuð viðtöl, bæði sem undirbúning fyrir fæðingu eða viðtöl eftir erfiða fæðingarreynslu.
„Þá eru einnig í boði „bumbuhittingar“ sem eru vinsælir, en þar koma konur saman og fá fræðslu og hitta aðrar konur sem eiga von á sér á svipuðum tíma. Út frá þessum „hittingum“ hafa svo skapast tengsl á milli kvenna. Foreldrar hafa svo haft möguleika á að hittast eftir fæðinguna á foreldramorgnum,“ segir Hildur Sólveig.
Ljósmæðurnar svara spurningum lesenda mbl.is. Þú getur sent þeim spurningu HÉR ef þig vantar ráð varðandi meðgöngu og fæðingu.