„Ég klessti harkalega á vegg“

Sigrún Sigurpálsdóttir er fjögurra barna ofurmamma.
Sigrún Sigurpálsdóttir er fjögurra barna ofurmamma. Skjáskot/Instagram

„Það var mjög krefjandi að vera með þrjú lítil börn og einn ungling þegar börnin voru yngri, áður en ég hafði fengið staðfesta ADHD-greiningu,“ segir Sigrún Sigurpálsdóttir, hlaðvarpsstjórnandi, áhrifavaldur og einkaþjálfari, sem nýverið var greind með athyglisbrest og ofvirkni.

„Ég er yfirleitt með 17 verkefni í gangi í einu og get verið hrikalega lengi að ná að klára það sem ég byrja á,“ viðurkennir hún.

Sigrún á fjögur börn á víðu aldursbili en elsta dóttir hennar, Elísabet Anna, er tvítug en sú yngsta, Eydís Ylfa er sex ára. Synir Sigrúnar, Árni Þór og Kristófer Kári, eru tíu og átta ára gamlir. Það hefur því oft verið líf og fjör á heimilinu en Sigrún er búsett á Akureyri ásamt þremur yngstu börnum sínum þar sem sú elsta er sjálf farin að búa.

Ómeðhöndlað ADHD sett strik í reikninginn

„Að vera með ógreint og ómeðhöndlað ADHD hefur sett margar hindranir í veginn í gegnum árin,“ segir Sigrún sem hefur verið í mikilli sjálfsvinnu undanfarin misseri eftir að hafa keyrt sig út í mörg ár og brunnið yfir.

Sigrún var mikið í sviðsljósinu fyrir nokkrum árum og var hún ein þeirra sem náði góðu flugi á Snapchat þegar sá miðill var fyrst að ryðja sér til rúms hér á landi. Í dag er Sigrún með stóran fylgjendahóp á Instagram og heldur úti hlaðvarpinu Hvað er málið?.

„Ég klessti harkalega á vegg og fór í algert „burnout“. Það hefur verið stórt verkefni fyrir mig að ná að standa aftur upp og ná fyrri kröftum. Þetta er langt og strangt ferli og ég reyni að gera mitt besta frá degi til dags,“ segir hún en Sigrún fann sig knúna til að draga sig í hlé á samfélagsmiðlum með það fyrir augum að reyna að hraða á bataferlinu.

Áhuginn að kvikna á ný

Einlægni og hreinskilni einkenna Sigrúnu. Í gegnum tíðina hefur hún tileinkað sér að segja hlutina eins og þeir eru, án þess að sykurhúða þá. Það er líklega það sem fólki líkar í fari hennar og gerir það að verkum að það hefur áhuga á að fylgjast með hversdagsleika hennar.

„Ég finn núna aftur fyrir áhuga á að leyfa fólki að fylgjast með okkur upp að vissu marki. Ég er mjög oft innt eftir því hvort ég geti ekki farið að sýna meira frá mínu lífi og hef alltaf ætlað að reyna að að láta verða að því en áhuginn var ekki til staðar fyrr en núna loksins,“ segir Sigrún og telur sig vera hægt og rólega að líkjast sjálfri sér aftur.

„Ég er svo að fara í nám í haust þar sem ég er loksins komin með ADHD-greiningu og get því mögulega farið að einbeita mér að námi. Til dæmis hefur oft verið erfitt að vinna hlaðvarpið þar sem einbeitingin hefur oft verið af skornum skammti,“ lýsir Sigrún sem hefði í fullkomnum heimi viljað fá greininguna fyrr. 

„Ég vildi alveg óska þess að þetta hefði uppgötvast fyrr. En því verður ekki breytt og það þýðir ekki að dvelja við það heldur læra betur inn á þetta og vinna með það mér í hag. Því það fylgir þessu líka mikið niðurrif að vera ekki „eins og venjulegt fólk“. Ég reyni að muna að ég hef fullt af hæfileikum, sem margir vilja kalla ADHD-ofurkrafta, en það eru bara oft ekki hæfileikar sem passa endilega inn í kassann sem við eigum helst öll að vera í,“ segir hún staðföst og ákveðin í að nýta ofurkrafta ofvirkninnar á jákvæðan hátt.

Eðlilegt að gera mistök í móðurhlutverkinu

„Ég myndi ekki segja að ég væri mjög strangt foreldri. Það gilda þó reglur og þeim á að fylgja,“ segir Sigrún, spurð út í móðurhlutverkið.

„Það getur tekið tíma fyrir börn að læra inn á reglur og ég hef alveg þolinmæði í að fylgja þeim ásamt því að gefa sénsa því ég vil að börnin mín leiti til mín með hvað sem er. Mín reynsla er sú að ef uppeldið er of strangt þá geta þau jafnvel forðast það að leita til manns.“

Lumar þú á einhverjum fimm hagnýtum uppeldisráðum?

1. „Ég legg ég mjög mikið upp úr því að ala börnin mín upp á þann hátt að þau geti leitað til mín með hvað sem er. Það er ekkert vandamál of stórt til að ekki sé hægt að ræða það, leysa það og læra af því.“

2. „Það er eðlilegt að gera mistök. Það fer enginn í gegnum lífið án þess að gera fullt af þeim. Mér finnst börn oft ekki hafa rými til að mistakast því þau eiga að vera svo fullkomin en það er enginn fullkominn og lífið getur verið alls konar.“

3. „Ég fer mjög mikið með börnunum mínum út. Út í skóg þar sem við skoðum alls konar tré og blóm og lærum á náttúruna. Niður í fjöru að tína steina sem við tökum svo oft með heim og málum á og ég legg mikið upp úr því að kenna þeim að horfa á og spá í náttúrunni. Ég ólst upp í sveit og er mikið náttúrubarn sjálf og ég vil að þau upplifi það líka þó við búum ekki í sveit. Við bara förum út í sveit og finnum okkur staði til að njóta náttúrunnar.“

4. „Það er mér gríðarlega mikilvægt að þau beri virðingu, bæði fyrir öðrum börnum og fullorðnum. Ekki standa hjá ef einhverjum er strítt, vera sá/sú sem stígur upp og segir eitthvað og hjálpar þeim sem eru útundan. Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.“

5. „Þar sem börnin mín eru öll kominn á þann aldur að skilja hvað maður segir og meinar, þá er gott að muna að þú uppskerð eins og þú sáir. Ég hef útskýrt það þannig að ef þú setur niður fræ þá kemur upp blóm/planta. Það er alveg eins með allt sem þú leggur vinnu í - það mun skila einhverju af sér. Svo er mikilvægt að leyfa þeim að njóta þess að vera börn. Hafa frelsi og rými til að þroskast og dafna undir leiðsögn frá foreldrunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda