Marinó varð faðir á nýársdag

Feðgarnir Marinó og Mattheó Mýr eru miklir félagar.
Feðgarnir Marinó og Mattheó Mýr eru miklir félagar. Ljósmynd/Marinó Flóvent

„Settur dagur hjá okkur var hinn 29. desember 2021, en litli guttinn vildi sko gulltryggja okkur eftirminnilegustu gamlársnótt lífs okkar,“ segir Marinó Flóvent ljósmyndari. Hann og unnusta hans, Ásta Marteinsdóttir, sjúkraliði og laganemi, tóku á móti syni sínum snemma á nýársmorgun eða 1. janúar 2022 kl. 09:03.

Marinó er fjölhæfur og hæfileikaríkur ljósmyndari sem hefur glöggt auga fyrir fallegu og skemmtilegu myndefni. Hann rekur sitt eigið ljósmyndafyrirtæki, M. Flóvent ehf. og sinnir föðurhlutverkinu af mikilli elju. Marinó kennir einnig við Ljósmyndaskólann þar sem hann deilir þekkingu sinni með framtíðarljósmyndurum.

Í dag er hinn eins og hálfs árs gamli Mattheó Mír mikill fjörkálfur og stríðnispúki sem heldur foreldrum sínum og eldri hálfsystur stöðugt á tánum.

„Ég gleymdi alls konar hlutum“

„Við vorum búin að plana heimafæðingu með Kristbjörgu Magnúsdóttur heimafæðingarljósmóður. Sjálf var Ásta að eignast sitt annað barn en hún er einnig „doula“ og var því nokkuð vel undirbúin, ég var hins vegar að gera þetta allt í fyrsta skipti. Þrátt fyrir að hafa gert allt sem ég gat til þess að undirbúa mig, lesið bækur, setið undirbúningsnámskeið og horft á ótal margar heimildarmyndir, þá var ekki laust við að ég fyndi fyrir töluverðu stressi verandi bara fjögur heima í fæðingunni, ég, Ásta, ljósmóðirin og stjúpdóttir mín, sem þá var 12 ára gömul,“ segir Marinó.

Marinó studdi Ástu í heimafæðingu sonar þeirra.
Marinó studdi Ástu í heimafæðingu sonar þeirra. Ljósmynd/Marinó Flóvent

„Þegar fæðingunni lauk fann ég að ég gleymdi alls konar hlutum sem ég var búinn að ætla mér passa upp á að gera, en það sem skipti mestu máli er að allt fór alveg eins og í sögu. Mér tókst að vera til staðar fyrir Ástu og hjálpa henni að hafa trú á sér og finna fyrir ró og öryggi,“ útskýrir Marinó.

Fyrstu dagar og vikur með kornabarn voru ljósmyndaranum einstök en stressandi upplifun. „Ó, já! Ég veit ekki hversu oft ég athugaði hvort barnið væri að anda á meðan það svaf og svo gat ég vart tekið augun af honum þegar hann var vakandi,“ segir Marinó, sem heillaðist af föðurhlutverkinu alveg frá fyrsta augnabliki.

„Ég verð þó að viðurkenna að fyrstu vikurnar eru í svolítilli móðu, en ég er feginn þar sem ég virðist hafa verið með myndavélina á lofti nær stöðugt því það er nóg til af myndum og myndböndum til þess að rifja upp öll krúttlegustu augnablikin,“ útskýrir Marinó.

Mattheó Mýr aðeins nokkurra mínútna gamall.
Mattheó Mýr aðeins nokkurra mínútna gamall. Ljósmynd/Marinó Flóvent

Ertu búinn að ná þér eftir svefnleysið?

„Nei, eiginlega ekki. Þetta er samt allt að koma,“ segir Marinó og hlær. „Við Ásta erum með samkomulag þar sem ég sef svolítið fast, þá vaknar hún með honum á nóttunni og ég tek hann fram á morgnana. Þetta höfum við gert nánast frá upphafi og gerum enn.“

„Ég elska þetta“

Marinó hefur ávallt haft mjög gaman af bæði börnum og dýrum, en áður en Mattheó Mír kom í heiminn kynntist hann föðurhlutverkinu sem stjúpfaðir hinnar nú 13 ára gömlu Evu Rósar og býr þar af leiðandi yfir ágætis reynslu.

Hvað hefur komið þér mest á óvart við föðurhlutverkið?

„Hvað þetta er mun skemmtilegra en ég átti von á. Ég vissi vel að þetta væri gaman, en ég elska þetta út af lífinu. Á sama tíma er þetta rosalega erfitt en þá þarf ekki meira en eitt krúttlegt hláturskast hjá litla manninum og allt er gleymt.“

Marinó og Ásta hafa verið par í yfir tíu ár og hefur hann verið dóttur Ástu sterk föðurímynd frá því þau kynntust. „Mig hefur alltaf langað í börn og fjölskyldu, það hefur alltaf legið í undirmeðvitundinni, en sú tilfinning varð extra sterk þegar ég var búinn að vera með Ástu í skamman tíma enda fékk ég smjörþefinn þar sem hún átti unga dóttur fyrir. Ég var samt klár í barneignir vel á undan Ástu, en beið þolinmóður eftir því að við værum bæði tilbúin í þetta,“ útskýrir Marinó.

Marinó ásamt unnusti sinni Ástu Marteinsdóttur og börnunum Evu Rós …
Marinó ásamt unnusti sinni Ástu Marteinsdóttur og börnunum Evu Rós og Mattheó Mýr. Ljósmynd/Marinó Flóvent

Hvað er það besta við föðurhlutverkið?

„Allt, mér finnst allt við þetta æðislegt.“

„Hann er algjör óþekktarormur og stríðnispúki“

Í uppeldinu hafa Marinó og Ásta verið mjög samtaka, en hann segir tengsl skipta sig miklu máli þegar kemur að uppeldinu. „Ég vil ala upp einstakling sem er skynsamur, réttsýnn og góð manneskja. Nærgætni og virðing fyrir tilfinningum barnanna minna skiptir mig miklu máli þannig að það er svona helst áhersla sem ég hef í uppeldinu,“ útskýrir hann.

Hvað er mest krefjandi við föðurhlutverkið?

„Núna þegar Mattheó Mír er kominn á „toddler“ tímabilið, þá er það líklegast að halda rónni í kringum hann. Ég talaði um að það væri áhersla í uppeldinu að virða tilfinningar hans en það alveg líka mikill skóli í því að hafa sínar eigin tilfinningar í huga og ná að stjórna þeim.“

Mattheó Mýr er mikill stríðnispúki samkvæmt föður sínum.
Mattheó Mýr er mikill stríðnispúki samkvæmt föður sínum. Ljósmynd/Marinó Flóvent

Mattheó Mír er á fullu að uppgötva sjálfan sig og alla þá einstöku eiginleika sem hann býr yfir. „Hann er algjör óþekktarormur og stríðnispúki, frekur og þrjóskur. Hann lítur út eins og ég en er með persónuleika móður sinnar,“ segir Marinó og hlær.

„Mér finnst hann alveg eins og ég þó svo það glytti á tímum í svipi frá móður hans. Hann er líkari mér í útliti en Ástu. Hún hefur oft gantast með það að finnast ósanngjarnt að hafa gengið með barn í níu mánuði, fætt það og svo kemur það út eins og snýtt úr nösinni á pabba sínum.“

Feðgarnir eru svipsterkir.
Feðgarnir eru svipsterkir. Ljósmynd/Marinó Flóvent

Marinó hefur vart lagt frá sér myndavélina frá því að Mattheó Mír kom í heiminn og hefur hann fangað hvert augnablikið á fætur öðru. „Vegna starfa minna sem ljósmyndari þá er ég með vandræðalega gott skipulag á öllum myndum sem ég tek og get því giskað með nokkuð mikilli nákvæmni á fjölda mynda sem ég hef tekið af barninu. Fyrstu vikuna, eina og sér, tók ég um 2000 ljósmyndir af honum. Á myndavélina eru myndirnar í heild orðnar yfir 8.000 en svo er auðvitað heill hellingur á símanum,“ segir Marinó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda