Byrjaði í tannlæknisfræði en gat ekki tálgað tennur

„Við þurfum að vera meira saman og búa til sameiginlegar …
„Við þurfum að vera meira saman og búa til sameiginlegar minningar,“ segir Jón Pétur. Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Óhætt er að segja að Jón Pétur Zimsen sé meðal þekktari skólamanna landsins en hann lætur verkin tala og er óhræddur við að tjá skoðanir sínar á menntamálum. Jón Pétur á að baki langan feril bæði sem kennari, aðstoðarskólastjóri og skólastjóri ásamt því að hafa unnið við ýmis félagsstörf og verkefni í tengslum við menntun en hann vann um tíma sem aðstoðarmaður menntamálaráðherra. Um þessar mundir setjast þúsundir barna og unglinga á skólabekk. Sjálfur á hann von á u.þ.b. 450 unglingum í Réttarholtsskóla þar sem hann starfar sem aðstoðarskólastjóri.

Jón Pétur brosir þegar hann er spurður hvort hann hafi alltaf stefnt að því að verða kennari og starfa við skólamál. „Ég stefndi á að læra eitthvað þar sem ég gæti stýrt vinnutímanum mínum svolítið sjálfur og þénað svolítinn pening. Ég fór því að læra tannlæknisfræði og gekk vel þangað til ég átti að tálga einhverjar tennur í vax, það vafðist eitthvað fyrir mér þannig ég endaði á því að hætta þar og fór að vinna á leikskóla í nokkra mánuði. Næsta haust sótti ég svo um sjúkraþjálfarann og Kennaraháskólann og eftir nokkrar pælingar valdi ég Kennó. Þar með hófst vegferð mín um skólaheiminn en þess má geta að pabbi var kennari og mikill lærifaðir minn svo kannski átti ég ekki langt að sækja þessa ástríðu. Ég útskrifaðist svo árið 1999 og fór þá að kenna náttúrufræði hér í Réttó.“ Jón Pétur bætir við að honum hafi liðið ofboðslega vel að kenna, hann hafi strax náð góðum tengslum við nemendur, foreldra og samkennara. Þessi tengsl skiluðu nemendum góðum árangri í náttúrufræði sem ekki er alltaf vinsælasta námsgreinin. Ég fékk mikið út úr því að sjá nemendur fyllast áhuga og metnaði fyrir námsgreininni og meirihluti þeirra valdi hana sem aukavalfag. ,,Ég var búinn að finna mína hillu og sá fyrir mér að ég myndi vera náttúrufræðikennari í Réttó til sjötugs. Kennarastarfið gerði í raun allt fyrir mig sem hver maður getur óskað sér, nærandi samstarfsmenn, móttækilega unglinga og útrás fyrir þá þörf að reyna að bæta við þekkingu og áhuga nemenda á náminu.“

Gengið á eftir honum að verða stjórnandi

Í um átta ár starfaði Jón Pétur sem náttúrufræðikennari en þá rak á fjörur hans ýmis önnur tilboð. „Árið 2007 hætti aðstoðarskólastjóri Réttó og varð skólastjóri Hagaskóla, hann reyndi að fá mig yfir með sér sem aðstoðarskólastjóra en ég hafði takmarkaðan áhuga á því að verða stjórnandi. Á sama tíma var mér líka boðin skólastjórastaða í öðrum skóla sem ég þáði ekki heldur enda leið mér vel í mínu starfi. En á þessum tíma var Hilmar Hilmarsson skólastjóri í Réttó og hann vantaði þá aðstoðarskólastjóra þar sem sá fyrri fór í Hagaskóla. Þar sem Hilmar er einn af þeim einstaklingum sem ég hef litið upp til og ber mikla virðingu fyrir hef ég tamið mér það að hlusta vel þegar hann talar. Hann hefur kennt mér ótal hluti um lífið og tilveruna og þegar hann bað mig að taka við starfi aðstoðarskólastjóra ákvað ég að slá til í a.m.k. eitt ár. Ég var líka búinn að tryggja góða kennara til að taka við náttúrufræðikennslunni og hún því í góðum höndum, en hún var svolítið eins og barnið mitt. Ég var aðstoðarskólastjóri til 2015 en þá tók ég við sem skólastjóri. Ég gegndi því starfi í þrjú ár en þá varð ég aðstoðarmaður menntamálaráðherra í eitt ár. Skólinn kallaði alltaf á mig aftur og ég sneri því til baka í Réttó árið 2019 og var þar í eitt ár. Ég var síðan ráðinn sem skólastjóri Melaskóla í ákveðið verkefni og var þar í eitt ár en sneri svo hingað aftur og líður bara mjög vel hér.“

mbl.is/Hanna Ingibjörg

Góð tengsl ávallt verið í brennidepli

Jón Pétur virðist alltaf leita aftur í Réttó, hvað er það sem togar svona í hann þar? „Það er fyrst og fremst menningin hér í skólanum og aldursstig nemenda en Réttó er unglingaskóli sem kennir 8. 9. og 10 bekk. Ég tengi vel við þennan aldur þar sem svo gríðarlegar breytingar eru í gangi hjá nemendum og maður getur haft jákvæð og uppbyggileg áhrif á mikinn fjölda unglinga. Í þessum aldurshópi er einkar mikil eftirspurn eftir hlustun og ég gef mér tíma til að hlýða á hvað býr í brjóstum unglinganna. Ég hef alla tíð lagt mikið upp úr góðum tengslum bæði sem einstaklingur, kennari og stjórnandi enda tel ég þau vera forsendu fyrir öllu námi.“ Þeir sem eitthvað hafa kynnst Jóni Pétri hvort sem er í starfi eða fjölmiðlum vita að hann brennur fyrir góðum tengslum enda þykir hann afar hæfur þegar kemur að mannlegum samskiptum.

En hvað felst í þessu hugtaki, góð tengsl, og hvers vegna skiptir þetta máli í skólanum? „Það er hlutverk okkar að stíga fyrstu skrefin í að mynda tengingar við krakkana, hvort sem við erum kennarar eða annað starfsfólk skóla. Með góðum tengslum byggjum við brú yfir til nemandans. Í lífi unglings geta komið upp alls konar atvik sem okkur eldra fólkinu finnst kannski ekki skipta neinu máli, bara eðlilegt unglingadrama, en á þeim tímapunkti í þeirra lífi skiptir kannski þetta eina atvik gríðarlega miklu máli. Þá er svo mikilvægt að unglingurinn hafi einhvern fullorðinn sem þau treysta og geti leitað til. Við þurfum að gefa þeim tíma og hlusta á þau af einlægni sem einstaklinga en ekki bara kennitölur, við erum öll tilfinningaverur.“ Jón Pétur segir góð tengsl auka velferð nemenda og þau stuðli líka að betri námsárangri.

Félagsfærni minnkaði með tilkomu snjalltækjanna

Mannleg samskipti segir Jón Pétur aldrei hafa verið eins mikilvæg og einmitt núna með tilkomu allra snjalltækjanna og umbúða- og samanburðarmenningarinnar sem sé allsráðandi. „Það getur verið eins og vin í eyðimörkinni fyrir börn og ungmenni að komast í skugga úr sólinni og svala sálarþorsta sínum, sólin er þá samlíking fyrir samfélagsmiðlaheiminn sem getur verið krefjandi umhverfi. Það er mikið í gangi og ýmislegt sem þessir einstaklingar eru að pæla í og glíma við. Með tilkomu snjalltækjanna virðist félagsfærni hafa minnkað, það sýna tölur. Börn, ungmenni og fullorðnir eiga erfiðara með að tjá sig beint við næstu manneskju og við það tapast ákveðinn vettvangur og tækifæri til að tjá tilfinningar sínar. Tjáning yfir skjá getur auðveldlega misskilist eða rangtúlkast. Þörfin fyrir raunsamskipti er samofin mennsku okkar. Best er náttúrlega að börnin leiti til foreldranna en á unglingsaldri eru þau oft að reyna að slíta tengslin og þá getur góður kennari, námsráðgjafi, stjórnandi, stuðningsfulltrúi eða skólaliði verið mikilvægur.“ Jafnframt bætir hann við að ef nemendur upplifi að tekið sé eftir þeim, þeir skipti máli og á þá sé hlustað auki það vellíðan og þar með sé komin forsenda fyrir akademísku námi.

Samanburðar- og rjómamenning ekki góð

„Tölfræðin hér í skólanum styður þetta en við í Réttó höfum í mörg ár mælst með einelti um 2% sem er langt undir landsmeðaltali og námsárangur hefur auk þess verið góður. Annað sem er líka mikilvægt er að ef nemendur tala vel um skólann sinn heima þá verða foreldrarnir jákvæðari í garð skólans. Þar með erum við orðin samfélag sem rær allt í sömu átt og nær meiri árangri. Í raun tel ég að þessi tengslamál hafi aldrei verið eins mikilvæg hér á Íslandi og einmitt núna. Í nýlegri könnun í félagsfærni, sem gerð var á Evrópulöndunum, komu íslensk ungmenni verst út. Þar kom einnig í ljós að þau eiga erfiðast með að eignast nýja vini. Þetta er mikið áhyggjuefni en ég tel skýringuna meðal annars liggja í því að við erum nettengdasta þjóð heims og við eigum flest snjalltæki á hvern einstakling, þar með talin börn.“ Jón Pétur talar um ákveðna samanburðar- og rjómamenningu þar sem allt er æðislegt á samfélagsmiðlum. „Ég meina, enginn birtir af sér mynd, nýbúinn að hnerra með hor út á kinn, heldur er allt fallega framsett og ákveðinn draumaveruleiki sem birtist. Krakkar horfa svo á eitthvað rosa flott í 15 sekúndur og fá fullt af endorfínum en um leið bera þau sig saman við einhverjar óraunhæfar fyrirmyndir. Ekkert gott getur komið út úr slíkum samanburði.“

Skólinn verður að vera jöfnunartæki svo ekki verði gjá í samfélaginu

Jón Pétur tekur ákveðinn fram að það komi ekkert í staðinn fyrir raunveruleg mannleg samskipti. „Frá því að við þróuðumst sem lífverur höfum við þurft að eiga í samskiptum og vinna saman, við þurfum mannlega endurgjöf frá raunverulegu fólki sem horfir í augu okkar. Það er ekki nóg að fá bara broskarl eða hjarta. Ef þú hittir einhvern og átt við hann raunveruleg, djúp og einlæg samskipti þá gefur það þér svo miklu, miklu meira heldur en eitthvert rafrænt spjall. Samfélagið í dag er þannig upp byggt að við gefum okkur ekki nægan tíma til alvöru samskipta. Þess vegna er svo brýnt að skólinn virki sem jöfnunartæki þegar kemur að þessu, sérstaklega hjá þeim nemendum sem þurfa mest á félagslegum og andlegum stuðningi að halda. Ef skólinn gerir það ekki þá mun bilið á milli þeirra sem fá góðan stuðning heima fyrir og þeirra sem fá lítinn stuðning breikka. Þá erum við að búa til ákveðna gjá í samfélagið.“

mbl.is/Hanna Ingibjörg

Íslenskan mikilvægasta fagið

Annað sem hann nefnir sem eitt brýnasta málið í skólasamfélaginu í dag er íslenskan. „Við verðum að taka félagsfærnihlutverkinu alvarlega en svo er hitt að hlúa vel að tungumálinu okkar. Án félagsfærni og hæfni í íslensku mun tækifærum okkar fækka til muna. Þannig að ég lít svo á að meginhlutverk okkar sé að börnin verði vel læs, hafi mikinn orðaforða og hugtakaskilning, geti komið hugsunum sínum í orð ásamt því að vera félagslega hæf. Það eru heilmikil verðmæti fólgin í þessu tvennu. Því miður hefur verið að molna undan þessu undanfarin ár sem er áhyggjuefni. Við þurfum að vera meira saman og búa til sameiginlegar minningar. Á mörgum heimilum er það þannig að engir tveir gera það sama eða upplifa það sama. Einn er á YouTube, annar á TikTok, sá þriðji að horfa á mynd á Netflix og svo framvegis og allt á ensku. Ég veit að það er kannski svolítil forræðishyggja en línuleg dagskrá þar sem allir horfa saman á eitthvað og geta rætt efnið eftir á er að mörgu leyti betri. Þá er fjölskyldan að upplifa eitthvað sameiginlegt og umræður skapast á íslensku sem eru mikilvægar fyrir málþroska og orðaforða að ekki sé talað um félagslega þáttinn.“

Framúrskarandi kennarar með hæfni í mannlegum samskiptum

Jón Pétur segist hafa áhyggjur af þessari þróun en hverjar telur hann vera lausnirnar? „Ég held að við verðum öll í þessu samfélagi að leggjast á eitt og reyna að draga úr þeim mikla tíma sem börn og unglingar verja í rafheimum og þar bera foreldrar og aðstandendur barna líka mikla ábyrgð. Í skólanum er kennarinn gríðarlega mikilvægur og við þurfum að fá framúrskarandi kennara sem búa yfir mikilli hæfni í mannlegum samskiptum. Hlutverk kennara er ekki bara að kenna námsgreinarnar heldur líka að vera hæfir og góðir í tengslamyndun. Þeir þurfa að láta sig nemendur varða og vera til staðar fyrir öll þau mál sem kunna að skapast í skólastofunni. Ég veit að kennarastarfið getur verið flókið og það er stundum mikið áreiti í stórum nemendahópum en ef kennarinn er klár og hefur lagt vinnu í góð samskipti og tengsl í hópnum þá er eftirleikurinn auðveldari.“

Vantar virðingu fyrir kennarastarfinu

Eins og flestir vita er svolítill skortur á kennurum, hvers vegna skyldi það vera og hvernig sér Jón Pétur fyrir sér að ná í framúrskarandi fólk í kennslu? „Það þarf fyrst og fremst að finna leiðir til að auka virðingu fyrir kennarastarfinu. Vinnan getur tekið á en að sama skapi er hún mjög gefandi. Til að kennarar geti sinnt skyldum sínum betur og fái meira svigrúm til að hlúa að tengslunum þá myndi ég vilja sjá minni kennsluskyldu og auðvitað þyrftu launin að vera hærri þótt það sé ekki endilega alltaf forsenda fyrir góðu starfsfólki. Ég held að það sé mikilvægara að fá fólk sem brenni fyrir málstaðinn. Það er gríðarlega mikil lífshamingja fólgin í því að finna að það sé hægt að hafa jákvæð áhrif, að fá að heyra að samtal sem þú áttir við nemanda hafi gert það að verkum að hann sé aftur farinn að tala við pabba eða mömmu svo dæmi sé tekið. En auðvitað þurfa allir að hafa í sig og á, það má svo líka færa rök fyrir því að með hærri launum skapist meiri virðing fyrir starfinu.“ Jón Pétur bætir við að kennarar fái stundum spurninguna „ertu enn þá að kenna“ og bendir á að lögfræðingar eða verkfræðingar fái ekki svona spurningar, „ertu enn þá lögfræðingur?“ eða „ertu enn þá verkfræðingur?“

mbl.is/Hanna Ingibjörg

Fjölmiðlar fjalli lítið um kennara í 4. bekk

Hann bendir líka á að það sé sjaldan fjallað um kennarann í 4. bekk sem náði stórkostlegum árangri í starfi og líði mjög vel í sálinni þegar hann komi heim. „Hvers vegna erum við alltaf að heyra fréttir af einhverjum sem er að vinna með peninga eða hafa náð árangri á Manhattan? Það er sett í einhvern glansbúning og hafið upp í skýin. Þar er ekki endilega spurt hvernig viðkomandi líði eftir daginn og hver séu gildin í starfinu. Svo er líka annað og það er að flest fólk sem náð hefur langt, sem eins og ég segi er afstætt, hefur haft góða kennara, kennara sem kenndu þeim að lesa og skrifa og eiga þátt í því að þeir urðu góðar manneskjur.“ Jón Pétur segir að margir framúrskarandi kennarar og stjórnendur séu að vinna í skólakerfinu en þar séu líka meðalkennarar og einhverjir heldur slakir sem erfitt sé að losna við þar sem um er að ræða opinbera starfsmenn. „Ég væri til í að sjá meiri sveigjanleika í þessum reglum svo það er í mörg horn að líta. Það þekkja allir foreldrar hve mikilvægt það er að fá góðan kennara fyrir barnið sitt. Það ætti að vera regla í skyldunámi, góður kennari er ómetanlegur.“

Verðum að mæla góða kennslu og tengja við velgengi nemenda eftir 20 ár

Jón Pétur segir að ein lausnin til að auka virðingu og laða þá kannski fleiri framúrskarandi kennara að, sé að mæla árangur í einhvers konar tölum og setja þannig hlutina í samhengi. „Ég er meira að meina mælitæki sem sýnir fram á hvað góður kennari getur skipt miklu máli og að góð kennsla verði meira tengd við árangur fólks sem nýtur velgengni síðar á lífsleiðinni. Þetta er kannski erfitt en ég held að fólk skilji oft betur mikilvægi starfsins ef það er tengt við eitthvert raunverulegt dæmi en ég geri mér grein fyrir að það eru margar breytur í þessu. Annars hefði ég kannski einna helst viljað reyna að fá fólk í þessi störf sem er með ástríðu fyrir því að kenna og hefur góð gildi. Eru ekki ákveðin lífsgæði fólgin í því að geta horft yfir starfsferilinn og hafa kannski haft áhrif á líf fimm hundruð einstaklinga, verulega bætt farsæld og hamingju hundrað og jafnvel bjargað lífi fjögurra? Ég geri mér grein fyrir því að þetta er langtímaverkefni en það væri gaman að sjá menntamálaráðuneytið setja tíma og peninga í að reyna að mæla góða kennslu og áhrif hennar hvað hamingju og lífsgæði varðar. Almennt séð finnst mér líka vanta mælingar í skólakerfið. Við sáum til dæmis þegar samræmd próf voru notuð, þá var kannski óvenju góður árangur hjá einhverjum skóla í ensku sem mátti þá rekja til afburðakennara. Ég myndi til að mynda vilja að kennarar sem ná miklum árangri, bæði í akademískri kennslu og í tengslum, myndu fá að þjálfa nýja kennara.“

Samfélagið þarf að gera sér betur grein fyrir mikilvægi leikskólakennara

Jón Pétur segir einnig að það sé brýnt að samfélagið geri sér betur grein fyrir því hvað störf á öllum skólastigum séu mikilvæg fyrir framtíð Íslands. „Fólk sem vinnur á leikskólum gegnir mikilvægu hlutverki en helsta máltökuskeið barna og sá tími sem þau læra að mynda djúp tengsl eiga sér stað á fyrstu 1000 dögum eftir fæðingu. Þess vegna verður að ráða í þessi störf fólk sem talar góða íslensku og er algerlega framúrskarandi þegar kemur að tengslum og félagshæfni, á þessu er því miður ekki alltaf skilningur. Undanfarið hefur til dæmis verið svolítið í tísku að draga úr hlutverki og þátttöku kennarans. Nemendur eiga að vera að vinna sjálfstætt og kennarinn að vera hlutlaus í skugganum. Ég hef ekki mikla trú á þessu fyrir nemendur á grunnskólastigi þegar fullorðið fólk á erfitt með þetta. Þá kem ég aftur að þessu með mælingarnar. Við verðum að reyna að meta árangur kennslu og góðra kennara. Það er alveg hægt, við mælum til dæmis líðan nemenda í skólum reglulega og þá ættum við að auðveldlega að geta mælt og skoðað árangur kennslu.“

Grunnurinn að íslenskunni lagður á leikskólunum

Íslenska tungu ber aftur á góma en Jón Pétur segir nokkra hnignun hafa átt sér stað þegar kemur að tungumálinu enda séu ensk áhrif í snjalltækjunum mikil. Hvað telur hann vera til ráða til að sporna við þessari þróun? „Þar ættu allir að tala góða íslensku og nota fjölbreyttan orðaforða á öllum skólastigum og í félagsmiðstöðvum. Starfsfólk þarf að hafa gott vald á málinu og nýta hvert tækifæri til að útskýra orð sem nemendur þekkja ekki. Það þarf líka að gera þeim skiljanlegt hver ávinningurinn af því að vera góður í tungumálinu sé og þá vil ég bara beintengja það við peninga. Sá sem hefur gott vald á málinu og getur tjáð sig auðveldlega mun öðlast fleiri tækifæri í lífinu og þar af leiðandi auka líkur á meiri lífsgæðum. Íslenska er tungumálið okkar og góð þekking á málinu gerir okkur kleift að skilja betur samfélagið okkar. Við þurfum að vita hvað stjórnvöld ætla sér með alls konar skilaboðum og við verðum að geta komið hugsunum okkar í orð. Ef við viljum að tekið sé mark á okkur þá er tungumálið lykillinn. Við þurfum að snúa hlutunum þannig að það sé flott að tala góða íslensku og rækta málið.“

Bein tengsl milli spennandi tækifæra og íslensku

„Ég hef hrósað þeim fjölmiðlamönnum sem vanda málfar sitt, eins og Kjartani Atla Kjartanssyni, sem hefur fjallað um körfubolta þar sem mikið er af enskuslettum. Hans áherslur á íslenskuna skila sér greinilega út í íþróttina sjálfa. Mér finnst að fjölmiðlar ættu að sýna ábyrgð með því að hvetja til meiri málvöndunar. Í raun væri best ef fyrirmyndir til dæmis í fótboltanum myndu ganga fram og segja að það sé töff að tala flotta íslensku. Mér finnst líka að bæði kennarar og foreldrar þurfi að vera duglegir að benda nemendum á að það séu bein tengsl milli spennandi tækifæra í lífinu og íslenskukunnáttu. En góðar fyrirmyndir geta leikið mikilvægt hlutverk, gott dæmi um þetta er til dæmis hversu frábært það var á sínum tíma að rappararnir Erpur og Eyjólfur Eyvindarsynir ákváðu að rappa á íslensku. Síðan þá hafa margir fetað í þeirra spor og íslenska rappsenan nánast öll á íslensku.“ Jón Pétur bætir við að auk þess þurfi að leggja sérstaka áherslu á að nemendur lesi vandaða góða texta eftir fólk sem er öflugt í málinu. „Orðaforði og hugtakaskilningur er afar mikilvægur þegar kemur að lesskilningi, því til að skilja texta þá þarftu að þekkja 97% af orðunum í textanum. Þegar orðaforðinn verður mjög rýr þá smám saman forðast viðkomandi að lesa og einangrast. Þá er hætta á að viðkomandi geti sogast inn í einhverja samfélagsmiðlaholu og þá verður sá hinn sami ekki lengur virkur lýðræðisþegn. Þannig að lýðræðið er í húfi!“

Styðjið börnin en látið þau ryðja sína braut sjálf

Jón Pétur gæti eflaust talað endalaust um skólamál enda er eldmóður í hverju orði sem hann segir svo óhætt er að fullyrða að hann sé með heitari skólamönnum landsins. Þegar hann er að lokum beðinn heilræði til foreldra sem eru að senda barnið sitt í skóla í haust þá þarf hann ekki að hugsa sig um. „Ég hvet alla foreldra til að rækta tengslin. Það er á þeirra ábyrgð að hlúa að og tala við barnið sitt. Hlustið og verið þannig foreldrar að barnið geti alltaf leitað til ykkar þrátt fyrir að hafa orðið á eða gert mistök en að sama skapi skuluð þið ekki endilega leysa öll vandamálin fyrir börnin, þau þurfa stundum að fá að kljást við lífið. Þannig læra þau best, þroskast, verða sjálfstæð og ryðja sína braut sjálf.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda