Byrjaði í tannlæknisfræði en gat ekki tálgað tennur

„Við þurfum að vera meira saman og búa til sameiginlegar …
„Við þurfum að vera meira saman og búa til sameiginlegar minningar,“ segir Jón Pétur. Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Óhætt er að segja að Jón Pét­ur Zimsen sé meðal þekkt­ari skóla­manna lands­ins en hann læt­ur verk­in tala og er óhrædd­ur við að tjá skoðanir sín­ar á mennta­mál­um. Jón Pét­ur á að baki lang­an fer­il bæði sem kenn­ari, aðstoðarskóla­stjóri og skóla­stjóri ásamt því að hafa unnið við ýmis fé­lags­störf og verk­efni í tengsl­um við mennt­un en hann vann um tíma sem aðstoðarmaður mennta­málaráðherra. Um þess­ar mund­ir setj­ast þúsund­ir barna og ung­linga á skóla­bekk. Sjálf­ur á hann von á u.þ.b. 450 ung­ling­um í Rétt­ar­holts­skóla þar sem hann starfar sem aðstoðarskóla­stjóri.

Jón Pét­ur bros­ir þegar hann er spurður hvort hann hafi alltaf stefnt að því að verða kenn­ari og starfa við skóla­mál. „Ég stefndi á að læra eitt­hvað þar sem ég gæti stýrt vinnu­tím­an­um mín­um svo­lítið sjálf­ur og þénað svo­lít­inn pen­ing. Ég fór því að læra tann­lækn­is­fræði og gekk vel þangað til ég átti að tálga ein­hverj­ar tenn­ur í vax, það vafðist eitt­hvað fyr­ir mér þannig ég endaði á því að hætta þar og fór að vinna á leik­skóla í nokkra mánuði. Næsta haust sótti ég svo um sjúkraþjálf­ar­ann og Kenn­ara­há­skól­ann og eft­ir nokkr­ar pæl­ing­ar valdi ég Kennó. Þar með hófst veg­ferð mín um skóla­heim­inn en þess má geta að pabbi var kenn­ari og mik­ill lærifaðir minn svo kannski átti ég ekki langt að sækja þessa ástríðu. Ég út­skrifaðist svo árið 1999 og fór þá að kenna nátt­úru­fræði hér í Réttó.“ Jón Pét­ur bæt­ir við að hon­um hafi liðið ofboðslega vel að kenna, hann hafi strax náð góðum tengsl­um við nem­end­ur, for­eldra og sam­kenn­ara. Þessi tengsl skiluðu nem­end­um góðum ár­angri í nátt­úru­fræði sem ekki er alltaf vin­sæl­asta náms­grein­in. Ég fékk mikið út úr því að sjá nem­end­ur fyll­ast áhuga og metnaði fyr­ir náms­grein­inni og meiri­hluti þeirra valdi hana sem auka­val­fag. ,,Ég var bú­inn að finna mína hillu og sá fyr­ir mér að ég myndi vera nátt­úru­fræðikenn­ari í Réttó til sjö­tugs. Kenn­ara­starfið gerði í raun allt fyr­ir mig sem hver maður get­ur óskað sér, nær­andi sam­starfs­menn, mót­tæki­lega ung­linga og út­rás fyr­ir þá þörf að reyna að bæta við þekk­ingu og áhuga nem­enda á nám­inu.“

Gengið á eft­ir hon­um að verða stjórn­andi

Í um átta ár starfaði Jón Pét­ur sem nátt­úru­fræðikenn­ari en þá rak á fjör­ur hans ýmis önn­ur til­boð. „Árið 2007 hætti aðstoðarskóla­stjóri Réttó og varð skóla­stjóri Haga­skóla, hann reyndi að fá mig yfir með sér sem aðstoðarskóla­stjóra en ég hafði tak­markaðan áhuga á því að verða stjórn­andi. Á sama tíma var mér líka boðin skóla­stjórastaða í öðrum skóla sem ég þáði ekki held­ur enda leið mér vel í mínu starfi. En á þess­um tíma var Hilm­ar Hilm­ars­son skóla­stjóri í Réttó og hann vantaði þá aðstoðarskóla­stjóra þar sem sá fyrri fór í Haga­skóla. Þar sem Hilm­ar er einn af þeim ein­stak­ling­um sem ég hef litið upp til og ber mikla virðingu fyr­ir hef ég tamið mér það að hlusta vel þegar hann tal­ar. Hann hef­ur kennt mér ótal hluti um lífið og til­ver­una og þegar hann bað mig að taka við starfi aðstoðarskóla­stjóra ákvað ég að slá til í a.m.k. eitt ár. Ég var líka bú­inn að tryggja góða kenn­ara til að taka við nátt­úru­fræðikennsl­unni og hún því í góðum hönd­um, en hún var svo­lítið eins og barnið mitt. Ég var aðstoðarskóla­stjóri til 2015 en þá tók ég við sem skóla­stjóri. Ég gegndi því starfi í þrjú ár en þá varð ég aðstoðarmaður mennta­málaráðherra í eitt ár. Skól­inn kallaði alltaf á mig aft­ur og ég sneri því til baka í Réttó árið 2019 og var þar í eitt ár. Ég var síðan ráðinn sem skóla­stjóri Mela­skóla í ákveðið verk­efni og var þar í eitt ár en sneri svo hingað aft­ur og líður bara mjög vel hér.“

mbl.is/​Hanna Ingi­björg

Góð tengsl ávallt verið í brenni­depli

Jón Pét­ur virðist alltaf leita aft­ur í Réttó, hvað er það sem tog­ar svona í hann þar? „Það er fyrst og fremst menn­ing­in hér í skól­an­um og ald­urs­stig nem­enda en Réttó er ung­linga­skóli sem kenn­ir 8. 9. og 10 bekk. Ég tengi vel við þenn­an ald­ur þar sem svo gríðarleg­ar breyt­ing­ar eru í gangi hjá nem­end­um og maður get­ur haft já­kvæð og upp­byggi­leg áhrif á mik­inn fjölda ung­linga. Í þess­um ald­urs­hópi er einkar mik­il eft­ir­spurn eft­ir hlust­un og ég gef mér tíma til að hlýða á hvað býr í brjóst­um ung­ling­anna. Ég hef alla tíð lagt mikið upp úr góðum tengsl­um bæði sem ein­stak­ling­ur, kenn­ari og stjórn­andi enda tel ég þau vera for­sendu fyr­ir öllu námi.“ Þeir sem eitt­hvað hafa kynnst Jóni Pétri hvort sem er í starfi eða fjöl­miðlum vita að hann brenn­ur fyr­ir góðum tengsl­um enda þykir hann afar hæf­ur þegar kem­ur að mann­leg­um sam­skipt­um.

En hvað felst í þessu hug­taki, góð tengsl, og hvers vegna skipt­ir þetta máli í skól­an­um? „Það er hlut­verk okk­ar að stíga fyrstu skref­in í að mynda teng­ing­ar við krakk­ana, hvort sem við erum kenn­ar­ar eða annað starfs­fólk skóla. Með góðum tengsl­um byggj­um við brú yfir til nem­andans. Í lífi ung­lings geta komið upp alls kon­ar at­vik sem okk­ur eldra fólk­inu finnst kannski ekki skipta neinu máli, bara eðli­legt ung­linga­drama, en á þeim tíma­punkti í þeirra lífi skipt­ir kannski þetta eina at­vik gríðarlega miklu máli. Þá er svo mik­il­vægt að ung­ling­ur­inn hafi ein­hvern full­orðinn sem þau treysta og geti leitað til. Við þurf­um að gefa þeim tíma og hlusta á þau af ein­lægni sem ein­stak­linga en ekki bara kenni­töl­ur, við erum öll til­finn­inga­ver­ur.“ Jón Pét­ur seg­ir góð tengsl auka vel­ferð nem­enda og þau stuðli líka að betri náms­ár­angri.

Fé­lags­færni minnkaði með til­komu snjall­tækj­anna

Mann­leg sam­skipti seg­ir Jón Pét­ur aldrei hafa verið eins mik­il­væg og ein­mitt núna með til­komu allra snjall­tækj­anna og umbúða- og sam­an­b­urðar­menn­ing­ar­inn­ar sem sé alls­ráðandi. „Það get­ur verið eins og vin í eyðimörk­inni fyr­ir börn og ung­menni að kom­ast í skugga úr sól­inni og svala sál­arþorsta sín­um, sól­in er þá sam­lík­ing fyr­ir sam­fé­lags­miðlaheim­inn sem get­ur verið krefj­andi um­hverfi. Það er mikið í gangi og ým­is­legt sem þess­ir ein­stak­ling­ar eru að pæla í og glíma við. Með til­komu snjall­tækj­anna virðist fé­lags­færni hafa minnkað, það sýna töl­ur. Börn, ung­menni og full­orðnir eiga erfiðara með að tjá sig beint við næstu mann­eskju og við það tap­ast ákveðinn vett­vang­ur og tæki­færi til að tjá til­finn­ing­ar sín­ar. Tján­ing yfir skjá get­ur auðveld­lega mis­skil­ist eða rangtúlkast. Þörf­in fyr­ir raun­sam­skipti er samof­in mennsku okk­ar. Best er nátt­úr­lega að börn­in leiti til for­eldr­anna en á ung­lings­aldri eru þau oft að reyna að slíta tengsl­in og þá get­ur góður kenn­ari, náms­ráðgjafi, stjórn­andi, stuðnings­full­trúi eða skólaliði verið mik­il­væg­ur.“ Jafn­framt bæt­ir hann við að ef nem­end­ur upp­lifi að tekið sé eft­ir þeim, þeir skipti máli og á þá sé hlustað auki það vellíðan og þar með sé kom­in for­senda fyr­ir aka­demísku námi.

Sam­an­b­urðar- og rjóma­menn­ing ekki góð

„Töl­fræðin hér í skól­an­um styður þetta en við í Réttó höf­um í mörg ár mælst með einelti um 2% sem er langt und­ir landsmeðaltali og náms­ár­ang­ur hef­ur auk þess verið góður. Annað sem er líka mik­il­vægt er að ef nem­end­ur tala vel um skól­ann sinn heima þá verða for­eldr­arn­ir já­kvæðari í garð skól­ans. Þar með erum við orðin sam­fé­lag sem rær allt í sömu átt og nær meiri ár­angri. Í raun tel ég að þessi tengsla­mál hafi aldrei verið eins mik­il­væg hér á Íslandi og ein­mitt núna. Í ný­legri könn­un í fé­lags­færni, sem gerð var á Evr­ópu­lönd­un­um, komu ís­lensk ung­menni verst út. Þar kom einnig í ljós að þau eiga erfiðast með að eign­ast nýja vini. Þetta er mikið áhyggju­efni en ég tel skýr­ing­una meðal ann­ars liggja í því að við erum nettengd­asta þjóð heims og við eig­um flest snjall­tæki á hvern ein­stak­ling, þar með tal­in börn.“ Jón Pét­ur tal­ar um ákveðna sam­an­b­urðar- og rjóma­menn­ingu þar sem allt er æðis­legt á sam­fé­lags­miðlum. „Ég meina, eng­inn birt­ir af sér mynd, ný­bú­inn að hnerra með hor út á kinn, held­ur er allt fal­lega fram­sett og ákveðinn drauma­veru­leiki sem birt­ist. Krakk­ar horfa svo á eitt­hvað rosa flott í 15 sek­únd­ur og fá fullt af endorfín­um en um leið bera þau sig sam­an við ein­hverj­ar óraun­hæf­ar fyr­ir­mynd­ir. Ekk­ert gott get­ur komið út úr slík­um sam­an­b­urði.“

Skól­inn verður að vera jöfn­un­ar­tæki svo ekki verði gjá í sam­fé­lag­inu

Jón Pét­ur tek­ur ákveðinn fram að það komi ekk­ert í staðinn fyr­ir raun­veru­leg mann­leg sam­skipti. „Frá því að við þróuðumst sem líf­ver­ur höf­um við þurft að eiga í sam­skipt­um og vinna sam­an, við þurf­um mann­lega end­ur­gjöf frá raun­veru­legu fólki sem horf­ir í augu okk­ar. Það er ekki nóg að fá bara broskarl eða hjarta. Ef þú hitt­ir ein­hvern og átt við hann raun­veru­leg, djúp og ein­læg sam­skipti þá gef­ur það þér svo miklu, miklu meira held­ur en eitt­hvert ra­f­rænt spjall. Sam­fé­lagið í dag er þannig upp byggt að við gef­um okk­ur ekki næg­an tíma til al­vöru sam­skipta. Þess vegna er svo brýnt að skól­inn virki sem jöfn­un­ar­tæki þegar kem­ur að þessu, sér­stak­lega hjá þeim nem­end­um sem þurfa mest á fé­lags­leg­um og and­leg­um stuðningi að halda. Ef skól­inn ger­ir það ekki þá mun bilið á milli þeirra sem fá góðan stuðning heima fyr­ir og þeirra sem fá lít­inn stuðning breikka. Þá erum við að búa til ákveðna gjá í sam­fé­lagið.“

mbl.is/​Hanna Ingi­björg

Íslensk­an mik­il­væg­asta fagið

Annað sem hann nefn­ir sem eitt brýn­asta málið í skóla­sam­fé­lag­inu í dag er ís­lensk­an. „Við verðum að taka fé­lags­færni­hlut­verk­inu al­var­lega en svo er hitt að hlúa vel að tungu­mál­inu okk­ar. Án fé­lags­færni og hæfni í ís­lensku mun tæki­fær­um okk­ar fækka til muna. Þannig að ég lít svo á að meg­in­hlut­verk okk­ar sé að börn­in verði vel læs, hafi mik­inn orðaforða og hug­taka­skiln­ing, geti komið hugs­un­um sín­um í orð ásamt því að vera fé­lags­lega hæf. Það eru heil­mik­il verðmæti fólg­in í þessu tvennu. Því miður hef­ur verið að molna und­an þessu und­an­far­in ár sem er áhyggju­efni. Við þurf­um að vera meira sam­an og búa til sam­eig­in­leg­ar minn­ing­ar. Á mörg­um heim­il­um er það þannig að eng­ir tveir gera það sama eða upp­lifa það sama. Einn er á YouTu­be, ann­ar á TikT­ok, sá þriðji að horfa á mynd á Net­flix og svo fram­veg­is og allt á ensku. Ég veit að það er kannski svo­lít­il for­ræðis­hyggja en línu­leg dag­skrá þar sem all­ir horfa sam­an á eitt­hvað og geta rætt efnið eft­ir á er að mörgu leyti betri. Þá er fjöl­skyld­an að upp­lifa eitt­hvað sam­eig­in­legt og umræður skap­ast á ís­lensku sem eru mik­il­væg­ar fyr­ir málþroska og orðaforða að ekki sé talað um fé­lags­lega þátt­inn.“

Framúrsk­ar­andi kenn­ar­ar með hæfni í mann­leg­um sam­skipt­um

Jón Pét­ur seg­ist hafa áhyggj­ur af þess­ari þróun en hverj­ar tel­ur hann vera lausn­irn­ar? „Ég held að við verðum öll í þessu sam­fé­lagi að leggj­ast á eitt og reyna að draga úr þeim mikla tíma sem börn og ung­ling­ar verja í raf­heim­um og þar bera for­eldr­ar og aðstand­end­ur barna líka mikla ábyrgð. Í skól­an­um er kenn­ar­inn gríðarlega mik­il­væg­ur og við þurf­um að fá framúrsk­ar­andi kenn­ara sem búa yfir mik­illi hæfni í mann­leg­um sam­skipt­um. Hlut­verk kenn­ara er ekki bara að kenna náms­grein­arn­ar held­ur líka að vera hæf­ir og góðir í tengslamynd­un. Þeir þurfa að láta sig nem­end­ur varða og vera til staðar fyr­ir öll þau mál sem kunna að skap­ast í skóla­stof­unni. Ég veit að kenn­ara­starfið get­ur verið flókið og það er stund­um mikið áreiti í stór­um nem­enda­hóp­um en ef kenn­ar­inn er klár og hef­ur lagt vinnu í góð sam­skipti og tengsl í hópn­um þá er eft­ir­leik­ur­inn auðveld­ari.“

Vant­ar virðingu fyr­ir kenn­ara­starf­inu

Eins og flest­ir vita er svo­lít­ill skort­ur á kenn­ur­um, hvers vegna skyldi það vera og hvernig sér Jón Pét­ur fyr­ir sér að ná í framúrsk­ar­andi fólk í kennslu? „Það þarf fyrst og fremst að finna leiðir til að auka virðingu fyr­ir kenn­ara­starf­inu. Vinn­an get­ur tekið á en að sama skapi er hún mjög gef­andi. Til að kenn­ar­ar geti sinnt skyld­um sín­um bet­ur og fái meira svig­rúm til að hlúa að tengsl­un­um þá myndi ég vilja sjá minni kennslu­skyldu og auðvitað þyrftu laun­in að vera hærri þótt það sé ekki endi­lega alltaf for­senda fyr­ir góðu starfs­fólki. Ég held að það sé mik­il­væg­ara að fá fólk sem brenni fyr­ir málstaðinn. Það er gríðarlega mik­il lífs­ham­ingja fólg­in í því að finna að það sé hægt að hafa já­kvæð áhrif, að fá að heyra að sam­tal sem þú átt­ir við nem­anda hafi gert það að verk­um að hann sé aft­ur far­inn að tala við pabba eða mömmu svo dæmi sé tekið. En auðvitað þurfa all­ir að hafa í sig og á, það má svo líka færa rök fyr­ir því að með hærri laun­um skap­ist meiri virðing fyr­ir starf­inu.“ Jón Pét­ur bæt­ir við að kenn­ar­ar fái stund­um spurn­ing­una „ertu enn þá að kenna“ og bend­ir á að lög­fræðing­ar eða verk­fræðing­ar fái ekki svona spurn­ing­ar, „ertu enn þá lög­fræðing­ur?“ eða „ertu enn þá verk­fræðing­ur?“

mbl.is/​Hanna Ingi­björg

Fjöl­miðlar fjalli lítið um kenn­ara í 4. bekk

Hann bend­ir líka á að það sé sjald­an fjallað um kenn­ar­ann í 4. bekk sem náði stór­kost­leg­um ár­angri í starfi og líði mjög vel í sál­inni þegar hann komi heim. „Hvers vegna erum við alltaf að heyra frétt­ir af ein­hverj­um sem er að vinna með pen­inga eða hafa náð ár­angri á Man­hatt­an? Það er sett í ein­hvern glans­bún­ing og hafið upp í ský­in. Þar er ekki endi­lega spurt hvernig viðkom­andi líði eft­ir dag­inn og hver séu gild­in í starf­inu. Svo er líka annað og það er að flest fólk sem náð hef­ur langt, sem eins og ég segi er af­stætt, hef­ur haft góða kenn­ara, kenn­ara sem kenndu þeim að lesa og skrifa og eiga þátt í því að þeir urðu góðar mann­eskj­ur.“ Jón Pét­ur seg­ir að marg­ir framúrsk­ar­andi kenn­ar­ar og stjórn­end­ur séu að vinna í skóla­kerf­inu en þar séu líka meðal­kenn­ar­ar og ein­hverj­ir held­ur slak­ir sem erfitt sé að losna við þar sem um er að ræða op­in­bera starfs­menn. „Ég væri til í að sjá meiri sveigj­an­leika í þess­um regl­um svo það er í mörg horn að líta. Það þekkja all­ir for­eldr­ar hve mik­il­vægt það er að fá góðan kenn­ara fyr­ir barnið sitt. Það ætti að vera regla í skyldu­námi, góður kenn­ari er ómet­an­leg­ur.“

Verðum að mæla góða kennslu og tengja við vel­gengi nem­enda eft­ir 20 ár

Jón Pét­ur seg­ir að ein lausn­in til að auka virðingu og laða þá kannski fleiri framúrsk­ar­andi kenn­ara að, sé að mæla ár­ang­ur í ein­hvers kon­ar töl­um og setja þannig hlut­ina í sam­hengi. „Ég er meira að meina mæli­tæki sem sýn­ir fram á hvað góður kenn­ari get­ur skipt miklu máli og að góð kennsla verði meira tengd við ár­ang­ur fólks sem nýt­ur vel­gengni síðar á lífs­leiðinni. Þetta er kannski erfitt en ég held að fólk skilji oft bet­ur mik­il­vægi starfs­ins ef það er tengt við eitt­hvert raun­veru­legt dæmi en ég geri mér grein fyr­ir að það eru marg­ar breyt­ur í þessu. Ann­ars hefði ég kannski einna helst viljað reyna að fá fólk í þessi störf sem er með ástríðu fyr­ir því að kenna og hef­ur góð gildi. Eru ekki ákveðin lífs­gæði fólg­in í því að geta horft yfir starfs­fer­il­inn og hafa kannski haft áhrif á líf fimm hundruð ein­stak­linga, veru­lega bætt far­sæld og ham­ingju hundrað og jafn­vel bjargað lífi fjög­urra? Ég geri mér grein fyr­ir því að þetta er lang­tíma­verk­efni en það væri gam­an að sjá mennta­málaráðuneytið setja tíma og pen­inga í að reyna að mæla góða kennslu og áhrif henn­ar hvað ham­ingju og lífs­gæði varðar. Al­mennt séð finnst mér líka vanta mæl­ing­ar í skóla­kerfið. Við sáum til dæm­is þegar sam­ræmd próf voru notuð, þá var kannski óvenju góður ár­ang­ur hjá ein­hverj­um skóla í ensku sem mátti þá rekja til af­burðakenn­ara. Ég myndi til að mynda vilja að kenn­ar­ar sem ná mikl­um ár­angri, bæði í aka­demískri kennslu og í tengsl­um, myndu fá að þjálfa nýja kenn­ara.“

Sam­fé­lagið þarf að gera sér bet­ur grein fyr­ir mik­il­vægi leik­skóla­kenn­ara

Jón Pét­ur seg­ir einnig að það sé brýnt að sam­fé­lagið geri sér bet­ur grein fyr­ir því hvað störf á öll­um skóla­stig­um séu mik­il­væg fyr­ir framtíð Íslands. „Fólk sem vinn­ur á leik­skól­um gegn­ir mik­il­vægu hlut­verki en helsta mál­töku­skeið barna og sá tími sem þau læra að mynda djúp tengsl eiga sér stað á fyrstu 1000 dög­um eft­ir fæðingu. Þess vegna verður að ráða í þessi störf fólk sem tal­ar góða ís­lensku og er al­ger­lega framúrsk­ar­andi þegar kem­ur að tengsl­um og fé­lags­hæfni, á þessu er því miður ekki alltaf skiln­ing­ur. Und­an­farið hef­ur til dæm­is verið svo­lítið í tísku að draga úr hlut­verki og þátt­töku kenn­ar­ans. Nem­end­ur eiga að vera að vinna sjálf­stætt og kenn­ar­inn að vera hlut­laus í skugg­an­um. Ég hef ekki mikla trú á þessu fyr­ir nem­end­ur á grunn­skóla­stigi þegar full­orðið fólk á erfitt með þetta. Þá kem ég aft­ur að þessu með mæl­ing­arn­ar. Við verðum að reyna að meta ár­ang­ur kennslu og góðra kenn­ara. Það er al­veg hægt, við mæl­um til dæm­is líðan nem­enda í skól­um reglu­lega og þá ætt­um við að auðveld­lega að geta mælt og skoðað ár­ang­ur kennslu.“

Grunn­ur­inn að ís­lensk­unni lagður á leik­skól­un­um

Íslenska tungu ber aft­ur á góma en Jón Pét­ur seg­ir nokkra hnign­un hafa átt sér stað þegar kem­ur að tungu­mál­inu enda séu ensk áhrif í snjall­tækj­un­um mik­il. Hvað tel­ur hann vera til ráða til að sporna við þess­ari þróun? „Þar ættu all­ir að tala góða ís­lensku og nota fjöl­breytt­an orðaforða á öll­um skóla­stig­um og í fé­lags­miðstöðvum. Starfs­fólk þarf að hafa gott vald á mál­inu og nýta hvert tæki­færi til að út­skýra orð sem nem­end­ur þekkja ekki. Það þarf líka að gera þeim skilj­an­legt hver ávinn­ing­ur­inn af því að vera góður í tungu­mál­inu sé og þá vil ég bara bein­tengja það við pen­inga. Sá sem hef­ur gott vald á mál­inu og get­ur tjáð sig auðveld­lega mun öðlast fleiri tæki­færi í líf­inu og þar af leiðandi auka lík­ur á meiri lífs­gæðum. Íslenska er tungu­málið okk­ar og góð þekk­ing á mál­inu ger­ir okk­ur kleift að skilja bet­ur sam­fé­lagið okk­ar. Við þurf­um að vita hvað stjórn­völd ætla sér með alls kon­ar skila­boðum og við verðum að geta komið hugs­un­um okk­ar í orð. Ef við vilj­um að tekið sé mark á okk­ur þá er tungu­málið lyk­ill­inn. Við þurf­um að snúa hlut­un­um þannig að það sé flott að tala góða ís­lensku og rækta málið.“

Bein tengsl milli spenn­andi tæki­færa og ís­lensku

„Ég hef hrósað þeim fjöl­miðlamönn­um sem vanda mál­far sitt, eins og Kjart­ani Atla Kjart­ans­syni, sem hef­ur fjallað um körfu­bolta þar sem mikið er af ensku­slett­um. Hans áhersl­ur á ís­lensk­una skila sér greini­lega út í íþrótt­ina sjálfa. Mér finnst að fjöl­miðlar ættu að sýna ábyrgð með því að hvetja til meiri mál­vönd­un­ar. Í raun væri best ef fyr­ir­mynd­ir til dæm­is í fót­bolt­an­um myndu ganga fram og segja að það sé töff að tala flotta ís­lensku. Mér finnst líka að bæði kenn­ar­ar og for­eldr­ar þurfi að vera dug­leg­ir að benda nem­end­um á að það séu bein tengsl milli spenn­andi tæki­færa í líf­inu og ís­lenskukunn­áttu. En góðar fyr­ir­mynd­ir geta leikið mik­il­vægt hlut­verk, gott dæmi um þetta er til dæm­is hversu frá­bært það var á sín­um tíma að rapp­ar­arn­ir Erp­ur og Eyj­ólf­ur Ey­vind­ar­syn­ir ákváðu að rappa á ís­lensku. Síðan þá hafa marg­ir fetað í þeirra spor og ís­lenska rapp­sen­an nán­ast öll á ís­lensku.“ Jón Pét­ur bæt­ir við að auk þess þurfi að leggja sér­staka áherslu á að nem­end­ur lesi vandaða góða texta eft­ir fólk sem er öfl­ugt í mál­inu. „Orðaforði og hug­taka­skiln­ing­ur er afar mik­il­væg­ur þegar kem­ur að lesskiln­ingi, því til að skilja texta þá þarftu að þekkja 97% af orðunum í text­an­um. Þegar orðaforðinn verður mjög rýr þá smám sam­an forðast viðkom­andi að lesa og ein­angr­ast. Þá er hætta á að viðkom­andi geti sog­ast inn í ein­hverja sam­fé­lags­miðlaholu og þá verður sá hinn sami ekki leng­ur virk­ur lýðræðisþegn. Þannig að lýðræðið er í húfi!“

Styðjið börn­in en látið þau ryðja sína braut sjálf

Jón Pét­ur gæti ef­laust talað enda­laust um skóla­mál enda er eld­móður í hverju orði sem hann seg­ir svo óhætt er að full­yrða að hann sé með heit­ari skóla­mönn­um lands­ins. Þegar hann er að lok­um beðinn heil­ræði til for­eldra sem eru að senda barnið sitt í skóla í haust þá þarf hann ekki að hugsa sig um. „Ég hvet alla for­eldra til að rækta tengsl­in. Það er á þeirra ábyrgð að hlúa að og tala við barnið sitt. Hlustið og verið þannig for­eldr­ar að barnið geti alltaf leitað til ykk­ar þrátt fyr­ir að hafa orðið á eða gert mis­tök en að sama skapi skuluð þið ekki endi­lega leysa öll vanda­mál­in fyr­ir börn­in, þau þurfa stund­um að fá að kljást við lífið. Þannig læra þau best, þrosk­ast, verða sjálf­stæð og ryðja sína braut sjálf.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda