Ólafur flutti til London til að vera nær barnabarninu

Hjónin Herdís og Ólafur fluttu tímabundið til London þegar sonur …
Hjónin Herdís og Ólafur fluttu tímabundið til London þegar sonur þeirra Ari eignaðist sitt fyrsta barn. Barnið er jafnframt fyrsta barnabarn þeirra. Samsett mynd

Ólafur Gunnar Guðlaugsson rithöfundur var að gefa frá sér bókina Návaldið. Í gegnum tíðina hefur fjölskylda hans veitt honum innblástur í skáldsagnagerðinni en Ólafur er mikill fjölskyldumaður. Ólafur hefur verið kvæntur Herdísi Finnbogadóttur sálfræðingi í yfir 30 ár og saman eiga þau Ara og Ragnar. Fyrr á árinu bættist afabarnið Tristan Logi við fjölskylduna. 

Ólafur segir það virkilega góða tilfinningu að hafa klárað heilan þríleik og vera búinn að gefa út lokabókina Návaldið. „Ég fékk fyrstu hugmyndina að Ljósbera árið 2008, vann með hana í mörg ár, fór fram og til baka og á endanum áttaði mig á því að sagan var það stór að ein bók gæti ekki gert sögunni fullkomin skil. Án þess að kjafta frá neinu þá fjallar bókin um fjögur ungmenni á þriðja ári í Hagaskóla. Þeim er öllum gefin skyggnigáfa en eru mislangt á veg komin að beita henni. Fljótlega blasir við að ekkert sem þau þóttust vita um lífið, alheiminn og eðli tilverunnar er eins og þau héldu – eða gat órað fyrir – og vilji þeirra og geta til að sættast við krafta sína og læra að beita þeim skipti sköpum í viðureigninni við þau hryllilegu ofuröfl sem ógna tilveru okkar allra,“ segir Ólafur um bækurnar þrjár. 

„Ég var kominn þokkalega af stað þegar Covid-19 faraldurinn skall á. Það leiddi til þess að ég var látinn fara frá því starfi sem ég var í og þá var ekkert annað en að klára fyrstu bókina, Ljósbera. Mér gekk vel og fékk Íslensku barnabókaverðlaunin 2021, sem er mikill heiður. Ég var kominn á ról og næsta bók, Ofurvættir, rann á síðurnar eins og ekkert var! En þriðja bókin, Návaldið, var nokkuð snúin. Ég vissi vel hvernig þessi epík ætti að enda en var orðinn svo tengdur sögupersónunum að ég átti erfitt með að láta þau ganga í gegnum þann hrylling sem beið þeirra. Ég held að ég hafi náð að lenda þessu nokkuð vel,“ segir Ólafur og hlær.

Ólafur fagnaði útgáfu Návaldsins í skemmtilegu útgáfuteitu á dögunum.
Ólafur fagnaði útgáfu Návaldsins í skemmtilegu útgáfuteitu á dögunum. Ljósmynd/Aðsend

„Við vorum svona þrír nördagæjar“

Áður en að þríleikurinn kom út hafði Ólafur skrifað bókaflokkinn vinsæla um Benedikt búálf en hann segir öðruvísi að skrifa fyrir eldri lesendur. 

„Í fyrsta lagi þá eru barnabækur oftast myndskreyttar og ekki mikið lengri en 40 síður. Ég hafði þá þegar skrifað og teiknað níu bækur um hann Benedikt minn búálf og framleitt eitt stykki söngleik. Það var gaman og mér gekk vel. En að skrifa 300 plús síður í þremur bókum það er allt annað mál! Og satt best að segja þá vissi ég ekkert hvað ég var að demba mér út í. En ég vissi hvernig sagan átti að vera. Ég vildi skapa epíska skáldsögu sem var bæði ofurnáttúruleg og ógnvænleg, fyndin og sorgleg en alltaf spennandi, með kraftmikilli atburðarás sem myndi halda lesendum í ofvæni fram að síðustu síðu. Aðalpersónurnar, hetjur sögunnar, urðu að vera áhugaverðar, gæddar miklum kostum en háðar töluverðum takmörkunum. Uppruni þeirra og fortíð er mismunandi. Þeim er hent inn í fullorðinsaðstæður, þar sem ein slæm ákvörðun, eitt hik, getur skipt sköpum á milli lífs og dauða. Ógnin er mikil og það er ekkert sem segir að þau lifi endilega af.“

Fjölskyldan fagnaði vel þegar Ari vann Söngvakeppnina árið 2018.
Fjölskyldan fagnaði vel þegar Ari vann Söngvakeppnina árið 2018. Ljósmynd/Aðsend

Hafði það eitthvað með að gera að strákarnir þínir voru orðnir eldri að þú fórst að skrifa fyrir eldri lesendahóp?

„Já, tvímælalaust. Sko, það er þannig að ég er þessi „orginal“ nörd. Ég elska góðar myndasögur, góðar sjónvarpsseríur og bíó og mér tókst fullkomlega að smita strákana mína! Við vorum svona þrír nördagæjar að tala og spekúlera um alls kona ofurhetjur og furðusögur. Mjög gaman. En þeir, eins og svo margir krakkar, áttu pínu erfitt með halda fókus í að lesa heilu bækurnar. Það var þá sem ég fór að leggja drögin að Ljósbera og öðrum sögum sem ég er að vinna í núna.

Við erum þónokkur hér á Íslandi sem erum að skrifa fyrir unglinga svokallaðar ungmennabækur og við gerum það af fullum hug og fullri nauðsyn. Fyrir mitt leyti þá er ég að skemmta krakkanum í sjálfum mér og ég er að skrifa sögur sem ég veit að margir unglingar munu hafa gaman af. Menningarlegt gildi ungmennabókmennta er gífurlega mikið og mikilvægt, því ef við viljum að okkar yngri lesendur hafi yndi af því að lesa skáldsögur þá ber okkur að skapa fleiri sögur sem höfða til þeirra. Við verðum að ala upp lesendur á íslensku. Það er ekki þannig að fullorðin manneskja, sem hefur aldrei tamið sér lestur, vakni upp einn góðan veðurdag og segir: „Jæja, nú ætla ég að fara að lesa fullt af bókum!“ Það er bara ekki þannig.“

Fjölskyldan í London.
Fjölskyldan í London. Ljósmynd/Aðsend

Bræðurnir Ari og Ragnar eru fullorðnir menn í dag, 25 ára og 23 ára. Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort að föðurhlutverkið breytist á einhvern hátt með aldrinum. 

„Auðvitað. En samt ekki eins mikið og margir halda. Ég kem fram við syni mína í dag eins og ég hef alltaf gert. Ég tala við þá, ekki predika, ekki tala yfir hausamótunum á þeim, ekki skipa þeim fyrir. Vera bara almennt hress og kátur og ekki plaga þá með þínum vandamálum. Við Herdís vorum mjög samstíga í okkar uppeldi. Við settum ramma en vorum alltaf, eða oftast, sanngjörn. Það voru þessi grunngildi sem við töldum nauðsynleg; vera duglegur, klára það sem þú byrjar á, ekki gefast upp, gangast við tilfinningum þínum, gangast við því sem maður hefur gert og við kenndum þeim að það er algerlega ókeypis að biðjast afsökunar, svoleiðis hlutir. En að þessu sögðu þá er drengirnir okkar með einstaklega gott upplag, virkilega góðir gæjar og við hjónin hljótum að hafa gert eitthvað rétt því þeir sækjast mikið eftir okkar nærveru, þeir og kærustur þeirra. Lífið er gott!“

Ólafur og Herdís eru náin sonum sínum og kærustum.
Ólafur og Herdís eru náin sonum sínum og kærustum.

Góð ákvörðun að vera nær barnabarninu

Í apríl eignaðist Ari eldri sonur þeirra Ólafs og Herdísar soninn Tristan Loga með sambýliskonu sinni, Sólveigu Lilju Rögnvaldsdóttur. Ólafur er stoltur afi og segir litla kútinn vera þvílíkan yndisbolta. Áður en sá stutti var kominn með nafn var hann kallaður Larry af vinum Ara. Gælunafnið var stytting á little Ari eða litli Ari. „Verst er að þau búa í London – þannig að við bara fluttum til þeirra,“ segir Ólafur. 

Hvernig var að flytja til London í þrjá mánuði til að hjálpa með barnabarnið? 

„Á þeim tíma sem Tristan Logi fæddist var Ari að klára masterinn sinn í The Royal Academy of Music í Musical Theatre. Herdís sá strax í hvað stefndi í upphafi meðgöngunnar. Ég skal viðurkenna að ég var seinni til, var atvinnulaus og sá bara vandamál. En síðan fékk ég vinnu sem myndi byrja í ágúst og að lokum gerðum við þær ráðstafanir sem þurfti og við fluttum til London 21. apríl. Það kom ekkert annað til greina. Ari var mjög upptekinn og þetta er líklega ein besta ákvörðun sem við höfum tekið. London er margslungin borg og það er mikill munur á því að vera túristi eða íbúi. En ekki af hinu slæma, alls ekki. Við bjuggum fyrst í múslimahverfi í vestur-London, það var mjög góð lífsreynsla. Síðan fluttum við í háhýsi (52 hæðir) aðeins austar og áfram hélt lífið að leika við okkur. Tókum daglega strætó til þeirra, ferðuðumst í Overground, fórum mjög oft í garðana, út að borða, elduðum heima, fórum á tónleika og leikhús, bara geggjað í alla staði. Ég gæti vel hugsað mér að búa þar til frambúðar.“

Ólafur í lestinni í london með afasyninum Tritani Loga.
Ólafur í lestinni í london með afasyninum Tritani Loga. Ljósmynd/Aðsend

Eiga þessir mánuðir kannski eftir að veita þér innblástur?

„Ó já! Ég er þegar byrjaður á nýrri bók um Benedikt búálf: Herra Tristan og sverðið logandi! En í alvöru, þá sýndu þessir mánuðir það hvað við hjónin erum samrýmd og hvað við getum gert þegar við leggjum hausana saman í bleyti.“

Feðgarnir Ari og Tritan Logi eru brosmildir.
Feðgarnir Ari og Tritan Logi eru brosmildir.

Hvað er að frétta af Benedikt búálfi?

„Ja, fyrst þú spurðir! Ég get sagt frá því að Sjónvarp Símans hefur pantað sex 40 mínútna langa þætti um ævintýri Benedikts og félaga í Álfheimum. Þessa dagana erum við að fínpússa handritið og tökur hefjast í byrjun næsta árs. Í nóvember munum við vera með prufur fyrir unga krakka til að leika Dídí og Arnar Þór bróðir hennar. Virkilega spennandi tímar framundan. Lífið er gott!“

Hjónin Herdís og Ólafur á góðri stundu.
Hjónin Herdís og Ólafur á góðri stundu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda