Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá móður sem veltir fyrir sér hvað sé best að gera því sonur hennar pissar oft undir á nóttunni.
Sæl
Sonur minn pissar oft undir á nóttunum, en hann er að verða 7 ára gamall. Þetta er orðið ansi þreytandi fyrir okkur foreldrana og einnig hvimleitt fyrir hann sjálfan og eigum við það til að bregðast við með pirringi þegar þetta kemur fyrir. Hvernig er best að vinna með svona?
Kveðja,
Mamma
Sæl
Já, þetta er hvimleitt til lengdar. En það sem þið getið gert er að reyna að takmarka vökvainntöku hjá honum fyrir svefninn, sjá til þess að hann fari alltaf að pissa áður en hann fer að sofa og einnig gæti verið árangursríkt að vekja hann rétt áður en þið farið að sofa til þess að láta hann pissa aftur.
Einnig er mikilvægt að þið bregðist ekki þannig við þegar hann pissar undir að það að pissa undir verði honum kvíðvænlegt og hann fari að upplifa vanlíðan vegna þessa.
Alls ekki að refsa honum þegar hann pissar undir og reyna eftir ykkar bestu getu að bregðast við á rólegan og yfirvegaðan hátt. En ekki skamma hann eða bregðast við með reiði eða pirringi.
Gera frekar það sem þarf að gera, skipta um á rúminu, hjálpa honum að skipta um föt og láta hann fara að sofa aftur, en alls ekki gera mikið mál úr því sem gerst hefur. Þá er það mjög mikilvægt að þið hrósið honum óspart þegar hann pissar ekki undir yfir nótt og veitið því athygli. Ef þessi ráð duga ekki til og hann er enn að pissa undir þegar hann hefur náð 8 ára aldri þá myndi ég mæla með því að þið leitið til heimilislæknis sem gæti verið með önnur úrræði fyrir ykkur. Gæti einnig verið sniðugt fyrir ykkur að leita til heimilislæknis sem fyrst til að heyra hans álit og útiloka allt líkamlegt.
Gangi ykkur vel!
Kveðja, Tinna Rut sálfræðingur
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR.