Sálfræðingurinn og einkaþjálfarinn Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga nagli, birti á dögunum færslu um niðurstöður úr nýlegri rannsókn sem birt var í fræðitímaritinu Body Image. Rannsóknin fjallar um áhrifin af neikvæðu tali mæðra og systra, bæði um eigin líkama og líkama annarra, á líkamsímynd og matarhegðun ungra stúlkna.
„Mömmur, systur og aðrir með forræði þurfa að hætta að tala neikvætt um útlit og líkama því auk umræðu í fjölmiðlum og meðal jafningja hefur það mikil áhrif á líkamsímynd og matarvenjur ungra stúlkna.
Þessar niðurstöður koma úr nýrri rannsókn og eru í samræmi við vaxandi fjölda rannsókna um áhrif kvenfyrirmynda. Því meira sem móðirin tekur þátt í neikvæðu tali um útlit og líkama, því líklegra er að dóttirin sé með neikvæða líkamsímynd, takmarki fæðuinntöku og upplifi þunglyndiseinkenni.
Jafnvel þótt neikvætt tal um líkama sé aðeins beint að þér sjálfri hefur það áhrif á lítil eyru sem eru alltaf að hlusta,“ skrifar Ragnhildur við myndaröð með glærum þar sem hún fer yfir rannsóknina á ítarlegri máta:
„Ný rannsókn sýndi fram á að neikvætt tal um líkama frá mæðrum og systrum tengist óánægju með eigin líkama, takmarkaðri fæðuinntöku og lotugræðgi hjá stúlkum. Neikvætt tal um líkamann getur verið: „Ég er svo feit í þessum kjól“, „ég hata stóru lærin á mér“ eða „handleggirnir á mér eru hræðilegir.“
Niðurstöður eru í samræmi við aðrar rannsóknir sem hafa sýnt að það hvernig mæður og systur, þá sérstaklega mæður, tala um líkama sinn hafi bein áhrif á líkamsímynd og matarhegðun ungra stúlkna. Stúlkur allt niður í fimm ára sýna óánægju með eigin líkama vegna neikvæðs tals mæðra sinna.
Fjarlægðu neikvætt tal og athugasemdir um eigin líkama, líkama annarra og líkama ungra stúlkna.
Þunglyndiseinkenni, átröskun, neikvæð líkamsímynd og önnur sálfræðileg og lífeðlisleg vandamál geta allt verið afleiðing af neikvæðu tali um útlit og líkama.
Þetta er klárlega áhrif kynslóðanna á undan okkur þar sem mæður voru sjálfar fórnarlömb neikvæðs tals og athugasemda um líkama frá mæðrum sínum og ömmum. En við höfum vald til að brjóta þennan vítahring.
Að sjá móður sem er sterk, lyftir lóðum og borðar nóg og næringarríkt mataræði, og leggur áherslu á það sem líkaminn en fær um að gera í stað þess hvernig hann lítur út getur haft mjög jákvæð áhrif á líkamsímynd ungra stúlkna.“