Ragnar Eldur Jörundsson, nemandi í 8. bekk í Hagaskóla, fermist í Fríkirkjunni. Faðir Ragnars, Jörundur Ragnarsson, segir að öll fjölskyldan ætli að hjálpast að þegar kemur að bakstri og brauðréttagerð.
Ragnar segir að fjölskyldan sín hafi fermst kristilega og þess vegna langaði hann að gera það líka. Hann tók sjálfstæða ákvörðun um að fermast í Fríkirkjunni. „Ég valdi að vera í Fríkirkjunni og það er rosalega skemmtilegt. Það er góð fermingarfræðsla og gaman í messum,“ segir Ragnar. Hann bætir við að einn af kostum þess að vera í Fríkirkjunni sé að allar skoðanir séu leyfðar í kirkjunni.
Hvað eruð þið búin að vera gera í fermingarfræðslunni?
„Sigurvin Lárus Jónsson prestur er búinn að segja okkur dæmisögur úr Biblíunni og kenna okkur allskonar. Svo fórum við í ferð í Vatnaskóg í eina nótt þar sem við lærðum allskonar um kristni og önnur trúarbrögð.“
Í Fríkirkjunni safnast saman fermingarbörn úr mörgum hverfum. „Ég hef kynnst mörgum krökkum í Fríkirkjunni eins og til dæmis gömlum vinum sem ég þekkti í leikskóla.“
Hvernig verður fermingarveislan þín?
„Ég verð með veislu í Borgarleikhúsinu 30. mars. Ég ætla að bjóða fjölskyldunni minni og nokkrum vinum mínum. Ég ætla að vera með heitan brauðrétt, súkkulaðiköku og kransaköku.“
Hjálpar þú til við undirbúninginn?
„Ég mun 100 prósent hjálpa til við að búa til matinn. Mér finnst gaman að elda og baka.“
Í hvernig fötum ætlar þú að vera?
„Ég ætla að fermast í einhverjum flottum jakkafötum, ég á reyndar eftir að kaupa þau. Ég verð bara í venjulegum svörtum strigaskóm. Ég er ekki að pæla í dýrum skóm.“
Hvaða áhugamál ert þú með?
„Ég er í skátunum og finnst það mjög gaman. Ég fíla að vera úti. Ég hef líka verið í leiklistarskólanum í Borgarleikhúsinu en mér finnst mjög gaman að leika.“
Er útivistardót á óskalistanum fyrir ferminguna?
„Já, ég fékk reyndar mikið af útivistardóti í jólagjöf en ég er búinn að biðja um skátaskyrtu. Ég hlakka mikið til að fá hana af því að mér finnst skyrturnar mjög flottar. Mig langar líka í flott úr og svo bara peninga.“
Hvernig er að eiga barn sem er að fara að fermast?
„Þetta er stór áfangi og það er að hellast yfir mann að hann er að hætta að vera barn. Þetta er svona raunveruleikatékk.“
Er mikill undirbúningur á bak við fermingarveisluna?
„Við erum rétt að byrja. Við ætlum ekkert að hafa þetta mjög flókið. Fjölskyldan ætlar að sjá um veitingar og það verður hæfilegur fjöldi af gestum. Allir hjálpast að og þá er þetta vonandi ekki mikið vesen.“
Er flókið að halda fermingarveislu og vera fráskilinn?
„Það er nú örugglega misjafnt eftir fólki. Í okkar tilfelli gengur það bara eins og í sögu. Mér finnst það ekki flækja málin neitt.“
Manstu eftir þinni fermingu?
„Hún var svolítið sérstök. Ég fermdist einn í kirkju í ágúst. Við vorum að flytja akkúrat þegar allir voru að fermast þannig að ég missti af því. Svo var þessu „sneikað“ inn í lok sumars. Þannig að ég fékk alla athyglina og full kirkja að fylgjast með mér. Svo var haldin veisla heima og stórfjölskyldan mætti. Ég á mjög góðar minningar og fékk eftirminnilegar gjafir eins og græjur, hnakk, rúm og gítar.“
Finnst þér fermingar hafa breyst mikið síðan þú fermdist?
„Gjafirnar eru örugglega að meðaltali orðnar stærri en ég held að það sé allur gangur á hvað fólk hefur mikið umstang í kringum þetta. Við ætlum að hafa þetta einfalt, ekki of margir og hann er alveg sáttur við það. Það er engin krafa að hafa svakalega veislu. Mér finnst þetta ekki meira grand en þegar ég fermdist. Það verður kransakaka og heitir brauðréttir.“