Signý Sóllilja Hrannarsdóttir, nemandi í Hagaskóla, fermist í Fríkirkjunni 7. apríl. Dýrmætar fjölskylduminningar tengjast Fríkirkjunni og var það meðal ástæðna þess að hún valdi kirkjuna. Margrét Arnardóttir segist hlakka til að taka þátt í deginum með dóttur sinni.
„Ég er alin upp í kristinni trú og er búin að hlakka lengi til. Sumir vinir mínir fermast borgaralega en mér þykir vænt um Fríkirkjuna, þar sem mamma og pabbi giftu sig og bræður mínir fermdust. Fríkirkjupresturinn skírði mig heima hjá okkur og Fríkirkjan hefur alltaf verið kirkjan mín,“ segir Signý um ástæðu þess að hún ákvað að fermast.
Hvernig hefur fermingarfræðslan verið?
„Hún hefur verið mjög skemmtileg. Ég er búin að eignast fullt af nýjum vinum. Fermingarferðin í Vatnaskóg var sérstaklega skemmtileg, enda elska ég Vatnaskóg og reyni að komast þangað á hverju sumri.“
Hvaða áhugamál áttu þér?
„Dans er helsta áhugamálið mitt og mér finnst leiklist mjög skemmtileg.“
Hvernig veislu ætlið þið að halda?
„Mig langar að halda skemmtilega veislu! Ég er ennþá að plana hana og hlakka mikið til að fá vini mína og fjölskyldu.“
Hvað dreymir þig um í fermingargjöf?
„Peninga.“
Ertu búin að ákveða í hvernig fötum þú ætlar að vera?
„Já, ég ætla að vera í kjólnum sem mamma gifti sig í.“
Ætlar þú að fara í hárgreiðslu?
„Ég ætla í hárgreiðslu en ætla að vera með einfalda hárgreiðslu. Verð með slegið hár og með krullur í endunum.“
Til hvers hlakkar þú mest á fermingardaginn?
„Að fermast með bestu vinkonu minni og svo halda skemmtilega veislu.“
Signý er fjórða barnið á heimilinu sem fermist, en Margrét, móðir Signýjar, segir að þrátt fyrir það séu veislurnar ekki alltaf eins enda börnin ólík.
Hvernig er að fylgjast með barninu sínu fermast?
„Það er mjög gaman og Signý hefur verið áhugasöm í vetur. Var spennt strax síðasta haust, enda er hún mikil félagsvera og finnst gaman að kynnast nýju fólki og aðstæðum.“
Hvenær byrjuðuð þið að undirbúa ferminguna og hvernig hefur undirbúningurinn gengið?
„Satt að segja er flest ógert ennþá, en við tryggðum okkur þó stað undir fermingarveisluna í haust og það má segja að undirbúningurinn hafi hafist þá. Við höfum haft ferminguna bak við eyrað alveg síðan, án þess þó að ákveða í smáatriðum hvernig allt á að vera. Signý hefur sjálf sterkar skoðanir á ýmsum málum og við finnum niðurstöðu sem allir verða ánægðir með.“
Tekur fermingarbarnið virkan þátt eða sjá foreldrarnir um allt?
„Hún tekur þátt í þessu öllu og hefur til dæmis séð um sig sjálf í fermingarfræðslunni. Það er gaman að sjá eftirvæntinguna magnast. Þetta er stór dagur fyrir Signýju Sóllilju og við hlökkum til að taka þátt með henni.“
Höfðu foreldrarnir áhrif á þá ákvörðun barnsins að fermast?
„Signý hefur talað um fermingardaginn sinn lengi og það kom ekki á óvart að hún skyldi ákveða að fermast í Fríkirkjunni. Það var alfarið hennar ákvörðun og okkur þykir vænt um hvað hún var afdráttarlaus. Trúarbrögð hafa ekki verið áberandi í heimilislífi okkar en við höfum sterka tengingu við Fríkirkjuna og gildi hennar – frjálslyndi, víðsýni og umburðarlyndi. Kannski hefur það haft áhrif á barnið, án þess að það hafi endilega verið ætlunin.“
Finnst þér eitthvað hafa breyst síðan þú fermdist?
„Mér finnst fræðslan sjálf fjölbreyttari og betri en á minni tíð. Hún er í takt við tíðarandann og það er mikill metnaður í fermingarstarfi Fríkirkjunnar. Sjálf fermingarbörnin eru úr mörgum hverfum og því eru krakkarnir ekki eingöngu með vinum sínum, heldur kynnast líka öðrum. Það var ekki raunin í minni fermingu fyrir fáeinum árum.“
Fylgir því stress að sjá um fermingarveislu?
„Nei, alls ekki. Við erum reynsluboltar í þessu og erum nú að halda fermingarveislu í fjórða skipti. Við erum þó ekki með sérstaka formúlu, aðra en þá að laga fermingardaginn að fermingarbarninu hverju sinni. Fyrri fermingarveislur okkar hafa verið mjög ólíkar, enda börnin okkar ólík.“