Þríburar Hallgríms A. Ingvarssonar og Rannveigar Hildar Guðmundsdóttir fögnuðu um helgina eins árs afmæli sínu, en börnin komu í heiminn á skírdag í fyrra. Fyrir áttu Hallgrímur og Rannveig tvær dætur og eiga því samtals fimm börn sem komu í heiminn á fjögurra og hálfs árs tímabili.
Þríburarnir, sem fengu nöfnin Helena Þóra, Ingvar Andri og Hafdís Gyða, hafa sannarlega stækkað á síðasta árinu og birti Rannveig fallega fjölskyldumynd úr afmæli þeirra sem haldið var á afmælisdaginn, 6. apríl síðastliðinn.
„Risastór áfangi fyrir lítil kríli sem hafa stækkað heldur betur mikið síðastliðið ár. Fyrsta afmælið var haldið í dag á afmælisdaginn þeirra 6. apríl. Ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt ár að baki. Margt sem þau hafa kennt okkur á lífið og sem við höfum lært sem fjölburaforeldrar. Alls ekki alltaf auðvelt en þau eru samt svo góð alltaf að það léttir töluvert á álaginu.
Þau eru á svo skemmtilegum aldri núna og öll með svo sterkan persónuleika. Mikið sem ég hlakka til komandi ára í þessum rússíbana sem fjölskyldulífið okkar er. Til lukku með fyrsta afmælið elsku ástirnar mínar. Mamma og pabbi elska ykkur svo mikið,“ skrifaði Rannveig við myndina.