Gagnrýnir næringarsnautt framboð matvæla á íþróttaviðburðum barna

Næringarfræðingurinn Berglind Lilja Guðlaugsdóttir segir framboð matvæla í tengslum við …
Næringarfræðingurinn Berglind Lilja Guðlaugsdóttir segir framboð matvæla í tengslum við æfingar og íþróttaviðburði barna mikið áhyggjuefni. Samsett mynd

Næringarfræðingurinn og doktorsneminn Berglind Lilja Guðlaugsdóttir segir framboð matvæla í tengslum við æfingar og íþróttaviðburði barna og ungmenna á Íslandi ábótavant og kallar eftir aðgerðum sveita- og íþróttafélaga. Hún segir einnig stinga í stúf að á viðburðum sem eiga efla heilsu ungmenna, eins og íþróttamótum, séu nær einungis auglýsingar með næringarsnauðum matvælum, en þetta geti haft víðtæk áhrif fram á fullorðinsár.

Berglind hefur alla tíð haft mikinn áhuga á mat og matreiðslu, en sjálf var hún mikið í íþróttum sem barn og unglingur og segir áhugann á næringu í tengslum við íþróttir því hafa kviknað snemma. 

„Ég hef alltaf haft mestan áhuga á næringu barna og vann ég t.d. BS lokaverkefni um matarumhverfi á íþróttaviðburðum barna. En þegar ég eignaðist sjálf börn þá jókst áhuginn minn á næringu barna ennþá meira og finnst mér fátt meira gefandi en að aðstoða foreldra tengt næringu barna þeirra,“ segir Berglind, en í dag hefur hún lokið MS gráðu í næringarfræði og er doktorsnemi í heilsueflingu við Háskóla Íslands. Samhliða því starfar hún sem næringarfræðingur hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins. 

Berglind gerði BS lokaverkefni um matarumhverfi á íþróttaviðburðum barna.
Berglind gerði BS lokaverkefni um matarumhverfi á íþróttaviðburðum barna. Ljósmynd/Berglind Lilja Guðlaugsdóttir

Mikið um sælgæti, bakkelsi og gosdrykki

Að undanförnu hefur Berglind vakið athygli á því að á íþróttaviðburðum og í veitingasölum íþróttamiðstöðva sé yfirleitt mikið magn af næringarsnauðum matvælum til sölu og áberandi. „Þetta eru matvörur eins og sælgæti, bakkelsi og gosdrykkir. Það skortir næringarrík matvæli til sölu og ef þau eru til sölu er það yfirleitt í mjög litlu magni og fellur gjarnan í skugga næringarsnauðu matvælanna,“ segir hún. 

Aðspurð segir Berglind að framboðið skorti bæði fjölda næringarríkra matvæla sem styðja við vöxt og þroska barna og veiti þeim þá viðbótarorku sem getur verið þörf á í kringum æfingar og keppni, en einnig að gera þau matvæli meira áberandi og aðlaðandi. 

„Þetta er áhyggjuefni vegna þess að við erum þarna að gefa börnunum okkar misvísandi skilaboð, erum að hvetja þau til að hreyfa sig sér til heilsubótar en næringarsnauðir valkostir blasa við þeim í veitingasölum og sem auglýsingar á veggjum íþróttamiðstöðva,“ segir hún. 

Berglind leggur áherslu á mikilvægi þess að börn og ungmenni í íþróttum fái góða næringu sem styður við vöxt þeirra og þroska. „Þau þurfa hlutfallslega meiri orku og næringarefni heldur en fullorðnir og þarf því að tryggja að matvælin sem þau borða komi til móts við þeirra þarfir. Í kringum erfiðar æfingar og mót þar sem álag getur verið meira eykst þörfin þeirra fyrir orku og næringarefni í takt við álagið. Það er sérstaklega mikilvægt að næra líkamann vel fyrir æfingar og keppni og borða reglulegar máltíðir yfir daginn ásamt því að drekka vatn,“ útskýrir hún. 

Í stað næringarsnauðra matvæla væri Berglind til í að sjá aukið framboð af næringarríkri og hollri fæðu í kringum æfingar og mót. „Ég myndi vilja sjá margar tegundir af ávöxtum, heila og niðurskorna, grófar samlokur með góðu áleggi, pastasalöt, hafraklatta, skyr og jógúrt, fylltar vefjur með kjúklingi, grænmeti og grjónum, smurðar flatkökur, soðin egg, hafra- og chia-grauta. Einnig væri hægt að bjóða upp á heita pottrétti, kjötsúpu o.fl.,“ segir hún.

Berglind er með fullt af frábærum hugmyndum af hollu nesti …
Berglind er með fullt af frábærum hugmyndum af hollu nesti til að taka með á æfingar eða mót. Ljósmynd/Berglind Lilja Guðlaugsdóttir

Getur haft mótandi áhrif fram á fullorðinsár

Það er þó fleira sem spilar inn í mikilvægi þess að næringarrík fæða sé á boðstólnum í kringum æfingar og mót hjá ungu fólki. „Matarumhverfi hefur mótandi áhrif á fæðuval barna og ungmenna og mótar gjarnan fæðuvenjur þeirra fram á fullorðinsár. Við erum því að hafa áhrif á framtíð barna með þeim matvælum sem við erum að bjóða þeim upp á í dag, hvort sem það er heima fyrir, í skólum eða í íþróttamiðstöðvum,“ segir hún. 

Berglind segir mikilvægt að foreldrar ungra barna fái fræðslu um næringu í tengslum við íþróttir. „Fyrir eldri börn og unglinga er mikilvægt að fræða bæði börnin og foreldrana því þetta er samvinnuverkefni. Foreldrar ráða matarframboði heimilanna og spila því stórt hlutverk í að eiga til, bjóða upp á og hvetja börnin til að borða næringarríka fæðu og ekki má gleyma að foreldrar eru fyrirmyndir og geta sýnt gott fordæmi fyrir börnin með því að kjósa sjálf næringarríka fæðu,“ segir hún.

„Það er mikilvægt í allri fræðslu til barna og ungmenna í íþróttum að leggja áherslu á að auka næringarrík matvæli til að styðja við vöxt, þroska og afköst í íþróttinni en ekki tengja fæðu við holdarfar. Þetta getur verið vandmeðfarið umræðuefni og ég myndi alltaf mæla með því að íþróttafélög, foreldrar, þjálfarar o.fl. sem koma að fræðslu um næringu til iðkenda myndu leita til fagaðila, t.d. næringarfræðings, hvort sem það er fyrir hópfræðslu eða einstaklingsráðgjöf til iðkenda,“ bætir hún við. 

Berglind segir fræðslu um næringu í tengslum við íþróttir vera …
Berglind segir fræðslu um næringu í tengslum við íþróttir vera afar mikilvæga, en hana þarf þó að framkvæma rétt. Ljósmynd/Berglind Lilja Guðlaugsdóttir

Það er þó ekki einungis framboðið og auglýsingarnar í kringum æfingar og keppnir sem Berglind hefur áhyggjur af, heldur einnig fyrirmyndir í íþróttum sem auglýsa gjörunnar matvörur eins og orkudrykki, gosdrykki og próteinbættar vörur sem eiga ekki heima í mataræði barna og ungmenna. 

„Þetta eru fyrirmyndirnar sem ungir iðkendur líta upp til. Ég hef einnig áhyggjur af því þegar ég sé þjálfara drekka orkudrykki á meðan þeir þjálfa börn, foreldra að borða bakkelsi á meðan þau hvetja börnin frá hliðarlínunni eða próteinbættar vörur vera hluti af mótsgjöf til ungra iðkenda. Flestar þessar matvörur eru næringarsnauðar og veita ungum iðkendum ekki þá og orku og næringu sem þau þurfa á að halda í kringum íþróttaiðkun sína,“ útskýrir Berglind. 

Hún bendir á að foreldrar geti verið góðar fyrirmyndir fyrir sín börn með því að neyta sjálf ekki orkudrykkja og bjóða ekki upp á það heima fyrir. „Foreldrar geta einnig frætt börnin sín um næringarinnihald þessara matvara og þann skaða sem sumar af þessum matvörum geta valdið, t.d. áhrif orkudrykkja á svefn,“ segir hún. 

Mikilvægt að auka aðgengi og sýnileika á hollri fæðu

Spurð hvernig næring sé ákjósanleg fyrir börn og ungmenni í kringum æfingar og mót segir Berglind ýmsar breytur koma þar inn í. „Það fer eftir því hversu langt er í æfingu eða keppni. Ef æfingin er seinnipartinn er mikilvægt að borða góðan og næringarríkan hádegismat og fá sér svo millibita stuttu fyrir æfingu sem inniheldur kolvetni. Fljótlega eftir æfingu er mikilvægt að borða góða máltíð sem inniheldur blöndu kolvetna og próteina til að fylla á orkubirgðir og vöðvana eftir æfinguna.

Það sama á við eftir keppnisleiki eða mót. Þegar börn fara á íþróttamót þar sem jafnvel margir leikir eru spilaðir á einum degi er mikilvægt að nærast reglulega yfir daginn og ef lítill tími gefst þá er gott að hafa orku- og kolvetnaríkan bita með t.d. banana, þurrkaða ávexti eða orkustykki,“ segir hún. 

Fyrir æfingu mælir Berglind með því að fókusinn sé á …
Fyrir æfingu mælir Berglind með því að fókusinn sé á kolvetnarík matvæli. Ljósmynd/Berglind Lilja Guðlaugsdóttir

Berglind hvetur foreldra og börn til að fara saman og versla í nesti fyrir æfingar og mót. „Ef börnin eru með í hlut eru þau líklegri til að vilja borða matinn sem er í nesti. Það er ýmislegt sem gott er að hafa í huga þegar undirbúa á nesti, t.d. hvernig aðstaða er í íþróttamiðstöðinni, er hægt að setjast niður og borða? Er hægt að hita mat? Er auðvelt aðgengi að vatni? Hversu mikinn tíma hefur barnið til þess að borða fyrir æfingu eða á milli leikja?

Einfaldar hugmyndir að nesti væri t.d. ávextir, gróf samloka með grænmeti, soðnum eggjum og hummus eða öðru góðu áleggi, skyr með múslí eða pastasalat,“ segir hún.

View this post on Instagram

A post shared by Matarlíf (@matarlif_)

Spurð hvað sé hægt að gera til að bæta aðgengi barna og ungmenna að næringarríkari fæðu í kringum íþróttaiðkun þeirra bendir Berglind á að sveitarfélög og íþróttafélög gætu sett sér matarstefnu um framboð matvæla í íþróttamiðstöðvum þeirra og á íþróttaviðburðum þeirra. 

„Íþróttafélög gætu einnig staðið fyrir fræðslu um næringu í tengslum við íþróttaiðkun fyrir þjálfara, foreldra og iðkendur. En fræðsla dugar oft ekki ein og sér heldur þarf að taka til aðgerða á öðrum vettvangi líka, það þýðir ekki að fræða iðkendur um næringarríka fæðu og bjóða svo bara upp á næringarsnauð matvæli í íþróttamiðstöðum,“ útskýrir Berglind.

„Við þurfum öll að leggjast á eitt við að auka til muna aðgengi og sýnileika á hollri fæðu og drykkjum við íþróttaiðkun ungmenna og hvetja til heilsusamlegs lífsstíls bæði hvað varðar hreyfingu og næringu,“ bætir hún við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda