Elsti sonur stjörnuhjónanna Chrissy Teigen og Johns Legends, hinn sex ára gamli Miles, hefur verið greindur með sykursýki af tegund 1.
Glöggir netverjar tóku eftir blóðsykursmæli á innanverðum handlegg Miles á ljósmynd sem náðist af fyrirsætunni og eldri börnum hennar tveimur, Lunu og Miles, á áhorfendapöllunum á Ólympíuleikunum í París nú á dögunum. Fjölskyldan hélt uppi skiltum til stuðnings fimleikakonunni Simone Biles.
Skömmu eftir myndbirtinguna staðfesti Teigen greiningu sonar síns á Instagram og fékk fjöldann allan af fallegum skilaboðum og hjálplegum ráðum frá fólki hvaðanæva úr heiminum í kjölfarið.
„Þetta er nýr heimur fyrir okkur,“ skrifar Teigen og segir Miles hafa fengið sína fyrstu insúlínsprautu síðastliðinn mánudag.
Að sögn Teigen greindist Miles með sykursýki 1 fyrir aðeins örfáum vikum. Hann var lagður inn á spítala sökum sígella sem smitast í gegnum bakteríur í mat eða vatni. Við nánari skoðun kom í ljós að hann væri sykursjúkur.
Teigen og Legend eiga saman fjögur börn. Yngri tvö, Esti og Wren, komu í heiminn með stuttu millibili á síðasta ári. Teigen fæddi Esti en Wren fæddist með aðstoð staðgöngumóður. Fjölskyldan er afar samheldin og eru hjónin sannfærð um að þau hafi alla burði til þess að takast á við þessa áskorun.