Skólamáltíðir í grunnskólum hafa verið áberandi í umræðunni upp á síðkastið, en næringarfræðingurinn Hafdís Helgadóttir birti pistil um skólamáltíðir á Instagram-síðu sinni þar sem hún bendir á mikilvægi þess að tala jákvætt um matinn í skólanum og hvetja börn og unglinga til að smakka.
Greint var frá því í júní að skólamáltíðir í grunnskólum yrðu gjaldfrjálsar frá og með næsta skólaári í kjölfar þess að Alþingi samþykkti frumvarp Svandísar Svavarsdóttur innviðaráðherra um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem heimilar Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að greiða framlög til sveitarfélaga sem bjóða upp á skólamáltíðir.
„Síðastliðnar vikur hafa skólamáltíðir mikið verið í umræðunni í samfélaginu. Nú hafa Sveitarfélögin tekið ákvörðun um að gera skólamáltíðir gjaldfrjálsar í grunnskólum. Það þýðir að foreldrar og forsjáraðilar þurfa að skrá börnin í mataráskrift en þurfa ekki að greiða fyrir hana. Mig langaði til að varpa fram nokkrum útskýringum og hugleiðingum sem ég beini til foreldra, nemenda, stjórnenda og allra sem málið varðar.
Ég heyri oft að skólamatur sé nú hræðilega vondur, óhollur og mikið unninn matur. Er eitthvað á bakvið þessar raddir?
Embætti landlæknis gefur út handbók fyrir grunnskóla mötuneyti sem tekur mið af ráðleggingum um mataræði fyrir alla landsmenn. Í handbókinni eru ráðleggingar um æskilegt fæðuframboð í hádegismat, morgun- og síðdegishressingu.
Einnig mæla þau með að skólar hafi Diskinn sýnilegan í mötuneyti til að leiðbeina nemendum að skammta sér í hádegismat. Sem mér finnst frábær leið til að leiðbeina nemendum í átt að hollari matarvenjum.
Í grunnskólum Reykjavíkur hafa síðastliðið ár 87% nemenda verið skráð í skólamáltíð í hádeginu og mun eflaust enn fleiri bætast við þegar máltíðin er orðin gjaldfrjáls. Það er mín einlæg von að fleiri börn verði betur nærð með tilkomu þessara breytinga.
Að bjóða upp á heita máltíð í hádeginu sem er bæði girnileg, næringarrík, fjölbreytt og höfðar til barna sem og fullorðinna OG innan kostnaðaráætlunar án þess að það verði mikil matarsóun er bara rosalega vandasamt verkefni. Mér finnst mikilvægt að undirstrika það.“
„Ég hef ágætis reynslu af því að vera „hinum megin við borðið“ og fylgst með börnum í nokkrum skólum velja sér á diskinn eða tekið með sér nesti í hádeginu. Í mörgum tilfellum hefur skólamáltíðin innihaldið fjölbreyttari, næringarríkari og orkumeiri máltíð en þar ætla ég alls ekki að alhæfa. Það geta verið ótal ástæður fyrir því að umsjáraðilar ákveða að skrá barn ekki í skólamatinn. Einnig geta einstaka skólamáltíðir verið óæskilega samsettar og útfærsla ógirnileg.
Ef við horfum svo til unglinganna þá gerist það reglulega að nemandinn hafnar skólamáltíðinni ef hún höfðar ekki til þeirra og þá sérstaklega vinanna og hádegismatur keyptur í nærumhverfinu á bensínstöð, matvöruverslun eða bakarí. Í því tilfelli er þá töluvert skárri kostur að nemendur gæði sér á skólamáltíðinni sem gæti þann daginn verið kjötbollur með kartöflumús frekar en kleinuhring með íþróttadrykk (eða orkudrykk).
„Bottom line“ hjá mér það eru flestir að gera sitt besta svo hvetjum nemendur í að borða skólamáltíðir, hvetjum skólastjórnendur og mötuneyti að gera vel svo öllum bæði nemendum og starfsfólki líði betur í skólanum. Reynum að tala jákvætt um matinn og hvetja nemendur til að smakka, skammta sér sjálf og vera góðar fyrirmyndir fyrir aðra nemendur.“