Eru „litalausu“ barnaherbergin betri fyrir börnin?

Þó sterkir og djarfir litir séu skemmtilegir þá eru þeir …
Þó sterkir og djarfir litir séu skemmtilegir þá eru þeir ekki endilega bestu litirnir á veggi barnaherbergisins. Ljósmynd/Pexels/Olia Danilevich

Með tilkomu minimalískrar hönnunarstefnu þar sem notast er við áferð og liti úr náttúrunni hafa barnaherbergi í auknu mæli verið máluð í hlutlausari og ljósari litum en áður. Háværar gagnrýnisraddir hafa verið áberandi sem hafa sakað foreldra um að ræna litagleði barnæskunnar frá börnunum til þess eins að herbergið passi inn í hönnunarstíl heimilisins. 

Það gæti hins vegar verið að „litalausu“ barnaherbergin hafi jákvæðari áhrif á börnin en marga grunar.

Umhverfi okkar getur haft mikil áhrif á skap okkar, viðhorf, hegðun og líðan. Lýsing, litir og mynstur spila þar stóran part og því getur skipt máli í hvaða lit þú ákveður að mála barnaherbergið. 

Mikilvægt að stuðla að ró og slökun

Börn eru sérstaklega viðkvæm og hrifnæm af umhverfi sínu. Rannsókn á áhrifum mismunandi litatóna leiddi í ljós að yngri börn bregðast jákvætt við ljósari litum á meðan dökkir litir hafa tilhneigingu til að hafa neikvæðari tengsl. 

Þegar litur er valinn á barnaherbergi er ýmislegt sem þarf að hafa í huga, en það mikilvægasta er að skoða hvaða áhrif litirnir hafa á svefn og slökun barnsins. Þó svo sterkari litir geti verið skemmtilegir og glaðlegir er betra að nota þá frekar á svæðum þar sem börnin leika sér, til dæmis í leikherbergi eða leikhorni. 

Litasálfræðingar mæla með því að barnaherbergi séu máluð með róandi litapallettu til að koma í veg fyrir oförvun og kvíða. Þá er mikilvægt að muna að svefn er í aðalhlutverki í herberginu og afslappandi litir geta aukið ró, slökun og eflt nám hjá barninu. 

Þetta þýðir þó ekki að það megi ekki vera skemmtilegir litir í barnaherberginu, en í stað þess að velja sterka örvandi liti er mælt með því að fara frekar yfir í ljósari tóna, þá sérstaklega jarðliti, sem skapa bjart en notalegt umhverfi. Markmiðið er að búa til þægilegt rými þar sem barnið upplifir öryggi og ró. 

Beinhvítur

Hvítur er ekki það sama og hvítur. Það skiptir nefnilega miklu máli að velja rétta undirtóninn, enda getur hann skipt sköpum þegar kemur að stemningunni í herberginu. Í stað þess að velja kaldan hvítan lit á veggina er mælt með því að velja hvítan lit með hlýjum undirtón, eins og beinhvítan, en þannig verður rýmið bæði hlýlegra og opnara. 

Ljósmynd/Unsplash/Karolina Grabowska

Mjúkir bláir tónar

Rannsóknir hafa sýnt fram á að ljósir og mjúkir bláir tónar geta haft jákvæð tilfinningaleg áhrif á börn. Það er þó mikilvægt að forðast dekkri tóna og velja þess í stað mjúka, hlýja liti eins og fölbláan eða ljósbláan. 

Ljósmynd/Unsplash/Olivie Strauss

Mildur grænn úr náttúrunni

Fallegur og mildur grænn litur úr náttúrunni, eins og mosa- eða ólívulitir, geta verið mjög róandi og því góður kostur fyrir barnaherbergið. Ljósgrænn litur er þekktur fyrir að stuðla að heilbrigði ásamt einbeitingu til náms. 

Ljósmynd/Pexels/Monstera Production

Daufur fjólublár

Í stað þess að velja fölbleikan lit á veggina getur verið sniðugt að fara frekar út í mýkri fjólubláa tóna í átt að lavender-lit. Veldu ljósan og daufan lit til þess að skapa kyrrlátara umhverfi fyrir barnið samanborið við dekkri og sterkari fjólubláa liti.

Ljósmynd/Unplash/Karolina Grabowska

Hlýr „beige“ og grár

Hlutlausir jarðlitir auka ró, hlýju og ánægju í herbergi barnsins auk þess að stuðla að friðsæld og hvíld. Það er auðvelt að para þá saman við aðra liti til að skapa skemmtilega stemningu í herberginu, til dæmis pastel liti.

Ljósmynd/Pexels/Olia Danilevich
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda