Hulda Dagsdóttir og Bjarni Mark Antonsson eru nýflutt heim á klakann eftir að hafa búið erlendis síðastliðin sex ár, í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Þau eru bæði mikið íþróttafólk en Hulda spilar handbolta með Aftureldingu og Bjarni fótbolta með Val.
Fyrir rúmu ári síðan bættist hundurinn Nova óvænt í fjölskylduna, en Hulda segir það ekki endilega hafa verið á dagskránni hjá þeim að fá sér hvolp enda mikið á flakki vegna íþróttanna.
„Þegar við fluttum til Kristiansand í Noregi vorum við heppin með nágranna. Bjarni sá einn sætasta hviolp sem hann hafði séð, Ninju, og lenti á spjalli við grannann. Við urðum fastir „hundapassarar“ fyrir þessa fjölskyldu og mynduðum gott samband okkar á milli,“ segir Hulda.
„Ári seinna hringdi nágranninn í mig og sagði að Nila væri hvolpafull. Við þurftum ekki meira en að horfa hvort á annað til þess að vera viss um að við vildum fá einn. Ninja bjó meira og minna hjá okkur á þessum tíma og við fengum að vera mikið með Nilu og hvolpunum frá fyrstu vikum. Það gerði það að verkum að Nova þekkti okkur vel þegar við loksins fengum að taka hana heim.
Hún hefur verið í miklu sambandi við „foreldra“ sína og við vorum dugleg að hittast. Það var því mjög erfitt að flytja frá Noregi og þurfa að splitta þeim í sundur,“ bætir hún við.
Nova er blanda af Samoyed og Husky, en móðir hennar er blanda af tegundunum tveimur á meðan faðirinn er hreinræktaður Samoyed. „Nova fæddist 8. apríl 2023. Það komu sex hvolpar og Nova var eini hvolpurinn sem stóð út, með lítinn feld og var aðeins minni en allir hinir hvolparnir sem líktust pabba sínum á meðan Nova var líkari mömmu sinni. Hún fékk nafnið Nova vegna þess að mamma hennar og pabbi heita Nila og Ninja, og okkur fannst Nova passa flott í fjölskylduna,“ segir Hulda.
Hvað var það sem heillaði þig við tegundina?
„Þegar við sáum Nilu og Ninja fyrst urðum við alveg heilluð og það samband varð bara betra eftir að við fengum að kynnast þeim meira. En það var aðallega það að við þekktum Nilu og Ninju svo vel áður en Nova kom í heiminn og okkur fannst eins og þetta væru líka okkar hvolpar og þess vegna ákváðum við að halda einum. Það var ekki planið að fá okkur hvolp á þessum tíma þar sem að við flytjum mikið og erum alltaf á flakki.“
Áttir þú gæludýr þegar þú varst yngri?
„Ég ólst upp með blending af Border Collie og íslenskum fjárhundi, en hún lést því miður í fyrra. Bjarni hefur aldrei átt gæludýr en alltaf langað í hund.“
Hverjir eru kostirnir við að eiga hund?
„Nova er orðin svo mikill partur af fjölskyldunni að sama þótt hún væri erfið þá er hún samt bara alltaf best. Finnst erfitt að koma með kosti við að eiga hund þar sem að hún er bara eins og litla barnið okkar. En hún gefur manni góðan félagsskap og lætur manni alltaf líða betur.“
En ókostirnir?
„Hún var mikill grallari sem hvolpur og átti að til að skemma ýmsa hluti, veggi, skó og margt fleira. En um leið og maður ákveður að fá sér hvolp þá verða einhvern veginn öll verkefni og erfiði bara eðlileg og eitthvað sem að maður tæklar. Það var til dæmis mikið bras að koma henni heim frá Noregi til Íslands og við tvær þurftum að vera eftir í þrjá mánuði eftir að Bjarni flutti heim fyrir fótboltann. En allt er þess virði fyrir hana og ég tel það ekki sem ókost.“
Hver er ykkar daglega rútína?
„Við byrjum alltaf á göngutúr á morgnanna áður en Bjarni fer á æfingu. Ég er atvinnulaus eins og er þannig hún þarf lítið að vera ein heima. Ég fer svo aftur með hana út eftir hádegi og gef henni að borða eftir göngutúr tvö, hún vill ekki sjá matinn fyrir það. Hún fær aftur að borða um klukkan 18:00 og svo er farið í kvöldtúrinn um klukkan 20:00. Eftir hann er hún mjög róleg en fær að leika smá út á palli ef að hún er í stuði.
Við förum alltaf í þrjá 30 mínútna göngutúra á dag og oftast meira en það þar sem að hún þarf góða og mikla hreyfingu. Við reynum að vera dugleg að fara með hana eitthvað út fyrir hverfið þar sem að hún getur hlaupið og verið laus. En við erum mjög heppin með staðsetningu og eigum orðið mikið af hundavinum sem að við rekumst oft á í göngutúrum. Nova á líka eina bestu vinkonu sem við hittum nánast í hverri viku, hún heitir Kaía og þær ná að leika þvílíkt saman. Ég er heppin að geta eytt svona miklum tíma með henni núna og farið með hana í heimsóknir.“
„Þar sem að hún er með svona hvítan feld er hún alltaf böðuð á sunnudögum. Við erum með sunnudagsrútínu þar sem að við förum í sjóinn eða vatn og leyfum henni að gera það sem hún vill áður en við tökum hana í sturtuna.“
Hafið þið deilt einhverjum eftirminnilegum lífsreynslum eða skemmtilegum minningum?
„Við erum búin að draga hana með okkur í margt og vorum að ferðast í Noregi. Þegar hún var rúmlega sex mánaða fórum við upp Preikestolen, sem er vinsæl ganga í Noregi, með vinum okkar og Nova var í bakpoka á okkur og svaf í tjaldi. Hún var ekki nógu gömul til að fara í svona langa göngu þannig við redduðum því með að koma henni vel fyrir í bakpoka og leyfðum henni svo að labba á sléttu.“
„Við höfum farið í göngur í Stavanger, tekið hana með okkur á hótel og keyrt með hana til Svíþjóðar yfir jólin. Svo vorum við dugleg að taka hana með á „paddle board“, þar var hún mjög róleg og sat bara með okkur.“
„Ég myndi samt segja að aðal lífsreynslan var flutningurinn til Íslands. Það var ekkert djók, og tók mig þrjá mánuði þar sem við vorum einar í Noregi og ég í fullri vinnu og að flytja og losa okkur við búslóðina. Á þessum tíma komu upp allskonar vandamál og verkefni og ég hélt á einum tímapunkti að ég kæmi henni aldrei heim. En svo mættum við í flug heim frá Osló 24. júní tilbúin að tjékka hana inn, sem er það erfiðasta sem ég hef gert, en þá er fluginu aflýst.
Við vorum bókaðar í nýtt flug sem að fór fyrst til Köben og svo heim en það var ekki fyrr en 12 tímum seinna og þurftum við að gista í Köben. Ég hef sjaldan verið jafn stressuð og pirruð að þurfa að fara með hana í tvö flug, plús það a vera ein með tvær töskur og risastórt búr. En þetta hafðist á endanum eins og allt sem betur fer og henni líður mjög vel í kuldanum á Íslandi.“
Er hundurinn með einhverjar sérþarfir eða sérviskur?
„Hún er með smá magavesen og fær bara mat sem að við vitum að fer vel í hana. Hún er líka mjög „picky“ og borðar ekki hvað sem er. En annars er hún bara mjög góð og sjaldan eitthvað vesen á henni.“
Hvernig gengur að skipuleggja frí með dýr á heimilinu?
„Það var mjög auðvelt í Noregi þar sem að allir vildu passa. Nágrannarnir tóku hana stundum, sem að eiga Nilu og Ninju, en svo áttum við annan nágranna sem að átti það til að taka hana til sín þegar við fórum í frí. Hún var líka með lykil heim til okkar og kom oft þegar ég var ein og Nova þurfti að vera ein heima á meðan ég var í vinnunni. Hún var algjör himnasending og það var erfitt að flytja frá henni. Myndi segja að hún og maðurinn hennar hafi verið norsku foreldrar mínir á þessum tíma, og amma og afi Nova.“
Einhver góð ráð til annarra gæludýraeigenda?
„Við erum engir hundahvíslarar, en ef það er eitt sem að ég get bent fólki á eftir að sjá það í göngutúrum og svoleiðis, þá er það að þú ert í göngutúr fyrir hundinn þinn en ekki fyrir sjálfan þig. Hundar þreytast á að þefa og við erum ekki að vinna með að toga hana áfram.“