„Lífið mun taka breytingum“

Sandra Björg telur niður dagana í frumburðinn.
Sandra Björg telur niður dagana í frumburðinn. Ljósmynd/Úr einkasafni

Sandra Björg Helga­dótt­ir, sam­fé­lags­miðlastjarna og aðstoðarfram­kvæmda­stjóri hjá Best­sell­er, er á fullu í hreiður­gerð heima hjá sér, en hún á von á frumb­urði sín­um á kom­andi vik­um með eig­in­manni sín­um Hilm­ari Arn­ar­syni. Hjón­in greindu frá gleðitíðind­un­um fyrr á ár­inu og bíða nú spennt eft­ir að fá son sinn í fangið.

Sandra Björg og Hilmar kynntust þegar þau voru bæði í námi í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands og gengu í hjónaband á blautum en fallegum föstudegi síðastliðið sumar. Hjónin festu kaup á húsi í Kópavogi á síðasta ári eftir sólríka dvöl í Los Angeles og hafa búið sér afar fallegt heimili í Salahverfinu ásamt köttunum Hnoðra og Tígra sem bíða spenntir eftir nýjasta fjölskyldumeðlimnum.

Hvernig var að deila gleðitíðindunum með fjölskyldu og vinum?

„Mun skemmtilegra en ég hafði nokkurn tíma þorað að vona. Ég átti einhvern veginn von á minni viðbrögðum þar sem við höfum verið lengi saman og erum orðin 34 ára gömul, en það var hreint út sagt dásamlegt að deila fréttunum með vinum og fjölskyldu. Það samgleðjast okkur allir.“

Komust að kyninu á strönd í Malibu

Sandra Björg og Hilmar komust að kyni barnsins í maí síðastliðnum.

Af hverju ákváðuð þið að vita kynið fyrir fram?

„Okkur var alveg sama hvort við værum að fara að eignast stúlku eða dreng, en daginn eftir 12 vikna sónarinn áttum við bókaða ferð til Los Angeles og vildum því nýta ferðina og versla á litla krílið í leiðinni. Við ákváðum með stuttum fyrirvara að vera með litla kynjaveislu, bara við tvö, á ströndinni í Malibu. Arnfríður litla systir mín var með í ferðinni og hjálpaði til við undirbúning og útfærsluna á þessu öllu sem var svo dýrmætt.“

Hjónin héldu litla kynjaveislu á ströndinni í Los Angeles.
Hjónin héldu litla kynjaveislu á ströndinni í Los Angeles. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvað hefur komið þér mest á óvart á meðgöngunni?

„Í raun hvað mér er búið að líða vel og hvað ég hef náð að æfa vel alla meðgönguna. Ég er búin að taka mjög rólegar æfingar og er í rauninni eingöngu að fylgja klassísku styrktarprógrammi sem ég þróaði fyrir absolute training, en það heitir Absolute Training Strength-prógramm.“

Hvernig hefur þú undirbúið þig undir fæðinguna?

„Alveg frá fimmta mánuði hef ég verið í meðgöngusundi hjá mágkonu minni. Hún heitir Hrafnhildur og kennir meðgöngusund í yndislegri innilaug í Sjálandi í Garðabæ. Með hverjum mánuðinum finn ég hvað það veitir mér mikla ró fyrir fæðingunni andlega en ég hef líka verið að gera ýmsar öndunaræfingar og hreyfingar sem eru góðar fyrir fæðinguna sjálfa og undirbúning. Núna undir lokin höfum við Hilmar verið að lesa fæðingarbók til að undirbúa okkur saman fyrir fæðinguna sem hefur hjálpað mikið í að gera okkur klár fyrir þetta stóra verkefni. Það munar ótrúlega miklu að finna fyrir áhuga og stuðningi frá maka þegar fer að líða að fæðingunni og ekki upplifa sig eina. Við erum teymi.“

Æfingarútína Söndru Bjargar hefur breyst á meðgöngunni.
Æfingarútína Söndru Bjargar hefur breyst á meðgöngunni. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Á meðgöngu breyttist æfingarútínan“

Sandra Björg er mikil íþróttakona og hefur hugað vel að líkamlegri og andlegri vellíðan yfir meðgöngutímabilið. Hún þurfti að endurskoða æfingarútínu sína og aðlaga hana breyttum aðstæðum.

Hvernig hefur meðgangan gengið?

„Meðgangan hefur gengið ótrúlega vel. Ég fann lítið sem ekkert fyrir ógleði né öðrum meðgöngukvillum á fyrstu vikunum. Ég er vön að æfa þrisvar til sex sinnum í viku að staðaldri og starfa sem þjálfari í World Class, en frá fyrstu viku dró ég mig alveg úr þjálfun, sem var ákvörðun sem mér leið vel með á þeim tíma. Ég hefði eflaust ekki þurft þess en ég hef mest verið að fylgja innsæinu í þessu öllu, þar sem konur og meðgöngur eru allar svo misjafnar. Maður fær fullt af ráðum, sem er dýrmætt, en mikilvægast hefur mér fundist að finna sjálf hvað líkami minn kallar á, hvort sem það er hvíld, hreyfing eða annað.“

Hvað hefurðu gert til að láta þér líða vel?

„Ég hef nánast alla tíð stundað andlega og líkamlega þjálfun til að líða vel. Á meðgöngu breyttist æfingarútínan töluvert og það hafa komið tímabil þar sem ég hef alveg dottið úr henni en þá fara líkamleg og andleg einkenni að segja til sín. Ég ákvað því að halda mig við að hreyfa mig í hverri viku, hvort sem það þýddi að ganga í 10 til 15 mínútur og teygja aðeins í kjölfarið eða taka góða lyftingaæfingu og nokkrar ferðir í sundi eftir á. Ég hef alltaf fundið hvað hreyfing gerir ótrúlega mikið fyrir mig og hef aldrei upplifað það eins greinilega og yfir meðgöngutímabilið hvað hreyfing og heilsa er yfirhöfuð mikilvæg. Mér hefur tekist að losna við bakverki, sinadrætti, vöðvabólgu og fleira með því að halda í góða hreyfingu og hreyfigetu.“

Alltaf í ræktinni!
Alltaf í ræktinni! Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvaða andlegu og líkamlegu breytingum hefur þú tekið eftir?

„Áður en ég varð ólétt var ég mikið að æfa barre, hlaup, dans og fleira skemmtilegt og krefjandi en þegar ég varð ólétt skipti ég yfir í göngutúra, styrktaræfingar og sund. Þetta var stór breyting fyrir mig þar sem hreyfing og starf mitt sem þjálfari er mjög stór hluti af lífi mínu. World Class er annað heimili mitt þegar ég er að þjálfa. Fyrstu vikurnar fann ég fyrir mikilli þreytu og átti erfitt með svefn. Á þeim vikum æfði ég lítið sem ekki neitt, mest vegna þreytu og óöryggis yfir því að vera að æfa ólétt.

Varðandi andlegar breytingar, þá hefur það mest verið tilhugsunin um allar komandi breytingar á lífinu. Ég er 34 ára gömul og hef gaman af því að setja mér háleit markmið, hvort sem það snýr að hreyfingu, námi, starfi, fjármálum eða öðru. Hingað til hefur lítið staðið í vegi mínum og hef ég bara látið vaða og elt þessi markmið. Ég hef aldrei litið á það að eignast fjölskyldu sem hindrun, enda hafa foreldrar mínir verið algjörar fyrirmyndir þegar kemur að því að sýna mér að það sé það ekki, þvert á móti í rauninni. Ég geri mér þó grein fyrir að lífið mun taka breytingum og þá þarf að sjálfsögðu að taka ýmislegt annað inn í myndina. Það góða er að stærsta markmiðið og draumurinn er að stofna fjölskyldu og sinna því verkefni sem best.“

Er allt tilbúið fyrir komu frumburðarins?

„Ég er komin 38 vikur á leið og það er sem betur fer allt að verða klárt fyrir litla karlinn en við réðumst reyndar í miklar framkvæmdir á heimilinu í sumar svo það er smá í land þar. Við fluttum í yndislega íbúð í Salahverfinu í Kópavogi fyrir ári þegar við komum heim frá Bandaríkjunum, hún var hins vegar komin til ára sinna og ákváðum við að gefa okkur ár í að taka íbúðina í gegn. Við pöntuðum eldhús frá Parka í júní, sem kom til landsins á mettíma, en það vantaði tvo hluti í sendinguna og borðplatan kom vitlaus svo við erum að bíða eftir þeim hlutum núna. Fyrir utan það, þá er allt að smella saman. Við erum orðin ansi góð í að sjá það jákvæða í krefjandi aðstæðum í framkvæmdum og erum bara að njóta þess að fara út að borða og í matarborð hjá vinum og fjölskyldu þessar síðustu vikur sem maður þarf ekki að redda pössun. Það verður samt mjög ljúft að fá eldhús loksins, þó svo það verði eftir fæðingu.“

Hjónin bíða spennt.
Hjónin bíða spennt. Ljósmynd/Úr einkasafni
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda