Knattspyrnumaðurinn Leifur Andri Leifsson og Hugrún Elvarsdóttir, verkefnastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins, eignuðust dóttur þann 19. júlí síðastliðinn.
Stúlkan er fyrsta barn parsins saman og fékk hún nafn í fallegri skírnarathöfn um helgina.
„Erla Margrét Leifsdóttir. Dásamlegur dagur með okkar nánustu þar sem litla ljós var skírð í höfuðið á báðum langömmum sínum & frænku sinni sem er jafnframt alnafna hennar,“ skrifuðu Leifur og Hugrún í sameiginlegri færslu á Instagram, en með færslunni birtu þau fallegar myndir frá deginum.
Leifur spilar með HK í Bestu deild karla í knattspyrnu og hefur verið fyrirliði og lykilmaður félagsins um langt árabil. Hugrún starfar sem verkefnastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins á samkeppnis- og efnahagssviði. Hugrún spilaði einnig fótbolta í efstu deild í tíu ár, en á ferli sínum lék hún með Stjörnunni, FH og ÍH.
Fjölskylduvefur mbl.is óskar þeim innilega til hamingju!