„Ég hef notfært mér mikið úr uppeldisverkfæra- kistu mömmu“

Frosti Örn Gnarr og Erla Hlín Sigríðardóttir með börnin sín …
Frosti Örn Gnarr og Erla Hlín Sigríðardóttir með börnin sín þrjú; Storm, Fálka og Hrafntinnu Jógu.

Frosti Örn Gn­arr er hönnuður, markaðsmaður og þriggja barna faðir í Háa­leitis­hverf­inu. Hann legg­ur áherslu á að fjöl­skyldu­lífið sé af­slappað, skemmti­legt og að öll­um líði vel inni á heim­il­inu þótt morgn­arn­ir séu stund­um eins og byrj­un­ar­atriðið í Home Alone. 

„Það er bara ynd­is­legt að vera þriggja barna faðir í barn­vænsta hverfi Reykja­vík­ur. Þetta er auðvitað á köfl­um svaka­legt álag og ringul­reið en svo seg­ir eitt­hvert þeirra eitt­hvað fal­legt og allt verður þess virði,“ seg­ir Frosti Gn­arr þegar hann er spurður hvernig sé að vera faðir þriggja barna sem eru fædd á ár­un­um 2016, 2019 og 2022.

Frosti var al­inn upp af konu, móður sinni Jógu Gn­arr, og voru þau tvö í heim­ili þangað til hann var 12 ára. Þá fann hún ást­ina og gift­ist pabba Frosta, Jóni Gn­arr, sem er for­setafram­bjóðandi, rit­höf­und­ur og grín­isti. Þegar Frosti er spurður að því hvort þessi lífs­reynsla hafi mótað hann sem föður seg­ir hann svo vera.

„Það hef­ur haft mjög mik­il áhrif á það hvernig ég nálg­ast föður­hlut­verkið að hafa al­ist upp með svona ótrú­lega kven­fyr­ir­mynd eins og móður mína. Ég lærði að eiga mjög ást­ríkt og skemmti­legt sam­band við móður mína sem hélt vel utan um það að ég fengi að vera eins og ég vildi á sama tíma og hún hjálpaði mér mikið við að vera næm­ur fyr­ir um­hverfi mínu og hlusta á inn­sæið. Ég hef not­fært mér mikið úr upp­eld­is­verk­færa­k­istu mömmu sem snýr að því að efla til­finn­inga­greind hjá börn­un­um mín­um og næra sköp­un­ar­krafta sína. Svo var ég svo hepp­inn að fá pabba minn inn í líf mitt sem gat kennt mér að verða maður. Gat kennt mér mikið um það að vera hug­rakk­ur, ein­læg­ur og kunna mun­inn á bor­vél og skrúf­vél svo fátt sé nefnt,“ seg­ir Frosti.

Erla Hlín með börnin þrjú.
Erla Hlín með börn­in þrjú.

Meg­um við fara með hann heim?

Frosti er kvænt­ur Erlu Hlín Sig­ríðardótt­ur en árið 2016 kom fyrsta barnið þeirra í heim­inn, son­ur­inn Fálki. Um­turnaðist ekki lífið þegar þið urðuð for­eldr­ar?

„Já, þetta var mik­il breyt­ing að þurfa að hugsa um ein­hvern ann­an en sjálf­an sig og finna fyr­ir vænt­umþykju og ábyrgðar­til­finn­ingu sem mann hefði aldrei órað fyr­ir. Ég átti mjög súr­realíska upp­lif­un þegar við vor­um að fara af fæðing­ar­deild­inni þar sem mér fannst svo skrítið að þau ætluðu bara að leyfa okk­ur að eiga hann.“

Svo fæðast tvö börn til viðbót­ar og á sex árum farið þið úr því að vera bara tvö yfir í að vera fimm manna fjöl­skylda. Hvernig hugs­ar þú hlut­ina? Hvað ger­irðu, legg­ur þitt af mörk­um, til þess að heim­il­is­lífið gangi sem best?

„Maður reyn­ir bara sitt besta við að sjá til þess að öll­um líði vel, þau séu vel nærð, tann­burstuð og nægi­lega vel klædd, allt auka­lega er svo bara bón­us. Við kon­an mín erum kom­in með ágæt­is kerfi sem virk­ar vel fyr­ir okk­ur þar sem við deil­um verk­efn­um án þess að þurfa mikið að ræða það sér­stak­lega. Ég dá­ist að því hvernig ein­stæðir for­eldr­ar ná að valda öll­um þess­um verk­efn­um sem þarf að sinna fyr­ir börn­in sín.“

Frosti leggur mikið upp úr því að það sé gaman …
Frosti legg­ur mikið upp úr því að það sé gam­an hjá fjöl­skyld­unni.

Leigu­bíl­stjóri barn­anna

Hverj­ar eru helstu áskor­an­ir feðra í þinni stöðu?

„Það er helst að finna jafn­vægi milli þeirra mörgu hlut­verka sem maður gegn­ir. Að vera for­eldri, gegna vinnu, vera vin­ur, eig­inmaður, leigu­bíl­stjóri barn­anna sinna, vera í virku barna- og ung­linga­starfi, vera dyra­vörður á kvöld­in þegar það er kom­inn hátta­tími, kokk­ur þegar það er stemn­ing fyr­ir núðlum eða grilluðu brauði, með dag­skrá fyr­ir skóla og íþrótt­ir á hreinu og svo kannski reyna að kom­ast í rækt­ina eða sinna áhuga­mál­um þess á milli.“

Syn­ir Erlu og Frosta eru komn­ir í grunn­skóla en dótt­ir þeirra er í leik­skóla. Hvernig eru morgn­arn­ir á heim­il­inu?

„Það minn­ir oft á upp­hafs­atriðið í Home Alone þar sem eng­inn finn­ur neitt og all­ir labba í all­ar átt­ir. Dótt­ir okk­ar er oft búin að klína grískri jóg­úrt yfir sig alla og það er al­gjört týpu­álag á drengj­un­um mín­um að fót­boltatreyj­an passi við stutt­bux­urn­ar sem þeir fara í inn­an und­ir bux­urn­ar sín­ar en við kon­an mín erum með þannig sam­stillt stokk­hólms­heil­kenni að þegar þetta nær hæstu hæðum í óreiðu, álagi og lát­um þá höf­um við húm­or fyr­ir því og hlæj­um oft­ast að því, oft­ast.“

Fálki, Stormur og Hrafntinna Jóga.
Fálki, Storm­ur og Hrafnt­inna Jóga.

Fata­fjöll og mat­ur úr plast­bakka

Í dag er alltaf verið að tala um að það sé svo mikið álag á for­eldra því allt þurfi að vera svo full­komið. Hver er er þín skoðun á því?

„Ég reyni að hugsa sem minnst um það og reyni frek­ar af öll­um mætti að passa upp á að það sé gam­an hjá okk­ur frek­ar en hvernig hlut­irn­ir líta út. Við hlæj­um mikið og segj­umst öll elska hvert annað með reglu­legu milli­bili þannig að mér er sama þótt það sé stund­um fata­fjall sem á eft­ir að brjóta sam­an eða mat­ur­inn komi stund­um beint úr plast­bakka yfir í air­fryer­inn. Svo mega börn­in bara vera í því sem þeim líður vel í, hvort sem það er að mæta í Spi­derm­an-bún­ingi í brúðkaup eða í Messi-bún­ingi fyrsta skóla­dag­inn.“

Hvað legg­ur þú áherslu á sem faðir svo börn­un­um þínum líði sem best?

„Ég reyni að byggja upp traust þeirra á mér og sér sjálf­um og standa við bakið á þeim í því að leyfa þeim að vera þau sjálf. Ég trúi mikið á það að ör­uggt barn sé ham­ingju­samt barn og ég held að okk­ur hafi tek­ist vel til í þeirri deild. Sem faðir hef ég líka lagt áherslu á mik­inn leik með mér og öðrum krökk­um og lík­am­lega hreyf­ingu til að börn­un­um mín­um líði vel í lík­am­an­um og kunni að leika fal­lega til að ýta und­ir fé­lags­leg­an þroska.“

Synirnir Fálki og Stormur.
Syn­irn­ir Fálki og Storm­ur.

Má ræða allt

Nú er talað um að við sem sam­fé­lag séum á villi­göt­um á svo marg­an hátt. Hér grass­er­ar of­beldi og for­eldr­ar virðast ekk­ert ráða við hlut­verk sitt. Hverju finnst þér að við eig­um að gera meira af og hverju minna til þess að láta hlut­ina ganga bet­ur?

„Ég er ekki með neina töfra­lausn, eins mikið og ég væri til í það, en ég held að fé­lags­leg ein­angr­un og sam­skipta­leysi í van­líðan séu oft stór­ir þætt­ir sem ýta und­ir and­fé­lags­lega hegðun og of­beldi. Ég hef reynt að styðja und­ir það að á okk­ar heim­ili megi ræða allt og að við leggj­um okk­ur fram við að leysa hlut­ina sam­an á yf­ir­vegaðan hátt.“

Svo er það skjá­tím­inn, sem virðist kannski ekki draga fram það besta í börn­un­um. Ertu með ein­hverja skoðun á skjá­tím­an­um?

„Ég hef bara þá skoðun að auðvitað sé gott að vera mjög meðvitaður um það sem er verið að horfa á eða spila en að stund­um sé skjár­inn mjög þægi­legt tól til að hægt sé að brjóta sam­an þvott eða fyr­ir okk­ur hjón­in að jafn­vel horf­ast í augu af og til þar sem við erum und­ir­mönnuð. Ég held að við setj­um alltof mikla skömm og nei­kvæðni á þessa skjái í okk­ar sam­fé­lagi og gleym­um því hvað við sjálf eydd­um mikl­um tíma með vhs-spól­un­um eða tölvu­leikj­um.“

Ég vil vera fyr­ir­mynd

Hvað dríf­ur þig áfram í föður­hlut­verk­inu?

„Það dríf­ur mig áfram að börn­in mín viti að ég verndi þau alltaf og sé með þeim í liði. Ég vil líka að börn­in mín al­ist upp á heim­ili sem er opið fyr­ir vin­um þeirra og að hjá okk­ur sé skemmti­legt og heil­brigt um­hverfi fyr­ir þau. Ég vil vera fyr­ir­mynd í því hvernig ég á sam­skipti við þau og aðra og mér er mjög annt um að all­ir læri snemma að þakka fyr­ir sig og biðjast af­sök­un­ar ef þau gera eitt­hvað sem ekki má.“

Hvernig er verka­skipt­ing­in á heim­il­inu?

„Ég sé að miklu leyti um íþrótt­irn­ar, klipp­ing­ar, skutl, baðtíma, heima­lær­dóm og teikn­i­stund­ir, svo skipt­um við með okk­ur að koma börn­un­um í hátt­inn og þrif­um und­ir leiðsögn en ég er um­tals­vert minna í eld­hús­inu fyr­ir utan ein­staka rétti sem börn­in vilja frek­ar að ég eldi eða grilli þar sem ég er svo vel gift­ur að kon­an mín eld­ar alltaf æðis­leg­an mat.“

Hvað ger­ir þið kon­an þín til þess að viðhalda neist­an­um og njóta þess að vera hjón?

„Við erum svo hepp­in að eiga góða fjöl­skyldu að sem hef­ur verið til í að passa svo að við kom­umst stund­um tvö á stefnu­mót, þess á milli vönd­um við okk­ur í sam­skipt­um hvort við annað og pöss­um upp á að tala fal­lega hvort til ann­ars á hverj­um degi. Við erum líka dug­leg að senda hvort öðru hlý skila­boð yfir dag­inn og pöss­um upp á það að taka vel á móti hvort öðru þegar við hitt­umst.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda