Frosti Örn Gnarr er hönnuður, markaðsmaður og þriggja barna faðir í Háaleitishverfinu. Hann leggur áherslu á að fjölskyldulífið sé afslappað, skemmtilegt og að öllum líði vel inni á heimilinu þótt morgnarnir séu stundum eins og byrjunaratriðið í Home Alone.
„Það er bara yndislegt að vera þriggja barna faðir í barnvænsta hverfi Reykjavíkur. Þetta er auðvitað á köflum svakalegt álag og ringulreið en svo segir eitthvert þeirra eitthvað fallegt og allt verður þess virði,“ segir Frosti Gnarr þegar hann er spurður hvernig sé að vera faðir þriggja barna sem eru fædd á árunum 2016, 2019 og 2022.
Frosti var alinn upp af konu, móður sinni Jógu Gnarr, og voru þau tvö í heimili þangað til hann var 12 ára. Þá fann hún ástina og giftist pabba Frosta, Jóni Gnarr, sem er forsetaframbjóðandi, rithöfundur og grínisti. Þegar Frosti er spurður að því hvort þessi lífsreynsla hafi mótað hann sem föður segir hann svo vera.
„Það hefur haft mjög mikil áhrif á það hvernig ég nálgast föðurhlutverkið að hafa alist upp með svona ótrúlega kvenfyrirmynd eins og móður mína. Ég lærði að eiga mjög ástríkt og skemmtilegt samband við móður mína sem hélt vel utan um það að ég fengi að vera eins og ég vildi á sama tíma og hún hjálpaði mér mikið við að vera næmur fyrir umhverfi mínu og hlusta á innsæið. Ég hef notfært mér mikið úr uppeldisverkfærakistu mömmu sem snýr að því að efla tilfinningagreind hjá börnunum mínum og næra sköpunarkrafta sína. Svo var ég svo heppinn að fá pabba minn inn í líf mitt sem gat kennt mér að verða maður. Gat kennt mér mikið um það að vera hugrakkur, einlægur og kunna muninn á borvél og skrúfvél svo fátt sé nefnt,“ segir Frosti.
Frosti er kvæntur Erlu Hlín Sigríðardóttur en árið 2016 kom fyrsta barnið þeirra í heiminn, sonurinn Fálki. Umturnaðist ekki lífið þegar þið urðuð foreldrar?
„Já, þetta var mikil breyting að þurfa að hugsa um einhvern annan en sjálfan sig og finna fyrir væntumþykju og ábyrgðartilfinningu sem mann hefði aldrei órað fyrir. Ég átti mjög súrrealíska upplifun þegar við vorum að fara af fæðingardeildinni þar sem mér fannst svo skrítið að þau ætluðu bara að leyfa okkur að eiga hann.“
Svo fæðast tvö börn til viðbótar og á sex árum farið þið úr því að vera bara tvö yfir í að vera fimm manna fjölskylda. Hvernig hugsar þú hlutina? Hvað gerirðu, leggur þitt af mörkum, til þess að heimilislífið gangi sem best?
„Maður reynir bara sitt besta við að sjá til þess að öllum líði vel, þau séu vel nærð, tannburstuð og nægilega vel klædd, allt aukalega er svo bara bónus. Við konan mín erum komin með ágætis kerfi sem virkar vel fyrir okkur þar sem við deilum verkefnum án þess að þurfa mikið að ræða það sérstaklega. Ég dáist að því hvernig einstæðir foreldrar ná að valda öllum þessum verkefnum sem þarf að sinna fyrir börnin sín.“
Hverjar eru helstu áskoranir feðra í þinni stöðu?
„Það er helst að finna jafnvægi milli þeirra mörgu hlutverka sem maður gegnir. Að vera foreldri, gegna vinnu, vera vinur, eiginmaður, leigubílstjóri barnanna sinna, vera í virku barna- og unglingastarfi, vera dyravörður á kvöldin þegar það er kominn háttatími, kokkur þegar það er stemning fyrir núðlum eða grilluðu brauði, með dagskrá fyrir skóla og íþróttir á hreinu og svo kannski reyna að komast í ræktina eða sinna áhugamálum þess á milli.“
Synir Erlu og Frosta eru komnir í grunnskóla en dóttir þeirra er í leikskóla. Hvernig eru morgnarnir á heimilinu?
„Það minnir oft á upphafsatriðið í Home Alone þar sem enginn finnur neitt og allir labba í allar áttir. Dóttir okkar er oft búin að klína grískri jógúrt yfir sig alla og það er algjört týpuálag á drengjunum mínum að fótboltatreyjan passi við stuttbuxurnar sem þeir fara í innan undir buxurnar sínar en við konan mín erum með þannig samstillt stokkhólmsheilkenni að þegar þetta nær hæstu hæðum í óreiðu, álagi og látum þá höfum við húmor fyrir því og hlæjum oftast að því, oftast.“
Í dag er alltaf verið að tala um að það sé svo mikið álag á foreldra því allt þurfi að vera svo fullkomið. Hver er er þín skoðun á því?
„Ég reyni að hugsa sem minnst um það og reyni frekar af öllum mætti að passa upp á að það sé gaman hjá okkur frekar en hvernig hlutirnir líta út. Við hlæjum mikið og segjumst öll elska hvert annað með reglulegu millibili þannig að mér er sama þótt það sé stundum fatafjall sem á eftir að brjóta saman eða maturinn komi stundum beint úr plastbakka yfir í airfryerinn. Svo mega börnin bara vera í því sem þeim líður vel í, hvort sem það er að mæta í Spiderman-búningi í brúðkaup eða í Messi-búningi fyrsta skóladaginn.“
Hvað leggur þú áherslu á sem faðir svo börnunum þínum líði sem best?
„Ég reyni að byggja upp traust þeirra á mér og sér sjálfum og standa við bakið á þeim í því að leyfa þeim að vera þau sjálf. Ég trúi mikið á það að öruggt barn sé hamingjusamt barn og ég held að okkur hafi tekist vel til í þeirri deild. Sem faðir hef ég líka lagt áherslu á mikinn leik með mér og öðrum krökkum og líkamlega hreyfingu til að börnunum mínum líði vel í líkamanum og kunni að leika fallega til að ýta undir félagslegan þroska.“
Nú er talað um að við sem samfélag séum á villigötum á svo margan hátt. Hér grasserar ofbeldi og foreldrar virðast ekkert ráða við hlutverk sitt. Hverju finnst þér að við eigum að gera meira af og hverju minna til þess að láta hlutina ganga betur?
„Ég er ekki með neina töfralausn, eins mikið og ég væri til í það, en ég held að félagsleg einangrun og samskiptaleysi í vanlíðan séu oft stórir þættir sem ýta undir andfélagslega hegðun og ofbeldi. Ég hef reynt að styðja undir það að á okkar heimili megi ræða allt og að við leggjum okkur fram við að leysa hlutina saman á yfirvegaðan hátt.“
Svo er það skjátíminn, sem virðist kannski ekki draga fram það besta í börnunum. Ertu með einhverja skoðun á skjátímanum?
„Ég hef bara þá skoðun að auðvitað sé gott að vera mjög meðvitaður um það sem er verið að horfa á eða spila en að stundum sé skjárinn mjög þægilegt tól til að hægt sé að brjóta saman þvott eða fyrir okkur hjónin að jafnvel horfast í augu af og til þar sem við erum undirmönnuð. Ég held að við setjum alltof mikla skömm og neikvæðni á þessa skjái í okkar samfélagi og gleymum því hvað við sjálf eyddum miklum tíma með vhs-spólunum eða tölvuleikjum.“
Hvað drífur þig áfram í föðurhlutverkinu?
„Það drífur mig áfram að börnin mín viti að ég verndi þau alltaf og sé með þeim í liði. Ég vil líka að börnin mín alist upp á heimili sem er opið fyrir vinum þeirra og að hjá okkur sé skemmtilegt og heilbrigt umhverfi fyrir þau. Ég vil vera fyrirmynd í því hvernig ég á samskipti við þau og aðra og mér er mjög annt um að allir læri snemma að þakka fyrir sig og biðjast afsökunar ef þau gera eitthvað sem ekki má.“
Hvernig er verkaskiptingin á heimilinu?
„Ég sé að miklu leyti um íþróttirnar, klippingar, skutl, baðtíma, heimalærdóm og teiknistundir, svo skiptum við með okkur að koma börnunum í háttinn og þrifum undir leiðsögn en ég er umtalsvert minna í eldhúsinu fyrir utan einstaka rétti sem börnin vilja frekar að ég eldi eða grilli þar sem ég er svo vel giftur að konan mín eldar alltaf æðislegan mat.“
Hvað gerir þið konan þín til þess að viðhalda neistanum og njóta þess að vera hjón?
„Við erum svo heppin að eiga góða fjölskyldu að sem hefur verið til í að passa svo að við komumst stundum tvö á stefnumót, þess á milli vöndum við okkur í samskiptum hvort við annað og pössum upp á að tala fallega hvort til annars á hverjum degi. Við erum líka dugleg að senda hvort öðru hlý skilaboð yfir daginn og pössum upp á það að taka vel á móti hvort öðru þegar við hittumst.“