Lyftu þér upp á aðventunni

Morgunblaðið/Eggert

Ævintýri í jólaskógi: Um er að ræða alls 198 viðburði í nóvember og desember, í Guðmundarlundi í Heiðmörk. Í ár er fimmta árið í röð sem ævintýrið fer fram, þar sem fjölskyldan gengur leiðina í gegnum skóginn með vasaljós og sér alls konar tröll, jólasveinanana, Grýlu, Leppalúða og persónur sem jafnvel hafa ekki sést áður. Sýningin er tæpur klukkutími og að henni lokinni er hægt að fá mynd af sér með jólasveininum og gæða sér á heitu kakói, kaffi og piparkökum. Hægt er að kaupa miða á Ævintýri í jólaskógi á tix.is.

Árbæjarsafn: Aðventan á Árbæjarsafni er æði skemmtileg. Aldargömul húsin og svæðið allt fær jólalegan blæ, á gamla vísu. Þá má nálgast skemmtilega dagskrá á Fésbókarsíðu safnsins, en í desember er allt eins hægt að búast við að sjá gömlu jólasveinunum bregða fyrir ásamt öðru spennandi fyrir börnin.

Jólagarðurinn: Á Akureyri er hinn fádæma fíni jólagarður þar sem andi jólanna svífur yfir. Í garðinum eru turn og lítið jólahús, sem setja fallega jólastemningu á umhverfið, reyndar allt árið um kring, en frá september til desember er garðurinn opinn frá klukkan 12-18. Í versluninni í garðinum er hægt að kaupa alls kyns jólavörur.

Jólaland Húsasmiðjunnar og Blómavals: Ein hugmynd til að lífga upp á daginn í skammdeginu, enda ekkert ólíklegt að það þurfi að kaupa nýja jólaseríu. Jólalandið er eflaust greypt í æskuminningar margra og skemmtileg upplifun fyrir börnin að skoða skreytingarnar og jólasveinana.

Piparkökubakstur og/eða skreytingar: Til eru ofurmömmur sem baka allt frá grunni. Í alvöru, þær fyrirfinnast enn þann dag í dag! Hins vegar er einnig hægt að kaupa box með piparkökum og piparkökuhús sem hægt er að líma saman og skreyta. Flestar matvöruverslanir, ásamt Ikea, selja það sem til þarf í piparkökuskreytingar og þegar búið er að kaupa inn þarf einungis að kveikja á kertum, setja jólatónlist á og leyfa börnunum að njóta símalausrar samveru við foreldra og fjölskyldu á aðventunni.

Skautar: Það er fátt jafn hátíðlegt og að líða um á skautum með fjölskyldunni í kringum fallega skreytt jólatréð á miðju skautasvellinu undir ljúfri jólatónlist. Skautasvellin í Laugardalshöll og Egilshöll eru mjög skemmtileg og engar áhyggjur, það er hægt að leigja skauta á staðnum. Það þarf ekki að vera önnur Tonya Harding til að renna sér á svellinu. Til eru grindur fyrir fullorðna og börn til stuðnings ef óöryggið lætur á sér kræla inni á svellinu. Ekki má gleyma Skautahöllinni á Akureyri, Hjartasvellinu í Hafnarfirði sem verður opnað á aðventunni og sömuleiðis skautasvellið í miðbæ Reykjavíkur.

Skíði: Sagði einhver meiri snjó? Um allt land er að finna frábær skíðasvæði og nú eru höfuðborgarbúar þeirrar lukku aðnjótandi að tvær nýjar stólalyftur voru vígðar í desember í fyrra ásamt snjóframleiðslukerfi. Verði veðurguðirnir mönnum hliðhollir verður vonandi hægt að komast í fjallið fyrir eða um jólin. Annars eru frábær skíðasvæði um allt land. Á Akureyri sem og í Bláfjöllum er svokallað töfrateppi fyrir byrjendur og þau alla yngstu, færiband sem ferjar skíðakappana upp aflíðandi brekku, í stað skíðalyftu. Pssst, það er enginn aðgangseyrir í töfrateppið.

Sleði: Það þarf einungis að bíða eftir snjó. Brekkur er víðast hvar að finna, bæði viðráðanlegar og óviðráðanlegar. Víðistaðatún í Hafnarfirði og Klambratúnið gamla og góða í Reykjavík eru frábærir staðir til að finna barnið í sjálfum sér og renna sér út í hið óendanlega með börnunum.

Jólaföndur: Þann 4. desember verður jólaföndur með Sigurrós á Bókasafninu á Torginu. Sigurrós er bókavörður og föndurmeistari og mun kenna gestum að föndra jólatré úr gömlum kiljum og skreyta það fallega. Einnig mun hún sýna hvernig búa á til jólakort og merkispjöld.

Jólabað jólasveinanna: Þann 7. desember verða jólasveinarnir baðaðir í Jarðböðunum á Mývatni. Líkt og fram kemur í lýsingunni eru bræðurnir misánægðir með þessa hefð og vilja helst gera eitthvað annað fyrir jólin en að vera baðaðir. Hægt er að kaupa miða á viðburðinn á tix.is.

Jóla-Sögustund á náttfötum: Þetta er einn af viðburðum Borgarbókasafnsins á aðventunni. Jóla-Sögustund er ætluð fyrir þriggja ára og eldri og er haldin á Bókasafninu Sólheimum. Þá mega krílin mæta með uppáhaldstuskudýrið sitt og að sögustund lokinni er boðið upp á hollt snakk. Skráning fer fram á vef Borgarbókasafnsins, en næsta sögustund er 12. desember.

Jólasveinarnir í Dimmuborgum: Nokkra vel valda daga í desember er hægt að berja jólasveinana augum í Dimmuborgum, í hrauninu austur af Mývatni. Þetta er óborganleg skemmtun í ævintýralegu umhverfi sem líkist helst heimkynnum jólasveinanna. Og verður sungið, spilað og leikið. Hægt er að kaupa miða á skemmtunina á tix.is.

Skreyta saman: Þegar jólaskrautið er dregið fram er oft gott að nota krafta litlu aðstoðarmannanna á heimilinu. Flestum börnum finnst fátt jafn skemmtilegt og að skreyta fyrir jólin. Gleðin skín úr augum þeirra þegar verið er að raða skrautinu og sortera til að hefja skreytingarferlið. Kjörið ráð er að nýta fallegt skrautið sem börnin föndra í skólum og leikskólum og leyfa þeim að stilla því upp inni á heimilinu. Fegurðin felst í jólaföndri barnanna.

Spila: Fullkomin samverustund barna og fullorðinna. Það eru til borðspil fyrir nánast allan aldur og svo er alltaf gaman að taka ólsen-ólsen eða skítakall. Yndislegt síðdegi eða kvöldstund, með piparkökum, konfekti og kakói.

Fara í sund: Einn besti staðurinn til að njóta samveru er eflaust í sundlauginni. Þar er a.m.k. hægt að ganga úr skugga um að foreldrar laumist ekki í símann. Krílin njóta þess að busla og nýta orku sem gæti jafnast á við kjarnorku á meðan foreldrar njóta þess að lifa lífinu í lauginni.

Jólabíó: Gamlar og nýjar fjölskyldu- og jólamyndir eru væntanlegar í kvikmyndahúsin í desember. Það er um að gera að kíkja inn á vefsíðu kvikmyndahúsanna og skoða hvaða myndir eru væntanlegar, því úr vöndu er að velja.

Jólaþorpin: Í Hafnarfirði og Reykjavík og svo það nýjasta er jólatorgið á Ráðhústorginu á Akureyri. Á aðventunni er kjörið að kíkja með fjölskylduna í jólaþorpin, ganga um og skoða eða versla í sölubásunum sem iðulega selja íslenskt handverk, jólaskraut og matvæli. Jólaandinn svífur um loftið meðal gesta sem anda frá sér gufustróki í köldu vetrarloftinu og ljósadýrðinni.

Hellisgerði: Hægt er að sameina ferð í jólaþorpið í Hafnarfirði og heimsókn í Hellisgerði. Almenningsgarðurinn er fallega skreyttur ljósum og það er aldrei að vita nema hægt sé að finna hreindýr og jólaálfa í krókum og kimum hraunsins á leiðinni um garðinn. Í Hellisgerði er lítið, fallegt kaffihús sem selur alls kyns góðgæti og hægt er að tylla sér í einum af glerskálunum sem settir hafa verið upp á meðan veitinganna er notið.

Aðventan á Árbæjarsafni er alltaf skemmtileg.
Aðventan á Árbæjarsafni er alltaf skemmtileg. Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda