„Ég öskurgrét og hló til skiptis“

„Hafþór Atli skaust út í einum rembing og Eysteinn Helgi …
„Hafþór Atli skaust út í einum rembing og Eysteinn Helgi fæddist svo í sigurkufli, enn í órofnum líknarbelg, en það er mikið gæfumerki.“ Ljósmynd/Aðsend

Töfrarnir þeir gerast og í nóvember á síðasta ári átti sér stað fyrsta skipulagða tvíburaheimafæðingin hérlendis í 55 ár.

Kúabændurnir Dagný Lilja Birgisdóttir og Heimir Sigurðsson eiga fjóra drengi undir fimm ára, en þeir tveir yngstu, tvíeggja tvíburarnir Hafþór Atli og Eysteinn Helgi, komu í heiminn 26. nóvember þegar Dagný var gengin sléttar 37 vikur.

„Fæðingin sjálf tók um fimm klukkustundir frá fyrsta verk þar til báðir voru komnir. Hafþór Atli skaust út í einum rembing og Eysteinn Helgi fæddist svo í sigurkufli, enn í órofnum líknarbelg, en það er mikið gæfumerki.“

Hafþór Atli og Eysteinn Helgi komu í heiminn 26. nóvember …
Hafþór Atli og Eysteinn Helgi komu í heiminn 26. nóvember á síðasta ári. Fæðingin sjálf tók um fimm klukkustundir frá fyrsta verk þar til báðir voru komnir. Ljósmynd/Aðsend

Kúabændur og barnauppeldi

„Við rekum búið saman með tengdaforeldrum mínum, sem búa hér í næsta húsi, og þetta virkar bara mjög vel,“ segir Dagný þegar hún er spurð um hvernig sé að vera bóndi með fjóra unga drengi. Fjölskyldan er búsett á sveitabæ í Hrunamannahreppi.

Eldri drengirnir tveir, Emil, sem er að verða fimm ára, og Mattías Ari, þriggja ára, eru á leikskóla á Flúðum.

„Lífið í sveitinni virkar aðeins öðruvísi en í borginni. Þessir tveir elstu fara bara með í vinnu og hægt er að segja að vinna og daglegt líf blandast meira saman.“

Hvernig varð þér við þegar þú fréttir að þú gengir með tvíbura?

„Það var mjög óvænt. Það eru alveg einhverjir tvíburar í fjölskyldunni en ekkert sem okkur grunaði fyrir fram að væri í okkar tilfelli. Við komumst að þessu í 12 vikna sónarnum og viðbrögðin voru allavega, ég öskurgrét og hló til skiptis. En heilt yfir var þetta mjög ánægjulegt.“

Eldri bræðurnir, Emil og Mattías Ari, sjá ekki sólina fyrir …
Eldri bræðurnir, Emil og Mattías Ari, sjá ekki sólina fyrir nýjustu fjölskyldumeðlimunum. Ljósmynd/Aðsend

Hefur skoðað báða möguleika í þaula

Dagný, sem er 31 árs, hafði fyrir fæðingu tvíburanna bæði reynslu af heima- og spítalafæðingu. „Elsti strákurinn minn fæddist á Landspítalanum árið 2020 og miðjustrákurinn minn fæddist heima 2021.“

Hún segist vitaskuld ekki vera sérfræðingur en að hún hafi hins vegar leitað upplýsinga og kynnt sér vel t.d. rannsóknir vegna skipulagðra fæðinga, annars vegar á spítala og hins vegar í heimafæðingu. 

„Niðurstöðurnar voru m.a. þær að það eru 50% auknar líkur á alvarlegri blæðingu, sýkingum og inngripum eins og örvun og spangarklippingu í spítalafæðingu. Líkurnar á keisaraskurði aukast um 20% bara við það eitt að fara inn í spítalafæðingu,“ segir Dagný þegar hún nefnir muninn á fæðingarmöguleikunum tveimur.

Dagný og Heimir kusu að vera í sínu þægilega umhverfi …
Dagný og Heimir kusu að vera í sínu þægilega umhverfi og fylgja hjartanu í stað þess að fara eftir því sem allir aðrir gera. Ljósmynd/Aðsend

Ekki endilega tenging á milli áhættu og tvíburameðgöngu

„Allir vilja að maður fæði eins náttúrulega og kostur er,“ segir Dagný. Spítalinn taki hins vegar mið af ákveðnum breytum, t.d. ef barnið sem liggur neðar er ekki í höfuðstöðu þá þarf að meta hvort þurfi keisara. Í þeim skoðunum sem hún fór í var ekkert sem benti til annars en að hún gæti fætt drengina um leggöng. 

„Við tókum ákvörðun um heimafæðingu, ef allt gengi eftir, en héldum þó spítalamöguleikanum opnum og vorum alveg viðbúin því að þurfa að eiga þar.“ 

Þá bendir Dagný á að hún hafi verið merkt sérstaklega í áhættumeðgöngu en að hennar áliti séu meðgöngur svo ólíkar meðal einstaklinga að ekki sé hægt að merkja eina tegund meðgöngu á þennan hátt. 

„Þetta voru tvíeggja tvíburar og þeir deildu í raun engu nema plássinu.“

Það að ganga með tvö börn er ekki eitt og sér áhætta en getur aukið líkur á öðrum áhættuþáttum eins og meðgöngueitrun, að sögn Dagnýjar. „Mér getur alveg sárnað þegar fólk talar um að við höfum verið að taka einhverja áhættu með þessu en ég myndi aldrei setja fjölskyldu mína í hættu. Þetta snýst ekkert um uppreisn gegn sjúkrahúsinu. Þetta snýst bara um að vera í okkar þægilega umhverfi og eiga góða upplifun.“

„Við létum skíra þá í jólafríinu og þeir heita Hafþór …
„Við létum skíra þá í jólafríinu og þeir heita Hafþór Atli og Eysteinn Helgi.“ Ljósmynd/Aðsend

Draumafæðing

Dagný segir fæðinguna sjálfa hafa tekið fimm klukkustundir í það heila, frá fyrsta verk þar til báðir voru komnir. „Hafþór Atli skaust út í einum rembing og Eysteinn Helgi fæddist svo í sigurkufli, enn í órofnum líknarbelg, en það er mikið gæfumerki.“

Hún útskýrir að hún hafi hugsað að ferlið myndi ganga vel þar til annað kæmi í ljós. 

„Kannski er þetta bara sveitastelpan í mér en mér finnst ég svolítið tengd náttúrunni og sjálfri mér og ég treysti bara ferlinu,“ segir hún. 

„Þegar tvíburarnir fæðast þá fær tvíburi b, sá sem fæddist seinna, vatn í lungun í fæðingunni. Á spítalanum, ef barn fær vatn í lungun í fæðingu, þá fer það á vökudeild þar sem vatnið er sogað upp áður en móðirin fær það í fangið aftur. Þar sem við vorum heima þá dvaldi ljósmóðirin bara lengur hjá okkur, fylgdist með honum, tók lífsmörk og andardrátt og svoleiðis, þar til hún gat gengið úr skugga um að allt væri í lagi.“

Drengirnir dafna vel og er nú að verða þriggja ára. …
Drengirnir dafna vel og er nú að verða þriggja ára. Dagný segir það væntanlega verða meiri lúxus þegar þeir detta í „góða“ svefnrútínu. Ljósmynd/Aðsend

Eftir að tvíburarnir komu í heiminn fór ljósmóðirin á stúfana til að skoða hvað hefði gerst í skipulagðri tvíburaheimafæðingu hérlendis á síðustu áratugum. Dagný segir að ekki séu til nákvæm gögn langt aftur í tímann þar sem skráning hafi verið með öðrum hætti áður fyrr. Hins vegar hafi ljósmóðirin sagt, eftir bestu vitneskju, að síðasta skipulagða heimafæðing tvíbura hefði átt sér stað fyrir 55 árum.

Hvernig dafna drengirnir?

„Þeir eru að verða þriggja mánaða núna og það gengur mjög vel. Við krossum samt fingur að þeir fari bráðum í góða svefnrútínu. Það er mikil áskorun að þegar einn sefur vaki hinn.“ 

Að lokum segir Dagný tvíburana hafa heldur betur gefið lit í líf og tilveru eldri bræðranna sem sjá ekki sólina fyrir þeim.

Gæðastundin engri lík.
Gæðastundin engri lík. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda