Barnæskan er dýrmætur tími sem hefur mótandi áhrif á mannfólkið þegar það kemst á fullorðinsaldur. Í dag er töluvert rætt um það að fullorðnir, í öllum sínum ófullkomleika, detti stundum óvart í barnaorkuna þegar hlutirnir æxlast ekki eins og þeir höfðu séð fyrir sér. Fólk getur brugðist skringilega við litlu með frekju og óhemjugangi. Fólk sem hefur leitað sér hjálpar til að reyna að láta sér líða betur í eigin skinni er oft látið kafa ofan í barnæskuna. Hvað gerðist þar sem er að trufla fólk sem hefur alla burði til að lifa góðu lífi?
Það getur verið hjálplegt að skoða hvað bjátaði á og hvernig er hægt að komast út úr því en svo þarf kaflanum líka að ljúka. Það getur verið miklu áhugaverðara að draga fram hvað við elskuðum að gera þegar við vorum 10 ára. Þegar ég spurði manninn minn hvernig hann hefði hagað sér þegar hann var 10 ára kom í ljós að hann var alltaf í löggu og bófa og auðvitað var hann alltaf löggan. Í dag er hann ekkert lítið upptekinn af því að fólk fari eftir reglum samfélagsins. Þegar við ræðum heimsmálin spyr hann stundum íbygginn á svip: „Er það löglegt?“ eða „ég myndi halda að þetta væri 218“ og er þá að vísa í hegningarlög.
Þegar ég staldraði við og fór að velta fyrir mér hvað ég var raunverulega að gera þegar ég var 10 ára, annað en að berja bróður minn sem er tveimur árum yngri en ég, kom í ljós að ég þurfti alltaf að vera að gera eitthvað. Var alltaf með nokkur verkefni í gangi sem snerust að mestu um handavinnu, matreiðslu og útvarpsþáttagerð. Útvarpsþættirnir voru frekar skrautlegir, en þeir gengu út á það að fólk sem hafði magalent í lífinu hringdi inn og reyndi að selja ónýtt skran. Svo teiknaði ég blokkir á rúðustrikuð blöð og lagði mikla áherslu á að gluggatjöldin endurspegluðu líf og lífsstíl íbúanna í blokkinni. Þeir sem voru í lagi voru með rimagluggatjöld en þeir sem voru ekki í lagi voru með dauð blóm úti í glugga og mjög hallærisleg gluggatjöld.
Svo voru það símaötin sem við stunduðum af miklum móð. Þó ekki heima hjá mér því það var alltaf einhver heima. Ég vissi líka að það væri dýrt að hringja og ég vildi ekki að við myndum missa húsið vegna hárra símareikninga. Þannig að við hringdum mikið heima hjá vinkonu minni. Þegar við vorum 10 ára kom nýr myndmenntakennari í Selásskóla. Hann var með George Michael-klippingu og stundum með flagaraklút um hálsinn. Hann virtist hafa komið beint af Kaffi List í myndmenntakennslu í Árbænum. 10 ára ég var mjög forvitin um þetta eintak. Þegar við fundum hann í símaskránni fannst okkur tilvalið að hringja svolítið í hann, allavega nokkur kvöld í röð, og anda í símann. Þetta var áður en símnúmerabirtar voru fundnir upp og því voru litlar líkur á að glæpurinn kæmist upp. Nema hvað. Allt getur gerst. Ég sprakk úr hlátri í miðju öndunarsímtali og myndmenntakennarinn þekkti röddina.
„Marta María, ég veit að þetta ert þú“
Þetta var skellur. Hvað átti ég að gera? Neita? Mæta í skólann eins og ekkert hefði í skorist? Á þessum tíma mættu börn alltaf í skólann. Það var enginn búinn að fatta að börn hefðu tilfinningar og væru kannski smá kvíðin, þannig að það var engin undankomuleið. Myndmenntakennarinn var flottur á því. Upplýsti allan bekkinn um að ég væri að hringja í hann á kvöldin og anda í símann. Vinkonur mínar, sem höfðu að mestu séð um öndunina, sögðu hins vegar ekkert. Sátu eins og dæmdar í stólum frá Stálhúsgögnum. Seinna var gerð bíómynd um myndmenntakennarann þar sem kom í ljós að hann var kannski ekki alveg upp á tíu. En hver er svo sem upp á 10? Er ekki allt í lagi að vera bara 5,5 eða hvað?