Hvað varstu að gera þegar þú varst 10 ára?

Marta María Winkel Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is.
Marta María Winkel Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is. Ljósmynd/Kári Sverriss

Barnæsk­an er dýr­mæt­ur tími sem hef­ur mót­andi áhrif á mann­fólkið þegar það kemst á full­orðins­ald­ur. Í dag er tölu­vert rætt um það að full­orðnir, í öll­um sín­um ófull­kom­leika, detti stund­um óvart í barna­ork­una þegar hlut­irn­ir æxl­ast ekki eins og þeir höfðu séð fyr­ir sér. Fólk get­ur brugðist skringi­lega við litlu með frekju og óhemj­u­gangi. Fólk sem hef­ur leitað sér hjálp­ar til að reyna að láta sér líða bet­ur í eig­in skinni er oft látið kafa ofan í barnæsk­una. Hvað gerðist þar sem er að trufla fólk sem hef­ur alla burði til að lifa góðu lífi?

Það get­ur verið hjálp­legt að skoða hvað bjátaði á og hvernig er hægt að kom­ast út úr því en svo þarf kafl­an­um líka að ljúka. Það get­ur verið miklu áhuga­verðara að draga fram hvað við elskuðum að gera þegar við vor­um 10 ára. Þegar ég spurði mann­inn minn hvernig hann hefði hagað sér þegar hann var 10 ára kom í ljós að hann var alltaf í löggu og bófa og auðvitað var hann alltaf lögg­an. Í dag er hann ekk­ert lítið upp­tek­inn af því að fólk fari eft­ir regl­um sam­fé­lags­ins. Þegar við ræðum heims­mál­in spyr hann stund­um íbygg­inn á svip: „Er það lög­legt?“ eða „ég myndi halda að þetta væri 218“ og er þá að vísa í hegn­ing­ar­lög.

Þegar ég staldraði við og fór að velta fyr­ir mér hvað ég var raun­veru­lega að gera þegar ég var 10 ára, annað en að berja bróður minn sem er tveim­ur árum yngri en ég, kom í ljós að ég þurfti alltaf að vera að gera eitt­hvað. Var alltaf með nokk­ur verk­efni í gangi sem sner­ust að mestu um handa­vinnu, mat­reiðslu og út­varpsþátta­gerð. Útvarpsþætt­irn­ir voru frek­ar skraut­leg­ir, en þeir gengu út á það að fólk sem hafði maga­lent í líf­inu hringdi inn og reyndi að selja ónýtt skran. Svo teiknaði ég blokk­ir á rúðustrikuð blöð og lagði mikla áherslu á að glugga­tjöld­in end­ur­spegluðu líf og lífs­stíl íbú­anna í blokk­inni. Þeir sem voru í lagi voru með rima­glugga­tjöld en þeir sem voru ekki í lagi voru með dauð blóm úti í glugga og mjög hallæris­leg glugga­tjöld.

Svo voru það síma­öt­in sem við stunduðum af mikl­um móð. Þó ekki heima hjá mér því það var alltaf ein­hver heima. Ég vissi líka að það væri dýrt að hringja og ég vildi ekki að við mynd­um missa húsið vegna hárra síma­reikn­inga. Þannig að við hringd­um mikið heima hjá vin­konu minni. Þegar við vor­um 10 ára kom nýr mynd­mennta­kenn­ari í Sel­ás­skóla. Hann var með Geor­ge Michael-klipp­ingu og stund­um með flag­ara­klút um háls­inn. Hann virt­ist hafa komið beint af Kaffi List í mynd­mennta­kennslu í Árbæn­um. 10 ára ég var mjög for­vit­in um þetta ein­tak. Þegar við fund­um hann í síma­skránni fannst okk­ur til­valið að hringja svo­lítið í hann, alla­vega nokk­ur kvöld í röð, og anda í sím­ann. Þetta var áður en sím­núm­era­birt­ar voru fundn­ir upp og því voru litl­ar lík­ur á að glæp­ur­inn kæm­ist upp. Nema hvað. Allt get­ur gerst. Ég sprakk úr hlátri í miðju önd­un­ar­sím­tali og mynd­mennta­kenn­ar­inn þekkti rödd­ina.

„Marta María, ég veit að þetta ert þú“

Þetta var skell­ur. Hvað átti ég að gera? Neita? Mæta í skól­ann eins og ekk­ert hefði í skorist? Á þess­um tíma mættu börn alltaf í skól­ann. Það var eng­inn bú­inn að fatta að börn hefðu til­finn­ing­ar og væru kannski smá kvíðin, þannig að það var eng­in undan­komu­leið. Mynd­mennta­kenn­ar­inn var flott­ur á því. Upp­lýsti all­an bekk­inn um að ég væri að hringja í hann á kvöld­in og anda í sím­ann. Vin­kon­ur mín­ar, sem höfðu að mestu séð um önd­un­ina, sögðu hins veg­ar ekk­ert. Sátu eins og dæmd­ar í stól­um frá Stál­hús­gögn­um. Seinna var gerð bíó­mynd um mynd­mennta­kenn­ar­ann þar sem kom í ljós að hann var kannski ekki al­veg upp á tíu. En hver er svo sem upp á 10? Er ekki allt í lagi að vera bara 5,5 eða hvað?

Unsplash/​Etienne Assen­heimer
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda