Í janúar á þessu ári bárust þær gleðifréttir frá konungsfjölskyldunni í Bretlandi að Beatrice prinsessa og eiginmaður hennar, Edoardo Mapelli Mozzi, hefðu eignast dóttur. Það sem fylgdi hins vegar ekki sögunni var að stúlkan kom fyrr í heiminn en áætlað var og eftir fæðinguna tóku við nokkrar vikur af óvissu fyrir fjölskylduna.
Beatrice skrifaði um upplifunina í pistli fyrir breska tímaritið Vogue.
Rétt eftir að fjölskyldan tilkynnti heiminum um væntanlegan fjölskyldumeðlim fékk hún þær fréttir frá læknum að barnið gæti komið fyrr í heiminn en áætlað var. Við tók mikil óvissa að mati Beatrice.
Dóttir þeirra hjóna kom í heiminn fyrr en áætlað var þann 22. janúar. Hún fékk nafnið Athena Elizabeth Rose. Athena hefur það gott í dag en Beatrice segir áhyggjur hafa einkennt síðustu mánuði.
„Ég er meðvituð um hversu heppin ég er að hafa verið undir stöðugu eftirliti læknateymis. Athena fæddist nokkrum vikum fyrir settan dag. Hún var svo smá. Það tók nokkrar vikur að geta upplifað lífið á raunverulegan hátt með heilbrigða barninu okkar. Fætur hennar voru svo litlir, næstum því jafn stórir og loppurnar á bangsakanínum eldri dóttur okkar,“ skrifar hún meðal annars.
Hún segist vera með aðeins fleiri svör um hvað olli því hversu snemma stúlkan kom í heiminn en enga nákvæma skýringu.
„Þegar ég lít til baka yfir síðustu mánuði er ég ákveðin í því að það er hægt að gera meira fyrir foreldra í svipaðri stöðu og hjálpa þeim við að finna svör við spurningum um þá fylgikvilla sem geta leitt til fyrirburafæðingar.“