Kona í Þýskalandi hefur vakið mikla athygli um heim allan eftir að hafa eignast sitt tíunda barn, 66 ára að aldri og án þess að hafa gengist undir glasafrjóvgunarmeðferð.
Tíunda barn Alexöndru Hildebrandt, drengur sem hlaut nafnið Philipp, kom í heiminn með keisaraskurði á Charité-sjúkrahúsinu í Berlín þann 19. mars síðastliðinn.
Hildebrandt, sem er þekktur mannréttindafrömuður, ræddi við blaðamann Today aðeins einni viku eftir fæðinguna og sagði drenginn vera fullkomna viðbót í fjölskylduna, en systkini hans eru á aldursbilinu 2 til 46 ára.
„Stór fjölskylda er ekki aðeins dásamleg, heldur umfram allt mikilvæg til að ala börn upp á réttan hátt, heilt þorp þarf til að ala upp barn,” sagði hún.
Hildebrandt varð ófrísk með náttúrulegum hætti og sagði heilsusamlegt líferni hennar spila stóra rullu í því.
„Ég borða mjög hollt, syndi reglulega og geng í tvær klukkustundir.“
Blaðamaðurinn ræddi einnig við kvensjúkdómalækni Hildebrandt, Dr. Wolfgang Henrich, sem sagði að sjúklingur hans hefði gengið í gegnum „að mestu leyti eðlilega meðgöngu.“