Hin 14 ára Þorgerður Freyja Helgadóttir segir það aldrei hafa vafist fyrir sér að fermast í kirkju. Henni finnst mikilvægt að staðfesta trúna og iðkar hana m.a. með því að fara með bænirnar á hverju kvöldi. Undirbúningurinn fyrir fermingardaginn og veisluna hefur gengið vel og er tilhlökkunin mikil en verkefnin eru næg fram undan þar sem ömmur Þorgerðar, frænkur og móðir ætla að sjá um veitingar fyrir um hundrað gesti.
Það er smá stund milli stríða hjá Þorgerði Freyju Helgadóttur þegar undirrituð nær í hana, skólinn búinn þennan daginn og smá pása þar til hún fer á sundæfingu en hún æfir sund með Breiðabliki sjö daga vikunnar.
„Mér finnst mjög gaman að synda. Ég var í fimleikum þegar ég var lítil en mér finnst sundið miklu skemmtilegra, þar er meiri félagsskapur og svona.“
Þorgerður er 14 ára nemandi í Kársnesskóla í Kópavogi og auk þess að æfa sund lærir hún á píanó í Tónlistarskóla Kópavogs.
Nú styttist óðum í fermingardaginn hennar sem er 6. apríl, þótt veislan verði síðar í mánuðinum, eða þann 21.
„Frændi minn er akkúrat að fermast líka 6. apríl og verður með veisluna þá, svo að við ákváðum að færa veisluna mína til 21. apríl til að þær myndu ekki stangast á.“
Spurð hvernig skipulagið sé á dögunum tveimur svarar Þorgerður að fermingarmyndatakan fari fram á fermingardaginn sjálfan svo að 21. apríl þurfi ekkert annað en að hafa gaman með gestum sem mæti til veislunnar, sem verður haldin í Fóstbræðraheimilinu.
Fermingarfötin eru tilbúin inni í skáp en Þorgerður valdi sér hvítan kjól skreyttan blúndum og opinn í bakið og strigaskó í stíl.
„Svo ætla ég að fá systur mína til að mála mig því ég vil ekki vera með of mikinn farða.“
Hugmyndir að fermingargreiðslu fékk Þorgerður á samfélagsmiðlum og frá vinkonum sínum en hún er heppin að vinkona eldri systur hennar er hárgreiðslukona og ætlar að sjá um hárgreiðsluna fyrir báða dagana. Þorgerður hefur nú þegar nokkra mynd af hárgreiðslunni í huganum og lýsir henni sem tveimur föstum fléttum í efri helmingi hársins sem teknar verði saman að aftan og úr því gerð ein stór flétta. Restin af hárinu fær að leika laus niður í krullum.
„Mér finnst undirbúningurinn hafa verið mjög góður.“
Í veislunni verður rósagyllt og hvítt litaþema. Spurð um fjölda segir Þorgerður að þau búist við allt að hundrað manns í veisluna. Ömmur Þorgerðar, frænkur og móðir hennar sjá um veitingarnar, með kjúklingasúpu að hætti móður hennar og fleiri veitingum, kransa- og fermingarköku, sem þær sjá sjálfar um að baka. Það er því nóg fram undan hjá kvenpeningnum í fjölskyldunni.
Þorgerður lætur ekki einungis vel af undirbúningi veislunnar og fatavali heldur segir hún fermingarfræðsluna einnig hafa verið einkar skemmtilega.
„Fermingarfræðslan byrjaði í endann á sumrinu í fyrra, áður en skólinn byrjaði, og svo höfum við verið að mæta í nokkur skipti í vetur.“
Hvernig finnst þér fermingarfræðslan?
„Mér finnst fermingarfræðslan mjög skemmtileg og ég hef fengið að fræðast helling um Jesú og Guð og svoleiðis. Mér fannst ótrúlega gaman og fræðandi að fara í fermingarferð í Skálholt.“ Þar fengu Þorgerður og skólasystkini hennar að skoða þennan sögufræga stað Íslendinga þar sem Skálholtsdómkirkjan stendur tignarleg. Þar sem einnig gefur að líta legsteina ýmissa biskupa, fornleifasvæði og verslun sem er eftirmynd skálans á Keldum.
„Svo fórum við í leiki og svona.“
Þorgerður segir það aldri hafa verið vafamál að fermast í kristinni trú.
„Eldri systur mínar fermdust í kirkju og mig hefur alltaf langað til að fermast í kirkju. Ég fer með bænirnar á hverjum einasta degi.“ Þorgerður bætir því við að sér finnist það gegnumgangandi að börn í hennar árgangi fermist í kirkju. Þó eru alltaf einhver börn sem kjósa t.d. borgaralega fermingu eða hafa þegar verið fermd af menningarlegum ástæðum.
Hún er með ritningarversið á hreinu, enda ansi fallegt: „Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.“ (Sálm. 121.5)
Hver er draumafermingargjöfin?
„Hálsmen eða eitthvað svoleiðis, eða ferð til útlanda.“
Hvað er mikilvægast fyrir þig á fermingardaginn?
„Bara að hafa gaman og það að ég sé að staðfesta trúna.“