Harpa Guðrún Baldvinsdóttir, 14 ára nemandi í Víkurskóla, telur niður dagana þar til hún fermist. Hún valdi að fermast borgaralega hjá Siðmennt, sú eina í bekknum sínum, og er á fullu, eins og önnur fermingarbörn, að undirbúa stóra daginn ásamt foreldrum sínum, en fermingardagurinn hennar er 13. apríl næstkomandi og nálgast óðfluga.
Af hverju valdirðu borgaralega fermingu?
„Ég trúi ekki á guð en mig langar að fermast og upplifa þennan fallega dag eins og jafnaldrar mínir.“
Þú fórst á undirbúningsnámskeið hjá Siðmennt, hvernig var það og hvað lærðir þú?
„Undirbúningsnámskeiðið var mjög lærdómsríkt og skemmtilegt. Ég lærði um húmanisma, hvað það er að vera húmanisti. Við ræddum einnig mikið um tilfinningar og lærðum loforðin tíu sem eru tíu gildi húmanista og loforð um að leggja okkar af mörkum til þess að byggja upp gott og fallegt samfélag. Það skiptir mig mjög miklu máli.“
Hvað finnst þér það mikilvægasta við að fermast?
„Úff, ég er ekki alveg viss og get ekki gefið þér fullkomið svar. Það eru auðvitað margir sem kjósa að fermast bara fyrir gjafirnar en mig langar bara að upplifa þetta, það er eiginlega engin önnur ástæða, nema þá kannski að gleðjast með mínu allra besta fólki.“
Harpa Guðrún hefur lagt sig fram við undirbúninginn og fengið góða hjálp frá móður sinni og stórfjölskyldu.
„Ég og mamma byrjuðum að skipuleggja fermingarveisluna í nóvember, vorum snemma á ferðinni, en undirbúningsferlið hefur líka allt gengið mjög vel. Við ætlum að vera með heimagerðar veitingar, ég ætla að baka með mömmu og ömmu og mun einnig fá frænku mína, sem er lærður bakari, til að hjálpa okkur að töfra fram eitthvert gómsæti. Það verður gaman að skapa þessar minningar með þeim í eldhúsinu.“
Ertu með þema?
„Heyrðu já, þemað er Broadway. Ég er búin að vera í leiklist í átta ár, byrjaði hjá Sönglist og er í dag að læra hjá Dýnamík Sviðslistaskólanum. Ég elska að leika og syngja og vildi endilega tengja þetta mikla áhugamál mitt við fermingardaginn.
Það verður mikil stemning í salnum, gestir munu ganga niður rauða dregilinn eins og Hollywood-stjörnurnar og það verður bara einblínt á gleði og gaman.“
Ætlarðu að vera með atriði?
„Sko, í salnum er svið og ég ætla að halda stóra ræðu og segja frá sjálfri mér og vegferð minni í lífinu. Við ætlum einnig vera með Kahoot-spurningaleik þar sem gestir keppast við að svara spurningum um mig, það verður gaman að sjá hversu vel gestirnir þekkja mig.“
Hvaða væntingar hefurðu til dagsins?
„Ég vil bara eiga eftirminnilegan dag með mínum nánustu, bara fjör.“
Harpa Guðrún valdi sér fallegan litríkan kjól sem lýsir karakter hennar vel, enda glaðlynd og björt ung stúlka.
Geturðu sagt mér aðeins frá kjólnum?
„Ég er búin að finna kjólinn en á að vísu eftir að fara í búðina með mömmu og kaupa hann. Ég valdi mér litríkan kjól sem fæst í Flash í Skeifunni. Kjóllinn er þægilegur, einfaldur og fallegur.“
Er kjóllinn innblásinn af Broadway-sýningu?
„Nei, ég get nú ekki sagt það.“
Ertu búin að ákveða fermingarhárgreiðslu?
„Frænka mín er hárgreiðslukona og hún ætlar að hjálpa mér með hárið á fermingardaginn. Ég ætla að fá krullur í endana og blóm.“
Ætlarðu að klæðast hælaskóm eða strigaskóm?
„Sko, mig langar ótrúlega mikið að klæðast flottum hælaskóm en ég hugsa að foreldrar mínir vilji að ég verði bara í strigaskóm.“
Harpa Guðrún elskar að ferðast og vonast til þess að fá utanlandsferðir í fermingargjöf.
„Ég fékk snemmbúna fermingargjöf, ég og mamma fórum í mæðgnaferð til Edinborgar sem var rosalega skemmtileg. Það væri algjör draumur að fá aðra ferð út.“
Hvað er á óskalistanum?
„Ég vil fá upplifunargjafir. Mig langar að fá skautaferð, utanlandsferðir, spjaldtölvu og peninga. Ég vil fá gjafir sem skapa minningar.“