Leikkonan, söngkonan og samfélagsmiðlaráðgjafinn Unnur Eggertsdóttir og sambýlismaður hennar, tónlistarmaðurinn Travis Raab, eignuðust sitt annað barn, dóttur, saman þann 21. mars síðastliðinn.
Unnur opnaði sig um fæðinguna í einlægri færslu á Instagram-síðu sinni nú á dögunum.
„Travis er ekki á samfélagsmiðlum til að segja frá því að ég var dugleg stelpa í fæðingunni svo ég neyðist til að gera það sjálf.
Þar sem Emma mín var sitjandi enduðum við í keisara fyrir 3 árum og ég upplifði mikil vonbrigði að þurfa að fara í aðgerð og fannst bataferlið glatað. Ég vissi að það væru auðvitað einhverjar líkur á að það gæti endað aftur þannig í þetta sinn en með pepp frá dásamlegu ljósu minni og öllum instagram-mömmuvinkonum mínum (sumar hef ég aldrei hitt í persónu en ég myndi deyja fyrir ykkur) var ég mjög bjartsýn á allt.
Allavega. Vegna háþrýstings var ég bókuð í gangsetningu á föstudagsmorgni. Ekki alveg eftir plani en samt bjartsýn. En svo á fimmtudeginum í hádeginu byrja ég að fá væga samdrætti sem urðu svo harðari seinni partinn. Um kvöldið urðu samdrættirnir töluvert harðari, svona þurfti að anda vel í gegnum þá og T að nudda bakið fast á meðan.
Kl. 23 voru 4-5 mín milli samdrátta svo við fórum upp á spítala (4 samdrættir í bílnum á leið úr HFJ, ég hélt ég myndi deyja).
Ég var til allrar hamingju komin með 5 í útvíkkun svo við fórum beint inn á fæðingarstofu þar sem mér var kennt á glaðloftið og hooooly moly hvað það var næs. Ég var komin með marbletti á bakið því ég var búin að láta T nudda svo sjúklega fast í gegnum samdrættina svo það var gott að leyfa glaðloftinu að taka aðeins við.
Birta ljósmóðir sem ber nafn sitt svo sannarlega með rentu hélt vel utan um okkur og ég fór í baðið kl. 2 og leið vel þar. Fljótlega var útvíkkun komin í 8 og svo kom þessi svakalega rembingsþörf (hversu helluð tilfinning).
Mér leið eins og ég væri eitthvað dýr bara og þá var ég allt í einu komin með 10 í útvíkkun og mátti loksins rembast. Birta stakk upp á ýmsum stellingum til að prófa í baðinu og benti mér á að finna fyrir kollinum. Hálftíma seinna, kl. 3:01, skaust skvísan svo út öll í einum rykk. Eitt magnaðasta og tilfinningaþrungnasta augnablik lífs míns.
Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa þetta (versta í þessu var saumavesenið (2 stigs, ekki gaman, auka aðgerð),” skrifaði Unnur við færsluna.