Hrafnkatla gerir við og selur vintage-barnaföt í lítilli verslun sem hún kallar Pons Vintage.
Hún segir þetta hafa hafist sem ástríðuverkefni en nú er ætlunin að þróa það áfram.
Hrafnkatla Unnarsdóttir hefur gríðarlegan áhuga á tísku og listum en telur hann hafa upphaflega sprottið út frá óöryggi. Hrafnkatla ólst upp á Akureyri en býr núna í Reykjavík með tveggja og hálfs árs syni sínum. 19 ára gömul flutti hún frá Akureyri og hóf fatatækninám við Tækniskólann en færði sig síðan yfir í Listaháskólann í fatahönnun. Hún kláraði hálft námið áður en lífið tók sína eigin stefnu og hún átti von á barni.
„Mér tókst þó sem betur fer að samtengja lífið og áhugamálin,“ segir hún.
Hrafnkatla er stofnandi Pons Vintage, en það er lítil barnafataverslun sem selur notuð barnaföt. Hún safnar, gerir við og selur fötin og ætlar sér að þróa verkefnið áfram á næstunni. Versluninni hefur verið vel tekið.
En hvaðan kemur tískuáhuginn?
„Upphaflega held ég að hann hafi fæðst út frá óöryggi. En með árunum hefur tíska orðið að mínu stærsta sjálfsöryggi. Það er kaldhæðnislegt, en allt er gott sem endar vel,“ segir Hrafnkatla.
Hún segist vera lítil merkjavörukona en hefur alltaf hrifist af einfaldleika og pönkinu hjá hollenska fatahönnuðinum Ann Demeulemeester. Hún fellur fyrst og fremst fyrir fallegum efnum þegar kemur að fatavali.
„Ef sniðin eru ekki eftir mínum smekk sauma ég bara eitthvað annað fallegt upp úr þeim. Svo eru góð leðurstígvél ómótstæðileg.“
Hver eru bestu fatakaupin?
„Brún, síð ullarkápa í yfirstærð úr Hertex. Hún er falleg, vönduð og „chic“ yfir allt. Þetta voru auðveldustu 800 krónur sem ég hef eytt.“
En þau verstu?
„Bleikur Penny Lane-jakki sem ég keypti í tilvistarkreppu fyrir nokkrum árum og fór ekki einu sinni í. Ég fór með hann í fatagám um daginn og óska jakkanum alls hins besta í framhaldinu.“
Hrafnkatla segir meðgönguna og barneignir hafa haft mikil áhrif á fatastílinn fyrst um sinn.
„Fyrstu mánuðina eftir að ég eignaðist strákinn minn var ég gjörsamlega týnd varðandi fatastílinn minn og var eðlilega í kósígallanum mestallt orlofið. En svo einhvern veginn kom stíllinn hægt og rólega til baka. Það fylgdi móðurhlutverkinu einhver þroski, ró og sjálfsöryggi sem mér finnst hafa bætt stílinn minn margfalt.“
Hvað er á óskalistanum núna?
„Boxing-boots! Helst notuð, helst brún og helst úr rúskinni.“
Hver er þín tískufyrirmynd?
„Allar fallegu konurnar í kringum mig. En svo er ég alltaf svolítið skotin í Sharon Tate.“
Hvað er Pons Vintage?
„Ég hafði mikið verið að braska í vintage-fötum fyrir strákinn minn mér til skemmtunar og fann heldur óvænt ástríðuverkefni í því. Ég ákvað svo, þegar ég varð einstæð, að láta vaða í þetta verkefni eftir hvatningu frá vinkonum mínum. Ég byrjaði að dunda mér við að safna fallegum fötum yfir sumarið og gera við það sem þurfti. Ég setti svo upp markaði fyrir jólin og fékk svo góðar viðtökur að ég á fullt í fangi við að safna í nýjan lager. Svo er margt annað spennandi á leiðinni sem ég mæli með að fylgjast með,“ svarar Hrafnkatla.
Fannst þér vanta ákveðna tegund barnafata hingað til lands?
„Mér fannst klárlega vanta greiðari aðgang að fallegum vintage-barnafötum hérlendis og almennt meiri litagleði, endurnýtingu, nostalgíu og fjör.“
Hugsarðu mikið út í klæðaburð barnsins þíns?
„Það er mikið áhugamál hjá mér að klæða hann í skemmtileg föt og þá sérstaklega um helgar eða fyrir stærri tilefni. En við tökum okkur ekkert sérstaklega hátíðlega í daglegu lífi og þægindi vega alltaf þyngra en töffaraskapur þegar maður er í leikskóla.“
Hvað finnst þér mikilvægt að eiga í fataskáp barnsins?
„Fyrir utan þetta allra helsta finnst mér fallegar prjónapeysur staðalbúnaður fyrir börn á Íslandi.“
Hún segir son sinn þó alltaf vera spenntan fyrir Spiderman-bolnum.
„Það er auðveldara að klæða hann í þann bol en flesta aðra boli. Það er þó heppilega meira sport hjá honum að velja sér sjálfur náttföt á kvöldin. Hann mun þó að sjálfsögðu fá fullt frelsi til að velja sér sín föt og tjá sig á þann hátt þegar að því kemur. Ég hlakka helst til að fá að fylgjast með.“