Davíð Goði, ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður, nýtur þess að gera allt sem honum langar til. Ef hann kann ekki eitthvað lærir hann það á YouTube.
Davíð Goði er 24 ára ljósmyndari, kvikmyndagerðarmaður og starfar á samfélagsmiðlum sem efnisskapari (e. content creator). Ásamt því að skapa efni ferðast hann um Ísland og önnur lönd og sýnir frá ferðalögum sínum. Hann rekur framleiðslufyrirtækið Skjáskot sem sérhæfir sig í stafrænni framleiðslu fyrir sjónvarp, streymisveitur og samfélagsmiðla. Hann ver miklum tíma í framleiðslu á sjónvarpsþáttum og verkefnum tengdum fyrirtækinu sínu en í frítímanum er hann á snjóbretti eða að slaka á.
„Ég hef alltaf haft aðra höndina á myndavélinni og elskað að segja sögur. Því meira sem maður gerði að gamni sínu því meira jókst áhuginn þangað til á endanum vildi einhver borga fyrir það, og áður en ég vissi af gat ég farið að lifa á því.“
Davíð er á því að Ísland sé magnað land og að margir gleymi hversu margar náttúruperlur, eða gullmola eins og hann kallar falleg svæði, má finna steinsnar frá Reykjavík.
„Stundum þarf ekki að ferðast nema klukkutíma til að finna eitthvað spennandi. Suðurlandið inniheldur marga þekkta staði eins og Seljalandsfoss og Reynisfjöru en líka minna þekkta staði eins og Kvernufoss eða Gljúfrabúa.“
Davíð er alltaf einstaklega fallega til fara og hugsar vel um sig.
„Fatastíllinn minn í dag er frekar einfaldur eða mínimalískur og er ég að vinna með frekar klassískt útlit. Víðar ljósar gallabuxur og hvítir og kremlitaðir jakkar sem og stórir bolir eru svona mitt uppáhald þessa dagana því það virkar bæði viðeigandi hversdags en einnig snyrtilegt ef maður velur réttu samsetningarnar. Útivistarfatnað nota ég mikið og er Drangi-úlpan mín frá Zo-On algjört uppáhald.“
Á húðina notar hann nokkrar mismunandi vörur.
„Þessa dagana er ég duglegur að nota hina heilögu þrennu frá CeraVe; dagkremið með SPF-vörn, augnkremið og næturkrem á kvöldin. Mikilvægast er auðvitað að þrífa húðina áður en kremið er borið á.“
Davíð segist upplifa að karlar séu farnir að vera opnari með tilfinningar sínar en áður.
„Ég held að margir karlmenn af minni kynslóð geti tekið undir að tilfinningar og andleg heilsa hefur aldrei verið jafn eðlilegt samtal og það er í dag. Við tölum um það eins og líkamlega heilsu. Setningar á borð við: „Ég var að taka 80 kg í bekk og á sama tíma var ég að vinna úr áfalli í lífi mínu“ finnst mér falleg þróun og algjörlega nauðsynleg fyrir þá sem á eftir okkur koma.“
Hvað er í tísku þegar kemur að fallegum ljósmyndum og hvaða ráð áttu fyrir aðra karlmenn um hvernig best er að vekja á sér athygli á samfélagsmiðlum?
„Trendin eru stöðugt að breytast og nánast ómögulegt að fylgja þeim. Mér finnst ég sjá mikið af mínimalískum myndum og abstrakt myndum í tísku, ferðamyndir með fókus á persónur en ekki tómar landslagsmyndir eru einnig vinsælar. En kannski er þetta ekki einu leiðirnar, því ég held að ef maður setur vinnu í sínar myndir og vinnur af ástríðu muni það alltaf skína í gegn. Ef þú trúir ekki sjálfur á þína vinnu, hver gerir það þá?“
Hvaða tækifæri sérðu fyrir Íslendinga í kvikmyndatökum og hverjir eru þínir framtíðardraumar?
„Ég held að það hafi aldrei verið jafn auðvelt að starfa við kvikmyndagerð eins og það er í dag. Með endalausu streymi af efni á TikTok og YouTube er hægt að læra nánast hvað sem er á mettíma. Ég sé tækifærin aukast og sömuleiðis mína drauma koma nær, en þeir eru að geta unnið við efnissköpun (e. content creation) sem er alltaf að verða raunverulegri möguleiki.“
Hvernig nýtir þú tímann þinn eftir vinnu?
„Þegar ég hef einhvern frítíma reyni ég alltaf að nýta hann í þrennt; líkamlega heilsu, eitthvað sem ég hef ástríðu fyrir eða slökun. Mér finnst fátt betra en að taka einhvers konar æfingu, hvort sem það eru lyftingar, crossfit eða jaðarsport, og enda hana á góðri hollri máltíð. Til að liðka heilann finnst mér gaman að dunda mér við tónlist, annaðhvort að spila eða semja, og svo er auðvitað hvíldin mikilvæg líka. Stundum er líka bara gott að láta sér leiðast.“
Hefurðu alltaf haft áhuga á kvikmyndum og hvaða kvikmynd breytti lífi þínu?
„Ég hef alltaf haft áhuga á kvikmyndum og þeim eiginleika þeirra að segja sögu og kalla fram tilfinningu áhorfenda. Þetta eru hlutir sem ég mun stöðugt eltast við að skapa sjálfur.
Það eru svo margar bíómyndir sem hafa haft áhrif á mig, bæði góð og slæm. Ég sá Alien alltof ungur og held að hún hafi valdið einhverri andúð gagnvart hryllingsmyndum.“
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
„Ég elska góðan fisk, lax eða bleikju. Svo er nautalund líka í miklu uppáhaldi.“
Davíð er mikið fyrir að ferðast og skiptir reglulega um skoðun á því hvert hann myndi fara í draumaferðalagið.
„Draumaferðalagið mitt breytist eiginlega daglega en þessa dagana eru staðir eins og Amalfi-strandlengjan á Ítalíu virkilega spennandi. Svo dreymir mig einnig reglulega um Asíureisu.“
Hvert er uppáhaldstískumerkið þitt?
„Ég elska það sem Balenciaga er að gera í dag. Peysur og skyrtur frá þeim eru virkilega flottar.“
Eltirðu heitar laugar um landið og hvert er þá skemmtilegast að fara?
„Ég er í hinni eilífu leit að bestu heitu lauginni á Íslandi og hef prófað margar. Þær bestu eru oft faldar inni í dölum þar sem þarf að ganga í einhvern tíma og birtast svo eins og verðlaun fyrir erfiðið. En þær bestu eru þær sem fáir vita um og eru bara vistaðar í Google Maps hjá mér.“
Áttu þér uppáhaldssnjallforrit?
„Uppáhaldsappið mitt þessa dagana er eins og hjá mörgum TikTok. Algóritminn er orðinn svo nákvæmur að finna það sem ég hef áhuga á að efnið sem ég neyti er fullkomlega sniðið að mér. Ég veit ekki hvort það er gott eða slæmt.“