Það getur verið gott að láta sér leiðast

Davíð Goði er ævintýramaður sem vill lifa lífinu lifandi.
Davíð Goði er ævintýramaður sem vill lifa lífinu lifandi.

Davíð Goði, ljós­mynd­ari og kvik­mynda­gerðarmaður, nýt­ur þess að gera allt sem hon­um lang­ar til. Ef hann kann ekki eitt­hvað lær­ir hann það á YouTu­be. 

Davíð Goði er 24 ára ljós­mynd­ari, kvik­mynda­gerðarmaður og starfar á sam­fé­lags­miðlum sem efn­is­skap­ari (e. content creator). Ásamt því að skapa efni ferðast hann um Ísland og önn­ur lönd og sýn­ir frá ferðalög­um sín­um. Hann rek­ur fram­leiðslu­fyr­ir­tækið Skjá­skot sem sér­hæf­ir sig í sta­f­rænni fram­leiðslu fyr­ir sjón­varp, streym­isveit­ur og sam­fé­lags­miðla. Hann ver mikl­um tíma í fram­leiðslu á sjón­varpsþátt­um og verk­efn­um tengd­um fyr­ir­tæk­inu sínu en í frí­tím­an­um er hann á snjó­bretti eða að slaka á.

„Ég hef alltaf haft aðra hönd­ina á mynda­vél­inni og elskað að segja sög­ur. Því meira sem maður gerði að gamni sínu því meira jókst áhug­inn þangað til á end­an­um vildi ein­hver borga fyr­ir það, og áður en ég vissi af gat ég farið að lifa á því.“

Davíð er á því að Ísland sé magnað land og að marg­ir gleymi hversu marg­ar nátt­úruperl­ur, eða gull­mola eins og hann kall­ar fal­leg svæði, má finna steinsnar frá Reykja­vík.

„Stund­um þarf ekki að ferðast nema klukku­tíma til að finna eitt­hvað spenn­andi. Suður­landið inni­held­ur marga þekkta staði eins og Selja­lands­foss og Reyn­is­fjöru en líka minna þekkta staði eins og Kvernu­foss eða Gljúfra­búa.“

Davíð er alltaf ein­stak­lega fal­lega til fara og hugs­ar vel um sig.

„Fata­stíll­inn minn í dag er frek­ar ein­fald­ur eða míni­malísk­ur og er ég að vinna með frek­ar klass­ískt út­lit. Víðar ljós­ar galla­bux­ur og hvít­ir og kremlitaðir jakk­ar sem og stór­ir bol­ir eru svona mitt upp­á­hald þessa dag­ana því það virk­ar bæði viðeig­andi hvers­dags en einnig snyrti­legt ef maður vel­ur réttu sam­setn­ing­arn­ar. Útivistarfatnað nota ég mikið og er Drangi-úlp­an mín frá Zo-On al­gjört upp­á­hald.“

Á húðina not­ar hann nokkr­ar mis­mun­andi vör­ur.

„Þessa dag­ana er ég dug­leg­ur að nota hina heil­ögu þrennu frá Cera­Ve; dag­kremið með SPF-vörn, augnkremið og næt­ur­krem á kvöld­in. Mik­il­væg­ast er auðvitað að þrífa húðina áður en kremið er borið á.“

Nauðsyn­legt að vinna úr mál­un­um

Davíð seg­ist upp­lifa að karl­ar séu farn­ir að vera opn­ari með til­finn­ing­ar sín­ar en áður.

„Ég held að marg­ir karl­menn af minni kyn­slóð geti tekið und­ir að til­finn­ing­ar og and­leg heilsa hef­ur aldrei verið jafn eðli­legt sam­tal og það er í dag. Við töl­um um það eins og lík­am­lega heilsu. Setn­ing­ar á borð við: „Ég var að taka 80 kg í bekk og á sama tíma var ég að vinna úr áfalli í lífi mínu“ finnst mér fal­leg þróun og al­gjör­lega nauðsyn­leg fyr­ir þá sem á eft­ir okk­ur koma.“

Hvað er í tísku þegar kem­ur að fal­leg­um ljós­mynd­um og hvaða ráð áttu fyr­ir aðra karl­menn um hvernig best er að vekja á sér at­hygli á sam­fé­lags­miðlum?

„Trend­in eru stöðugt að breyt­ast og nán­ast ómögu­legt að fylgja þeim. Mér finnst ég sjá mikið af míni­malísk­um mynd­um og abstrakt mynd­um í tísku, ferðamynd­ir með fókus á per­són­ur en ekki tóm­ar lands­lags­mynd­ir eru einnig vin­sæl­ar. En kannski er þetta ekki einu leiðirn­ar, því ég held að ef maður set­ur vinnu í sín­ar mynd­ir og vinn­ur af ástríðu muni það alltaf skína í gegn. Ef þú trú­ir ekki sjálf­ur á þína vinnu, hver ger­ir það þá?“

Hvaða tæki­færi sérðu fyr­ir Íslend­inga í kvik­mynda­tök­um og hverj­ir eru þínir framtíðardraum­ar?

„Ég held að það hafi aldrei verið jafn auðvelt að starfa við kvik­mynda­gerð eins og það er í dag. Með enda­lausu streymi af efni á TikT­ok og YouTu­be er hægt að læra nán­ast hvað sem er á mettíma. Ég sé tæki­fær­in aukast og sömu­leiðis mína drauma koma nær, en þeir eru að geta unnið við efn­is­sköp­un (e. content creati­on) sem er alltaf að verða raun­veru­legri mögu­leiki.“

Hvernig nýt­ir þú tím­ann þinn eft­ir vinnu?

„Þegar ég hef ein­hvern frí­tíma reyni ég alltaf að nýta hann í þrennt; lík­am­lega heilsu, eitt­hvað sem ég hef ástríðu fyr­ir eða slök­un. Mér finnst fátt betra en að taka ein­hvers kon­ar æf­ingu, hvort sem það eru lyft­ing­ar, cross­fit eða jaðarsport, og enda hana á góðri hollri máltíð. Til að liðka heil­ann finnst mér gam­an að dunda mér við tónlist, annaðhvort að spila eða semja, og svo er auðvitað hvíld­in mik­il­væg líka. Stund­um er líka bara gott að láta sér leiðast.“

Hef­urðu alltaf haft áhuga á kvik­mynd­um og hvaða kvik­mynd breytti lífi þínu?

„Ég hef alltaf haft áhuga á kvik­mynd­um og þeim eig­in­leika þeirra að segja sögu og kalla fram til­finn­ingu áhorf­enda. Þetta eru hlut­ir sem ég mun stöðugt elt­ast við að skapa sjálf­ur.

Það eru svo marg­ar bíó­mynd­ir sem hafa haft áhrif á mig, bæði góð og slæm. Ég sá Alien alltof ung­ur og held að hún hafi valdið ein­hverri andúð gagn­vart hryll­ings­mynd­um.“

Hver er upp­á­halds­mat­ur­inn þinn?

„Ég elska góðan fisk, lax eða bleikju. Svo er nauta­lund líka í miklu upp­á­haldi.“

Davíð er mikið fyr­ir að ferðast og skipt­ir reglu­lega um skoðun á því hvert hann myndi fara í drauma­ferðalagið.

„Drauma­ferðalagið mitt breyt­ist eig­in­lega dag­lega en þessa dag­ana eru staðir eins og Am­al­fi-strand­lengj­an á Ítal­íu virki­lega spenn­andi. Svo dreym­ir mig einnig reglu­lega um Así­ureisu.“

Hin ei­lífa leit að bestu heitu laug­inni

Hvert er upp­á­hald­stísku­merkið þitt?

„Ég elska það sem Balenciaga er að gera í dag. Peys­ur og skyrt­ur frá þeim eru virki­lega flott­ar.“

Elt­irðu heit­ar laug­ar um landið og hvert er þá skemmti­leg­ast að fara?

„Ég er í hinni ei­lífu leit að bestu heitu laug­inni á Íslandi og hef prófað marg­ar. Þær bestu eru oft fald­ar inni í döl­um þar sem þarf að ganga í ein­hvern tíma og birt­ast svo eins og verðlaun fyr­ir erfiðið. En þær bestu eru þær sem fáir vita um og eru bara vistaðar í Google Maps hjá mér.“

Áttu þér upp­á­halds­snjall­for­rit?

„Upp­á­haldsappið mitt þessa dag­ana er eins og hjá mörg­um TikT­ok. Al­gór­it­minn er orðinn svo ná­kvæm­ur að finna það sem ég hef áhuga á að efnið sem ég neyti er full­kom­lega sniðið að mér. Ég veit ekki hvort það er gott eða slæmt.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda