Metnaðarlausar saumaklúbbskerlingar

Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona.
Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona.

„Í október 2022 gerðist sá fáheyrði atburður að hópur karlmanna í alveg eins fötum, bara mismunandi á litinn, hittist til að henda á milli sín bolta. Það sem var enn merkilegra við þennan atburð var að þeir skiptu sér í 2 lið og annað liðið vann og hitt tapaði. Eitthvað sem virðist aldrei hafa gerst í alheimssögunni því að viðbrögð þjálfara liðsins sem tapaði urðu ansi ofsafengin,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona í sínum nýjasta pistli: 

Eina skýringin sem hann hafði var að þetta væri augljóslega ekki hans lið heldur hefðu einhverjar kerlingar tekið yfir liðið á lævísan hátt. Þetta voru samt ekki engar random kerlingar sem voru þarna að verki heldur saumaklúbbskerlingar sem er að það versta sem hægt er að hugsa sér. Saumaklúbbbskerlingar eins og allir vita leggja sig aldrei fram af öllu sínu hjarta og það fer alveg ótrúlega mikið í taugarnar á þjálfaranum. 

Ég held reyndar að þetta hafi verið einhver misskilningur hjá þjálfaranum að þetta hafi verið kerlingar sem viltu á sér heimildir og reyndu að að troða sér í karladeild á fölskum forsendum. Ég held að þeir hafi bara verið svangir og þurft að fá Snickers

Sérfræðingur í boltaíþróttum

Ég er ekki mikil áhugamanneskja um boltaíþróttir en ég veit eitt og annað og yfirleitt nógu mikið til að geta spjallað yfirborðskennt um þær ef líf mitt liggur við. Ég á líka nokkra ása upp í erminni. Á HM 1995 í handbolta var ég fararstjóri fyrir spænska landsliðið og innsti koppur í búri, vissi t.d. öll herbergisnúmerin hjá liðinu. Ég sá Maradonna spila í Napoli og átti stórleik í Bandaríkjunum þegar ég var að spjalla við breskan mann sem sagðist vera frá Nottingham og ég spurði á móti hvort að hann héldi ekki örugglega með Nottingham Forest.

Þurfa allir að vera afreksíþróttamenn ?

Ég hef aldrei verið góð í íþróttum og í grunnskóla var ég aldrei valin í lið. Ég endaði meira svona ein af þeim sem voru eftir og þurfti að hafa í liðinu. Mér var líka alveg sama. Metnaður minn lá ekki þarna. Ég átti til dæmis 70 pennavini allsstaðar að úr heiminum og safnaði frímerkjum. Það eru ekki nema fimm ár síðan ég byrjaði minn íþróttaferil og á þessum stutta tíma hef ég afrekað meira en mig dreymdi um væri mögulegt þegar ég byrjaði. Það var mín lukka að ég var umkringd fólki sem hvatti mig áfram.

Engum datt í hug að segja mér hversu ömurleg ég væri og það færi í taugarnar á þeim hvað ég væri léleg. Ég var ekki einu sinni kölluð saumaklúbbskerling og samt er ég í einum. Ég hef tekið þátt í fullt af mótum. Einu sinni keppti ég á Þorláksmessusundmóti Breiðabliks. Þetta voru 1.500 m með frjálsri aðferð, held samt að flestir hafi synt skriðsund. Ég var langsíðust og var 49,31 mín að klára 1.500 m og fékk verðlaun fyrir að nýta brautargjaldið best af öllum.

Siggi vinur minn í Greenfit vann mótið á 17,21 mínútu. Þrátt fyrir að ég hafi verið langlélegust var enginn sem sagði við mig að ég ætti ekki að fara aftur að synda. Þetta væri til skammar að horfa upp á mig vera svona lengi. Siggi hvatti mig áfram. Samt er Siggi íþróttamaður á heimsmælikvarða og gerði sér lítið fyrir og vann heilan Ironman í Barcelona. Hann er fyrsti íslendingurinn sem vinnur heilan Ironman þannig að þegar ég hugsa þetta betur þá er ég náttúrulega megatöffari að hafa keppt við Sigga í sundi þó að ég hafi verið ogguponsulítið lengur en hann að klára. Í raun munaði ekki nema rétt rúmum 30 mínútum á okkur sem er t.d. lítið ef þetta hefði verið maraþon.

Þríþrautafélagið Saumaklúbburinn

Það þurfa ekkert allir að vera afreksíþróttafólk en það eiga allir að geta tekið eins mikið pláss og þeir vilja á sínum forsendum. Það vilja ekkert allir vinna mót. Sumir vilja bara njóta þess að vera í ferðalaginu og æfa í góðra vina hópi. Þegar fólk er eins og ég, skítsæmilegt í mörgu en ekki gott í neinu er stundum erfitt að passa í ákveðinn hóp. Við tókum okkur því saman 4 vinkonur í vikunni og stofnuðum okkar eigins Þríþrautafélag. Það kom bara eitt nafn til greina.

Saumaklúbburinn þar sem okkar markmið er ekki að leggja okkur allar fram. Alls ekki að fórna okkur í boltann eða reyna að ná í íþróttameiðsl heldur að hafa gífurlega gaman af, njóta þess að hreyfa okkur, stundum saman og stundum í sundur og fara svo saman sem liðsheild í hálfan járnkarl á næsta ári. Við eigum eftir að finna okkur sundkennara og eins búning,  að öðru leiti erum við klárar. Einn af kostunum að vera bara með 5 ára íþróttalíkama er að hann er alveg óskaddaður og ég á ekki við nein gömul íþróttameiðsl að stríða. Saumaklúbburinn ætlar að taka eins mikið pláss og við viljum og okkur er hreinlega alveg skítsama í hvaða sæti við lendum. Við byrjum formlega í næstu viku og það er opið fyrir umsóknir.  

Hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður?

„Hvað er svona merkilegt við það, að vera karlmaður?

Hvað er svona merkilegt við það, að bor’ í vegg?

Hvað er svona merkilegt við það, að bera áburðarpoka?

Hvað er svona merkilegt við það, að tak’ úr vél?“

Hvers vegna birta fjölmiðlar svona fréttir og fyrirsagnir? Hvers vegna gekk enginn á þjálfarann og spurði hann hreinlega, „hvað meinar þú með saumaklúbbskerlingar? hvað eru saumaklúbbskerlingar í þínum huga og þekkir þú einhverjar kerlingar í saumaklúbb og finnst þér þær passa við þessa lýsingu“?

Núna segja margir, æi Ásdís vertu ekki með þessa viðkvæmni. Veistu, þetta er ekki viðkvæmni. Ég er bara svo hissa að við séum ekki komin lengra í orðræðunni en að stöðugt líkja karlmönnum sem tapa í íþróttum við konur. Er viðmiðið í alvörunni það að konur geta ekki verið bestar? Eru þær samnefnari þess að vera lélegur og undir lágmarkinu. Ætli það séu til einhverjir karlmenn sem hafa einhvern tímann verið lélegri en einhverjar konur? Það væri gaman að vita hversu margir karlmenn geta unnið Mari Järsk í hlaupi.

Hún vann Bakgarðinn síðastliðið vor þegar hún hljóp 288 km á 43 klukkutímum eða Halldóru Gyðu vinkonu mína sem gekk þrjár 90 KM Vasaskíðagöngur á einni viku. Halldóra hleypur reglulega bæði maraþon sem og Ultramaraþon. Hún hljóp síðast UTMB Ultramaraþonið sem voru 170 km á 45 klukkutímum. UTMB er hringurinn í kringum Mont Blanc og hækkunin var 10.000 metrar eða eins og 15 ESJUR. Hún hefur líka synt yfir Ermasundið í boðsundi og þverað Vatnajökul á gönguskíðum. Hún er Ambassador fyrir „Free to Run“. Hún er búin að hlaupa svo mörg maraþon að hún er búin að missa töluna á þeim. Halldóra Gyða er einnig stoltur meðlimur 3ja saumaklúbba. Ég velti því fyrir mér hversu margir boltastrákar í fyrstu deild hafi jafnmikið úthald og hún. Hversu margir af þeim geta hlaupið 170 km í einu? Eða er það í alvörunni viðmiðið að vera ofur að geta kastað á milli sín bolta í 60 mínútur með því að fá góða pásu á milli og skipta reglulega við aðra leikmenn til að fá hvíld í leiknum. Kannski er kominn tími á að endurskoða okkar hugmyndir um íþróttahetjur og kannski er það bara málið að hlaupa eins og kona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda