Rúnar tók þátt í nýrri raunveruleikaþáttaröð á Netflix

Listamaðurinn Rúnar Bjarnason er 22 ára gamall og búsettur í …
Listamaðurinn Rúnar Bjarnason er 22 ára gamall og búsettur í Lundúnum í Englandi. Hann tók nýverið þátt í spennandi verkefni fyrir Netflix. Ljósmynd/Cat Couture/Amoroso Films

Listamaðurinn Rúnar Bjarnason var aðeins þriggja ára gamall þegar hann byrjaði að dansa. Síðan þá hefur hann tekið þátt í mörgum spennandi dansverkefnum, en nú nýlega fékk hann tækifæri til að taka þátt í nýrri raunveruleikaþáttaröð, Dance 100, á streymisveitunni Netflix. 

Í þáttunum keppast átta danshöfundar um að búa til besta atriðið, en þeir skipta á milli sín 100 dönsurum sem dansa og dæma svo atriðin. Rúnar er í hópi dansaranna sem sjá svo um að dæma atriðin, en það eru dansararnir sem ráða því hvaða danshöfundar halda áfram og hver dettur út. 

Blaðamaður mbl.is sló á þráðinn hjá Rúnari og fékk að forvitnast um þættina. 

Rúnar er búsettur í Lundúnum í Bretlandi um þessar mundir.
Rúnar er búsettur í Lundúnum í Bretlandi um þessar mundir. Ljósmynd/Cat Couture/Amoroso Films

Með fjölbreytta reynslu

Spurður hvernig hann hafi fengið verkefnið segist Rúnar hafa farið í prufur fyrir þættina. Hann fékk svo skemmtilegt símtal frá Netflix þar sem honum var tilkynnt að hann hafi verið valinn í hóp 100 dansara hvaðanæva að úr heiminum. 

Rúnar hefur fjölbreytta reynslu úr dansheiminum, en hann hóf dansferil sinn í samkvæmisdansi hjá Dansskóla Sigurðar Hákonarsonar og var þar í yfir 10 ár. „Samkvæmisdansinn hefur hjálpað mér mikið í gegnum tíðina þar sem mörg verkefni krefjast þess að maður sé sterkur í að dansa með öðrum,“ segir Rúnar. 

„Þaðan fór ég í Tiffany Theatre Collage í Lundúnum þar sem ég stundaði nám í sviðslistum og lærði þar leiklist, söng og allar tegundir af dans. Ég færði mig svo yfir á aðra braut þar sem fókusinn var á verkefni sem tengjast sjónvarpi, dansi og auglýsingum,“ bætir hann við. 

Í gegnum árin hefur Rúnar tekið þátt í mörgum spennandi …
Í gegnum árin hefur Rúnar tekið þátt í mörgum spennandi verkefnum og dansaði meðal annars á sviðinu með söngkonunni Katy Perry á Brits-tónlistarverðlaununum árið 2017. Ljósmynd/Cat Couture/Amoroso Films

Tólf tíma æfingar og tökur á hverjum degi

Eftir útskrift skall heimsfaraldurinn á og Rúnar ákvað að flytja aftur heim. „Ég hóf nám við Kvikmyndaskóla Íslands og var þar í eitt ár áður en Netflix hringdi í mig vegna Dance 100. Síðan þá hef ég verið mikið fram og til baka á Íslandi og í Lundúnum og hef verið að vinna í því að koma mér á framfæri,“ segir hann. 

Þótt Rúnar hafi verið að dansa nánast alla ævi segir hann þættina án efa með stærstu verkefnum sem hann hefur tekið þátt í hingað til. „Þetta voru tveir mánuðir af tólf tíma æfingum og tökum á hverjum degi,“ útskýrir hann. 

Aðspurður segir Rúnar upplifunina að taka þátt í Dance 100 hafa verið frábæra. „Ég kynntist fullt af fólki og þetta er mjög góð reynsla. Upplifunin var skemmtileg en líka mjög erfið og krefjandi með löngum æfingum og tökudögum. En þetta var samt sem áður brjálæðislega gaman,“ segir hann. 

Mynd frá Times Square í New York-borg.
Mynd frá Times Square í New York-borg.

„Þetta eru náttúrulega raunveruleikaþættir“

Rúnar segir verkefnið klárlega vera frábrugðið þeim verkefnum sem hann hafði tekið þátt í áður. „Þetta eru náttúrulega raunveruleikaþættir þannig að við vissum ekkert hvað myndi gerast á tökudögum sem er ólíkt því að vera í verkefnum í leikhúsi þar sem allt er eftir handriti. Svo er ekki oft sem dansarinn fær að vera með skoðun á því sem danshöfundurinn skapar, en í þáttunum fáum við að dæma verkin þeirra,“ útskýrir hann. 

Spurður hvað sé framundan segist Rúnar ætla að halda ótrauður áfram í listamannalífinu. „Ég ætla að fara í danstíma og er skráður á nokkur leiklistarnámskeið út árið. Svo mun ég halda áfram að mæta í prufur fyrir önnur verkefni og hef líka verið að taka við verkefnum á Íslandi.“

Ljósmynd/Cat Couture/Amoroso Films
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda