Engar töfralausnir til þegar skortur verður í heiminum

Valgeir Magnússon viðskipta- og hagfræðingur segir að fólk verði að …
Valgeir Magnússon viðskipta- og hagfræðingur segir að fólk verði að draga saman seglin. Ljósmynd/Samsett
Val­geir Magnús­son viðskipta- og hag­fræðing­ur skrif­ar um verðbólgu og vexti í sín­um 
nýj­asta pistli. Hon­um þykir leitt að vera að eyðileggja stemn­ing­una en fólk verði að
draga sam­an segl­in ef verðbólga á að lækka. 

Nú eru allt í einu all­ir orðnir sér­fræðing­ar í vöxt­um og verðbólgu. Ekki ósvipað því þegar við urðum öll skyndi­lega sér­fræðing­ar í bólu­efn­um og grím­um. Flest­ir þess­ara sér­fræðinga tala út frá sín­um per­sónu­leg­um þörf­um eða hags­mun­um en fáir virðast velta fyr­ir sér raun­veru­leik­an­um og af hverju við erum núna með verðbólgu og af hverju það er ekki bara hægt að leysa hana með því að hækka alla í laun­um til að all­ir hafi það jafn gott og áður.

Ef við stikl­um á stóru og byrj­um á Covid-tím­an­um þá dældu rík­is­stjórn­ir allra vest­rænna ríkja fjár­magni inn í hag­kerf­in til að koma í veg fyr­ir innviðatjón í einka­geir­an­um og at­vinnu­leysi. Einnig héldu op­in­ber­ir aðilar úti margs kon­ar þjón­ustu, sem ekki var til áður, sem kostaði veru­lega fjár­muni ásamt tekjutapi. Til viðbót­ar röskuðust aðfanga­keðjur í far­aldr­in­um og þær hafa enn ekki náð sér. Strax í kjöl­farið á þessu réðust Rúss­ar inn í Úkraínu og breyttu heims­mynd­inni. Í kjöl­farið á því varð skort­ur á olíu og gasi í Evr­ópu ásamt hveiti og alls kyns íhlut­um í bíla og fleiri vör­um sem fram­leidd­ar voru í Úkraínu. Veru­lega var svo aukið í fram­lög til varn­ar­mála. Allt þetta olli verðbólgu í Evr­ópu og Banda­ríkj­um, sem að hluta til var keyrð áfram af skorti og að hluta af „pen­inga­prent­un“.

Ísland fann seinna fyr­ir þessu en önn­ur lönd í Evr­ópu, þar sem við höf­um ekki fengið þess­ar gríðarlegu hækk­an­ir á heim­il­isorku. Raf­magnið okk­ar er ekki tengt Evr­ópu­markaði og heita vatnið okk­ar ekki held­ur. Und­ir­ritaður býr í Nor­egi og þar fór hús­hit­un upp í allt að kr. 200.000,- ís­lenskra króna á mánuði síðastliðinn vet­ur. Þá á fólk ekki mikið eft­ir í annað.

Hegðun íbúa Evr­ópu fór strax að breyt­ast á síðasta ári þar sem fólk hélt að sér hönd­um við fjár­fest­ing­ar, ferðalög og heim­il­is­inn­kaup. Verðbólga olli því að laun fólks­ins dugðu skem­ur og þar með minnkaði neysl­an. Í flest­um þess­ara ríkja urðu ekki launa­hækk­an­ir til jafns við hækk­un­ina og er því verðbólg­an far­in að minnka.

Á Íslandi virt­ist sem flest­ir héldu að þess­ir viðburðir í heim­in­um kæmu sér ekki við. Neysla var í hæstu hæðum og skuld­setn­ing jókst. Launa­hækk­an­ir for­dæma­laus­ar, en samt tald­ar of litl­ar. Und­ar­leg hug­mynd var í gangi um að kaup­mátt­ur ætti alltaf að fara upp, sama hvað bját­ar á. Þeir sem voru í fyr­ir­svari í at­vinnu­líf­inu virt­ust ekki tengd­ir og greiddu sér út for­dæma­lausa bónusa, launa­hækk­an­ir og arð án þess að hugsa út í það að vera á sama tíma að lesa yfir launa­fólki um að það væri ekk­ert svig­rúm til hækk­ana.

Verðbólga í Evr­ópu og Banda­ríkj­un­um var svo flutt inn til Íslands í formi vöru­hækk­ana á inn­flutt­um neyslu­vör­um, aðföng­um, bíl­um og örðum fjár­fest­inga­vör­um. Seðlabank­inn átti að berj­ast við verðbólg­una með aðeins eitt vopn í hönd­un­um, vexti. Á meðan var at­vinnu­lífið að semja um launa­hækk­an­ir, rík­is­stjórn­in og Reykja­vík­ur­borg að eyða sem aldrei fyrr og íbú­arn­ir að setja met í neyslu.

Það eru eng­ar töfra­lausn­ir til þegar skort­ur verður í heim­in­um. Þá er minna til en fólk vill eða þarf. Því hækk­ar það í verði og það er ekki hægt að veifa hend­inni til að leysa það. Við verðum bara að kaupa minna og laun­in verða að duga fyr­ir minni neyslu. Ef við lok­um aug­un­um fyr­ir því þá för­um við í spíral sem held­ur enda­laust áfram með óðaverðbólgu. Við höf­um verið þar áður.

Núna erum við með spíral sem lít­ur svona út í sinni ein­föld­ustu mynd: Hækk­un vöru­verðs er­lend­is býr til verðbólgu, verðbólga kall­ar á launa­hækk­an­ir, launa­hækk­an­ir kalla á meiri neyslu, meiri neysla kall­ar á vaxta­hækk­an­ir, hærri vext­ir kalla á stöðvun hús­bygg­inga, stöðvun hús­bygg­inga býr til skort, skort­ur­inn býr til verðhækk­an­ir á fast­eign­um, verðhækk­an­ir á fast­eign­um hækka verðbólgu, verðbólga kall­ar á kröf­ur um frek­ari launa­hækk­an­ir o.s.frv.

Það er al­veg sama hvað sjálf­skipaðir sér­fræðing­ar benda á marg­ar töfra­lausn­ir. Þær eru ekki til í al­vör­unni. Lífs­kjör geta ekki alltaf farið upp. Heims­far­ald­ur og stríð rýra lífs­kjör og við verðum bara að sætta okk­ur við að núna er tími aðhalds í fyr­ir­tækj­um, heim­il­um og hjá hinu op­in­bera. Um leið og við náum því, þá fer verðbólga niður og vext­ir líka. Kaup­mátt­ur get­ur ekki alltaf auk­ist. Nú vant­ar bara ein­stak­ling­inn sem sam­ein­ar okk­ur öll um að taka á þessu sam­an. Ef það tekst þá verður þetta tíma­bil stutt. Ef það tekst ekki þá verður þetta tíma­bil langt og sárt.

Ég biðst af­sök­un­ar, en stund­um þarf að skemma par­tíið með staðreynd­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda