Seldi fjölskyldufyrirtækið eftir 40 ára feril og settist á skólabekk sjötugur

Þormar Ingimarsson seldi fyrirtæki sitt og lærði að vera leiðsögumaður.
Þormar Ingimarsson seldi fyrirtæki sitt og lærði að vera leiðsögumaður. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Óhætt er að segja að Þorm­ar Ingimars­son sé með fjöl­hæf­ari og lífs­glaðari mönn­um en hann rak og starfaði við úra­heild­söl­una Ingimar H. Guðmunds­son ehf. í nokkra ára­tugi. Auk þess vann hann við skipu­lagn­ingu og leiðsögn í hesta­ferðum á há­lend­inu um ára­bil ásamt því að gefa út þrjá geisladiska en eitt þekkt­asta lagið hans er „Í Vest­ur­bæn­um“ sem Pálmi Gunn­ars­son söng og sló í gegn á 9. ára­tugn­um. Þorm­ar stundaði hesta­mennsku af eld­móði og iðkar sund nokkr­um sinn­um í viku. Hann ferðast mikið og hef­ur ein­stakt dá­læti á mynd­list ásamt fleiri áhuga­mál­um.

Úraheild­sal­an sem Þorm­ar vann hjá um ára­bil var fjöl­skyldu­fyr­ir­tæki sem faðir hans stofnaði en í hverju fólst starfið?

„Ég vann í rúma fjóra ára­tugi við að þjón­usta úr­smiði og gullsmiði og sá um dreif­ingu á úrum og klukk­um og öllu því tengdu. Faðir minn stofnaði fyr­ir­tækið 1972 og ég hóf störf þar árið 1980 og vann við hlið hans og fjöl­skyldu okk­ar til fjölda ára. Síðan tók ég al­farið við rekstr­in­um árið 2009 en þá hét fyr­ir­tækið Mari Time ehf. Ég rak þetta fyr­ir­tæki til árs­ins 2021 en þá seldi ég það til þriggja systkina og maka þeirra en þau reka fyr­ir­tækið Klukk­una í Kópa­vogi við góðan orðstír. Þarna ræður ungt og kraft­mikið fólk ríkj­um. Þau eru með góða heimasíðu og sinna þessu vel.“

Þorm­ar seg­ir ástæðurn­ar fyr­ir söl­unni vera nokkr­ar, meðal ann­ars að margt hafi breyst með til­komu nýrr­ar tækni svo sem snjallúra.

mbl.is/​Hanna Ingi­björg Arn­ars­dótt­ir

Las sinn tíma

„Heild­sala með úr hef­ur mikið til lagst af í dag og marg­ar versl­an­ir flytja bara úrin inn sjálf­ar. Ég las minn tíma, ef ég hefði ætlað að halda fyr­ir­tæk­inu gang­andi hefði ég þurft að ráðast í mikl­ar breyt­ing­ar og nú­tíma­væða rekst­ur­inn. Ég hefði þurft að setja upp heimasíðu og stofna versl­an­ir og jafn­vel fara í sam­keppni við mína kúnna, það var eitt­hvað sem mér hugnaðist ekki. Ég er hæst­ánægður með nýju rekstr­araðilana og feg­inn að sjá að fjöl­skyldu­fyr­ir­tækið er komið í góðar hend­ur.“

Alltaf ákveðinn í að finna sér eitt­hvað annað að gera

Þorm­ar seg­ist hafa viljað losa sig út úr fyr­ir­tæk­inu á meðan hann hefði enn styrk og orku til að gera eitt­hvað annað og finna nýj­an starfs­vett­vang. „Ég vildi ekki bara daga uppi í fyr­ir­tæk­inu eins og ein­hver gaml­ingi enda hafði ég eng­an ung­an úr fjöl­skyld­unni með mér til að fara í breyt­ing­ar og fríska upp á fyr­ir­tækið. Ég var alltaf ákveðinn í því að finna mér eitt­hvað að gera þegar ég væri bú­inn að selja. Ég hef alltaf haft ánægju af því að vinna og þekki ekk­ert annað en að vinna lang­an vinnu­dag.“

mbl.is/​Hanna Ingi­björg Arn­ars­dótt­ir

Leiðsögu­manna­áhug­inn kviknaði í hesta­ferðum

En hvers vegna lá leiðin í leiðsögu­mann­inn?

„Ég hef haldið hesta í Reykja­vík í um það bil 55 ár og hesta­ferðalög hafa verið mér hug­leik­in um langa hríð, sér­stak­lega hesta­ferðir á há­lend­inu. Í gegn­um tíðina hef ég starfað í ferðanefnd Fáks og komið að skipu­lagi á hesta­ferðum fé­lags­ins þar sem voru kannski 30 þátt­tak­end­ur og hesta­flot­inn um 180 hross. Þess­ar ferðir gengu mjög vel og við ferðuðumst víða um há­lendið og nut­um leiðsagn­ar heima­manna í hverju héraði þar sem við fór­um um. Við riðum marg­ar þekkt­ar slóðir og í ferðunum var passað upp á að ganga vel um nátt­úru Íslands, við pössuðum til dæm­is að hafa alltaf stopp­in á grón­um grund­um og mel­um. Það var í þess­um ferðum sem leiðsögumaður­inn í mér fædd­ist, mér fannst gam­an að skipu­leggja, vinna með kort, út­búa söng­bæk­ur, spila á gít­ar og sjá um sam­söng.“

mbl.is/​Hanna Ingi­björg Arn­ars­dótt­ir

Sett­ist á skóla­bekk í tvö­falt nám sjö­tug­ur að aldri

Hann seg­ir hlut­ina síðan hafa æxl­ast þannig að vin­ir hans, hjón­in Gísli og Ásta Begga frá Skagaf­irði, hafi sagt við Ein­ar Bolla­son eig­anda Íshesta að þau vildu fá að velja sér leiðsögu­mann í sín­ar hesta­ferðir og völdu Þorm­ar. Upp frá því vann Þorm­ar í um 15 ár nokkr­ar vik­ur á sumr­in hjá Íshest­um og síðan Íslands­hest­um við hesta­ferðir á há­lend­inu.

„Ég var því bú­inn að starfa við leiðsögn með er­lend­um gest­um til langs tíma áður en ég tók þá ákvörðun að fara að læra þetta hjá End­ur­mennt­un HÍ fyr­ir rúmu ári. Námið tók einn vet­ur og var virki­lega fræðandi en sam­hliða þessu tók ég rútu­próf sem hef­ur nýst mér líka. Það var vissu­lega nokkuð krefj­andi en var skemmti­legt.“

Erfitt en áhuga­vert

Þorm­ar seg­ir það hafa tekið aðeins á að setj­ast á skóla­bekk á þess­um aldri en hann var 70 ára þegar hann fór í námið. Hann hafi því þurft að kveikja svo­lítið á sér, eins og hann orðar það. „En þetta var svo áhuga­vert efni og mér hug­leikið, eins og nátt­úr­an, sag­an, jarðfræðin, veður­fræðin og norður­ljós­in. Ég var í raun bara að bæta við mína þekk­ingu og er reynd­ar enn alltaf að bæta við mig þótt form­legt nám mitt sé búið, það fylg­ir bara þessu starfi. Ég naut náms­ins og gekk mjög vel. Það var líka gam­an að kynn­ast fólk­inu sem var með mér í nám­inu en það var á öll­um aldri. Í raun var þetta mik­il lyfti­stöng fyr­ir hug­ann.“

Þakk­lát­ur fyr­ir að axla ábyrgð sem fylg­ir því að vera í vinnu

Frá því að Þorm­ar kláraði námið hef­ur hann haft mikið að gera og verið eft­ir­sótt­ur en hann vinn­ur sem verktaki fyr­ir fleiri en eitt fyr­ir­tæki allt árið um kring.

„Ég var svo hepp­inn að verða þess aðnjót­andi að kom­ast strax í vinnu. Ég er bæði svo­kallaður sitj­andi leiðsögumaður og einnig keyri ég og kjafta eins og það er kallað,“ bæt­ir hann við glett­inn.

„Sitj­andi leiðsögumaður keyr­ir ekki held­ur ein­beit­ir sér að leiðsögn og þá er bíl­stjóri sem sér um akst­ur­inn en þetta að keyra og kjafta, þá sér sami aðili um hvort tveggja. Ég hef verið með hópa allt frá tveim­ur og upp í 40 manns og vinn mest fyr­ir GJ-ferðir, eða Guðmund Jónas­son, en líka fyr­ir fleiri fyr­ir­tæki. Leiðsögu­starfið gef­ur mér mjög mikið, að hafa eitt­hvað fyr­ir stafni og axla ábyrgð sem fylg­ir vinnu er mik­il­vægt fyr­ir mína lík­am­legu og and­legu heilsu. Þegar ég er ekki að leiðsegja er ég að und­ir­búa næstu ferðir og lesa mér til um eitt­hvert sér­stakt efni. Núna er ég til dæm­is á nám­skeiði um Sturlunga og einnig er ég að stúd­era Njáls sögu og norður­ljós­in.“

Gef­andi starf þar sem eitt­hvað nýtt ber við á hverj­um degi

Þorm­ar seg­ir mikla fjöl­breytni vera fólgna í leiðsögu­manna­starf­inu og að það sé sér­lega skemmti­legt og henti hon­um.

„Það er svo gam­an að fá að fara í þessi ferðalög með fjöl­breytt­um hóp­um og upp­lifa nátt­úru Íslands. Mér finnst ég alltaf vera að sjá eitt­hvað nýtt í hverri ferð þótt ég hafi jafn­vel farið sömu leið margsinn­is eins og Suður­strönd­ina og Gullna hring­inn. Hug­ur­inn þekk­ir ferðina og veit hvað er að sjá en fer óhjá­kvæmi­lega að leita að ein­hverju nýju. Þannig að eng­in ferð er eins. Auk þess er svo ánægju­legt að fá að upp­lifa landið sitt í gegn­um ferðamenn­ina og taka þátt í gleði þeirra, fá að vera hluti af þeirra sum­ar­leyfi, mér finnst það gef­andi. En það þarf jafn­framt að passa að keyra sig ekki út í þessu starfi því maður þarf að hafa mikla gef­andi orku og vera lif­andi. Taka þátt í gleðinni, vera hæfi­lega af­slappaður og alls ekki vera mónótón­ísk­ur. Starfið snýst líka um gott skipu­lag, að halda tíma­áætl­un­um og að all­ir endi dag­inn kát­ir og heil­ir.“

Áhuga­mál­in mörg og mik­il­væg

Eitt af því sem Þorm­ar legg­ur mikla áherslu á er að vera virk­ur en hann ferðast, spil­ar golf og fer í golf­ferðir. Hann er auk þess í þrem­ur skemmti­leg­um sund­hóp­um tengd­um Laug­ar­dals­laug­inni. Einn hóp­ur­inn hitt­ist í kaffi á mánu­dög­um og föstu­dög­um og ann­ar hóp­ur­inn hitt­ist alltaf í há­deg­is­mat á fimmtu­dög­um. Þriðji hóp­ur­inn hitt­ist hvern morg­un í and­dyri Laug­ar­dals­laug­ar­inn­ar og þar verður stund­um nokk­ur hávaði, seg­ir Þorm­ar sposk­ur á svip.

„Um jól­in hitt­umst við líka og borðum sam­an með kon­un­um. Nú og svo er ég virk­ur afi og reyni að taka þátt í upp­eldi barna­barna minna og koma að ein­hverju gagni þar, ég hef alltaf verið mik­ill barna­karl. Ég dútla líka eitt­hvað í tón­list­inni og svo ferðast ég tölu­vert um heim­inn með kær­ustu minni Ágústu,“ seg­ir Þorm­ar glaðlega og aug­ljóst að hann hef­ur mikið fyr­ir stafni.

Gott að eld­ast og er enn að þrosk­ast

Hann er ekki lengi að svara þegar kem­ur að því að gefa fólki sem er að sigla inn í seinni helm­ing­inn af æv­inni ráð.

„Ég myndi benda fólki á að skoða hvar hæfi­leik­ar þess liggja, og rækta það og reyna að gera það annaðhvort að ein­hvers kon­ar nýju starfi eða áhuga­máli. Einnig er mik­il­vægt að rækta sjálf­an sig.“

Þegar sam­tal okk­ar berst að því hvort Þormari finn­ist gott að eld­ast kem­ur blik í aug­un á hon­um og fáir myndu trúa því að hann sé löngu kom­inn á eft­ir­laun.

„Já, það er að mörgu leyti gott og já­kvætt að eld­ast, það koma ný hlut­verk með hækk­andi aldri eins og barna­börn. Þau, ásamt börn­um, vekja mikla gleði hjá mér, mér finnst gott að vera afi, og vera elskaður sem afi, það er al­veg ynd­is­legt. Mér finnst ég líka hafa þrosk­ast mikið með aldr­in­um og tel mig reynd­ar enn vera í þroska­ferli. Það er kom­in meiri ró í kring­um mig og ég er þol­in­móðari. Lífið kem­ur mér svo­lítið öðru­vísi fyr­ir sjón­ir ver­andi á þeim stað sem ég er á í dag. Stefn­an hjá mér er að vinna til svona 75 ára ald­urs ef heils­an leyf­ir og allt geng­ur vel. Þá tek ég stöðuna bara aft­ur og sé hvert ör­lög­in leiða mig. Það eru for­rétt­indi að hafa það að starfi að kynn­ast og læra inn á landið sitt, Ísland.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda