„Þetta var bara alveg sturlað og eiginlega súrrealískt“

Elma Rún Kristinsdóttir að fagna sigri á Dance World Cup …
Elma Rún Kristinsdóttir að fagna sigri á Dance World Cup á Spáni í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

„Núna erum við farin að vera landið sem þau vilja vinna, sem er geggjað,“ segir Elma Rún Kristinsdóttir, danshöfundur og dansari. Elma og nemendur listdansskólans DansKompaní í Reykjanesbæ eru í fullum undirbúningi fyrir heimsmeistaramótið í listdansi, Dance World Cup, sem fer fram 27. júní - 6. júlí í Prag í Tékklandi.

Þar munu 51 nemandi frá DansKompaní ásamt rúmlega 200 dönsurum frá mismunandi dansskólum landsins keppa fyrir Íslandshönd. Elma hefur dansað sjálf á stóra Dance World Cup- sviðinu og samið 30 dansatriði fyrir hópinn síðan 2019.

Ungir dansarar frá DansKompaní að taka á móti gullverðlaunum á …
Ungir dansarar frá DansKompaní að taka á móti gullverðlaunum á heimsmeistaramótinu árið 2022. Ljósmynd/Dance World Cup

Ár síðan DansKompaní heillaði listdansheiminn

„Nú er ár síðan DansKompaní vann fimm gullverðlaun og komst þrisvar sinnum til viðbótar á verðlaunapall á Dance World Cup en Ísland hefur aðeins tekið þátt í keppninni síðan 2019. Einnig vann hópurinn þrjú gullverðlaun á Gala-keppninni, en þar keppa stigahæstu heimsmeistararnir þvert á aldursflokka og dansflokka.“

Elma segir að upplifunin hafi verið alveg einstök og að árangurinn hafi ekki bara komið sér á óvart heldur öllum hópnum, dönsurum og aðstandendum.

„Þetta var bara alveg sturlað og eiginlega súrrealískt því það var enginn að búast við þessu. Þetta var eiginlega orðið bara þannig að krakkarnir, þessi yngri sérstaklega, voru eiginlega hætt að skilja neitt. Ef þú vinnur þá er bara þjóðsöngurinn og læti ásamt allskonar viðtölum og myndatökum og bara öllu sem þú getur ímyndað þér. Þetta er mjög stórt, stærra en flestir gera sér grein fyrir. Þetta er tiltölulega nýtt fyrir Ísland en við tókum fyrst þátt árið 2019.Þetta er eitt stærsta alþjóðalega sviðið sem þú ferð á og þarna keppa margir af bestu dansskólum í heiminum. Ég myndi segja að okkar stærstu keppinautar eru Bretland og Skotland en atriðin eru öll rosalega flott sem koma þaðan. Núna erum við farin að vera landið sem þau eru hrædd við, sem er geggjað.“

Ástrós Tekla Jóhannsdóttir, Halla Björk Guðjónsdóttir, Hugrún Helgadóttir í hrikalegu …
Ástrós Tekla Jóhannsdóttir, Halla Björk Guðjónsdóttir, Hugrún Helgadóttir í hrikalegu dansatriði á World Dance Cup. Ljósmynd/Aðsend

Undirbúningur fyrir Dance World Cup- keppnina Elma segir að í ár munu 66 lönd og um 120 þúsund keppendur taka þátt á Dance World Cup. Það sem skiptir mestu máli fyrir DansKompaní og íslenska hópinn er að halda sér á jörðinni, stjórna væntingum og gleyma pressunni á meðan hópurinn nýtur þess að dansa.

„Það er smá pressa eftir keppnina í fyrra en stemningin í hópnum er samt bara mjög góð. Þetta er ótrúlega mikil æfingatörn sem við tökum í þennan góða undirbúning og það þurfa allir að vera með. Krakkarnir fóru alveg upp á hæsta skýið eftir keppnina í fyrra. Ég þurfti aðeins að minna bæði foreldra og nemendum á að það er ekki sjálfsagt að vera sigurvegari. Árangurinn í fyrra kom til vegna mikilla æfinga og allra þeirra sem lögðu allt sitt í verkefnið. Það er það sem við þurfum að endurtaka í ár. Æfingartímabilið hefur gengið vel og nú er komið að því að fljúga út, gera sitt besta, njóta og hafa gaman. Í undirbúningnum sem danshöfundur, er ég mest að horfa á hvað gekk vel og hvað mætti betur fara frá því í fyrra. Ég ligg yfir allskonar rannsóknarvinnu í kringum það. Það er líka gríðarlega mikilvægt að velja rétt inn í hvert atriði hverju sinni og það gerum við með áheyrnarprufum sem allir þurfa að fara í gegnum fyrir hvert tímabil. Ég finn fyrir smá pressu eftir velgengnina í fyrra. Þessi pressa getur verið neikvæð en ef maður ætlar að gera þetta þá verður maður að nýta pressuna sem jákvæða orku og „pepp“ inn í það sem maður er að gera.“

Elma Rún Kristinsdóttir, Karitas Lotta Tulinius, Andrean Sigurgeirsson og Birna …
Elma Rún Kristinsdóttir, Karitas Lotta Tulinius, Andrean Sigurgeirsson og Birna Karlsdóttir að dansa í atriði Bashar Murad, Vestrið villt í Söngvakeppninni í ár. Ljósmynd/Aðsend

Ævintýri í Söngvakeppninni eftir mikla sigurgöngu

Hvernig var að taka þátt í Söngvakeppninni bæði sem dansari og danshöfundur?

„Það var hrikalega gaman, mikil jákvæð upplifun og í rauninni bara akkúrat það sem ég þurfti. Ég þurfi að fá eitthvað nýtt inn, læra eitthvað nýtt og krefjandi. Ég hef ekkert verið að dansa mikið fyrir framan myndavél, bara örlítið í danstímum erlendis. Ég hef heldur aldrei samið fyrir myndavél áður þannig það var mjög skemmtilegt að fá tækifæri til þess að læra það. Sérstaklega þar sem tækifærið fól í sér að vinna með fullt af frábæru fólki með sérþekkingu hvert á sínu sviði. Auðvitað var svolítið krefjandi að vera danshöfundur og dansari í sömu atriðunum og þurfa að vera með augun á báðum stöðum, en það reddast alltaf. Við vorum með sérfræðinga allt í kring að aðstoða okkur.“

Hrafnhildur Una Magnúsdóttir, Elma Rún Kristinsdóttir, Diljá Pétursdóttir, Sonja Steina …
Hrafnhildur Una Magnúsdóttir, Elma Rún Kristinsdóttir, Diljá Pétursdóttir, Sonja Steina Guðmundsdóttir og Tanja Marín Unnarsdóttir á Söngvakeppninni þetta árið. Ljósmynd/Aðsend

Danstími með lifandi tónlist

Elma og söngkonan Diljá Pétursdóttir kynntust í Söngvakeppninni í ár þar sem Elma var danshöfundur ásamt því að dansa sjálf með Diljá þegar hún tók sigurlagið frá því í fyrra og flutti nýja lagið sitt Einhver. Efir Söngvakeppnina langaði þeim að vinna meira saman og ákváðu að skella í danstíma með lifandi tónlist fyrir alla aldurhópa og þvert á öll getustig.

„Við bara smullum svona vel saman og ákváðum að vera með nýja útgáfu af opnum danstíma, og þá með lifandi tónlist. Við héldum tímann í Hofi á Akureyri við frábærar undirtektir. Við ætluðum að halda annað námskeið í Hljómahöll í Reykjanesbæ en urðum að fresta því vegna þess að bílhurðin mín fauk á mig kvöldið áður og ég gat ekki gengið almennilega í nokkra daga. Það var semsagt gul viðvörun í maí.“

Eitt af siguratriðum Danskompaní í World Dance Cup á síðasta …
Eitt af siguratriðum Danskompaní í World Dance Cup á síðasta ári. Ljósmynd/Aðsend

Stofnaði ungleikhús með „Broadway Junior“ að fyrirmynd

Elma hefur brennandi áhuga á söngleikjum en hún hefur verið dugleg að fara til New York- borgar og London til að dansa og sækja sér innblástur. Þar fer hún mikið á Broadway og West End-sýningar og fylgist þannig með hvað stærstu markaðirnir hafa upp á að bjóða. Hún segir að henni finnist vanta verkefni á Íslandi fyrir þá sem eru lengra komnir í leik, söng og dansi. Elma tók til sinna í ráða og stofnaði ásamt fleirum Ungleikhúsið í september í fyrra sem er vettvangur fyrir unga, hæfileikaríka og ástríðufulla snillinga.

„Í fyrra stofnaði ég ásamt, Ninnu Stefánsdóttur og Sigyn Blöndal, Ungleikhúsið þar sem unnið er með leik, söng og dans. Ungleikhúsið er byggt á hugmynd Broadway Junior þar sem börn og ungmenni fá aukin tækifæri til þess að starfa með fagaðilum í fjölbreyttum verkefnum. Verkefni Ungleikhússins hafa vakið mikla athygli og við hvetjum áhugasama um að fylgjast vel með næstu verkefnum. Það sem okkur þykir sérstaklega vænt um er að sjá öll þessi börn saman komin úr ólíkum áttum og tengjast saman hjá okkur í Ungleikhúsinu,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál