Saga Sigurðardóttir er þekkt fyrir að vera einn helsti tískuljósmyndari landsins en hefur í seinni tíð snúið sér einnig að málverkinu. Nýlega opnaði sýning hennar Flóra í gallerí Móðurskipsins þar sem hún sýnir á sér nýja hlið sem myndlistarmaður. Fram til þessa hefur hún að mestu verið að mála abstrakt málverk en nú eru það blómin sem eiga hug hennar allan. Saga segir að móðurhlutverkið hafi átt stóran þátt í því að blómin urðu að þessu sinni fyrir valinu sem viðfangsefni í málverkum hennar.
Saga upplifði miklar breytingar eftir að hún eignaðist sitt fyrsta barn fyrir einu og hálfu ári með Vilhelmi Antoni Jónssyni tónlistar- og myndlistarmanni.
„Maður breytist svo mikið bæði sem listamaður og manneskja. Það er mjög spennandi að upplifa þessar breytingar en á sama tíma ákveðin áskorun. Ég áttaði mig til dæmis á því hvað tíminn er dýrmætur. Ég hef alltaf verið mikill vinnualki og þurfti með tilkomu barnsins að hugsa upp á nýtt hvernig maður nýtir tímann. Þá finn ég að mér einnig meira sama um hvað öðrum finnst. Listin er eitthvað sem ég geri fyrir mig. Ég þurfti líka að sýna mér meiri mildi og mér fannst þá gott að geta málað eitthvað sem ég þekkti vel og hafði góð tök á. Þess vegna leitaði ég í blómamyndirnar og þá kom allt flæðandi til mín.“
Nánar er rætt við Sögu Sigurðardóttur á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag