„Vinnan er stór hluti af minni sjálfsmynd“

María Björk Einarsdóttir tekur við sem forstjóri Símans.
María Björk Einarsdóttir tekur við sem forstjóri Símans. Kristinn Magnússon

María Björk Einarsdóttir er nýr forstjóri Símans en áður var hún fjármálastjóri Eimskips. María var tiltölulega ung að árum þegar henni var treyst fyrir mikilli ábyrgð í starfi. 

María er gift Ellerti Arnarssyni og eiga þau tvö börn á aldrinum þriggja og sex ára. Bæði eru þau í krefjandi störfum og leggja sig fram um að haga lífinu þannig að allt gangi vel upp á heimilinu. 

Hvernig komstu þangað sem þú ert í dag?

„Ætli það sé ekki blanda af metnaði, mikilli vinnu og tilviljunum. Ég var nýlega útskrifuð með B.Sc. gráðu í verkfræði þegar ég fékk starf hjá Gamma sem var þá ungt og vaxandi fjármálafyrirtæki. Þar starfaði ég við sérhæfðar fjárfestingar, með áherslu á fasteignir. Þegar stofnað var sjálfstætt fyrirtæki utan um ákveðnar fasteignafjárfestingar var mér falið að leiða þá uppbyggingu sem framkvæmdastjóri félagsins. Það verkefni þróaðist í fasteignafélagið Ölmu íbúðafélag sem var selt til fjárfestingafélagsins Langasjávar árið 2021 eftir mikinn ytri vöxt og umfangsmikla endurfjármögnun,“ segir María.

„Að því verkefni loknu fór ég í fæðingarorlof með yngra barnið mitt og í miðju orlofi bauðst mér að taka við stöðu fjármálastjóra Eimskips. Það hefur verið ótrúlega gefandi að kynnast „óskabarni þjóðarinnar“ og að starfa í mjög alþjóðlegu fyrirtæki á gríðarlega dýnamískum flutningamarkaði. Eftir sumarið mun ég svo taka við nýju og spennandi hlutverki sem forstjóri Símans. Ég er full eftirvæntingar að kynnast fjarskiptamarkaðnum betur og fá að starfa fyrir þetta glæsilega fyrirtæki.“


„Í öllum mínum störfum hef ég orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa með afburðakláru fólki sem ég hef lært mikið af. Ég var ung og með takmarkaða starfsreynslu þegar mér var fyrst treyst fyrir mikilli ábyrgð og það krafðist hugrekki af hálfu minna yfirmanna á þeim tíma. Afleiðingin var sú að ég lagði mig gríðarlega fram um að standa undir traustinu. Þegar ég hef sjálf staðið í ráðningum hef ég tamið mér að líta ekki eingöngu á reynslu mælda í árafjölda heldur meta hæfni fólks á víðari mælikvarða.“

Hverjar voru helstu áskoranirnar á leiðinni?

„Ég hef alltaf notið þess að takast á við krefjandi og flókin verkefni og lít á þau sem sjálfsagðan hluta þess að gegna ábyrgðarstöðum. Í flestum verkefnum eru krefjandi kaflar og þá er mikilvægt að sýna þrautseigju. Eins hefur maður oft verið í þeirri aðstöðu að vera að gera eitthvað í fyrsta skipti, og eins og allt fólk, þá gerir maður stundum mistök. Það mikilvægasta í slíkum aðstæðum er að sýna auðmýkt, viðurkenna mistökin og leiðrétta þau. Fólk kann almennt að meta það.“

Hvað skiptir máli að hafa í huga ef fólk ætlar að ná langt á vinnumarkaði?

„Að koma fram við fólk af virðingu, heiðarleika og háttvísi. Á Íslandi er atvinnulífið ekki stór heimur og það eru miklar líkur á því að rekast aftur á sama fólkið í nýjum hlutverkum.“

Hvað gefur vinnan þér?

„Vinnan er stór hluti af minni sjálfsmynd enda hef ég forgangsraðað henni ofarlega í mínu lífi. Ég er afar umbótasinnuð og nýt mín best í slíkum verkefnum. Leiðtogahlutverkið snýst að mínu mati fyrst og fremst um að stilla upp rétta teyminu og skapa jarðveg fyrir það til þess að blómstra. Það þarf líka að hafa þetta skemmtilegt, því annars gefst fólk fljótt upp.“

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Ég er orðin ansi vön því að keyra á háu tempói. Ég og maðurinn minn erum bæði í krefjandi störfum ásamt þvi að ala um börnin okkar sem eru þriggja og sex ára í dag. Vissulega koma upp augnablik þar sem maður er uppgefinn, en þau líða jafnan hratt hjá. Við erum búin að læra í gegnum árin að haga lífinu þannig að hlutirnir gangi vel fyrir sig. Við erum óhrædd við að útvista heimilisverkum erum svo heppin að hafa dásamlega au pair á heimilinu sem hjálpar okkur að láta dæmið ganga upp. Það gerir okkur kleift að verja okkar takmarkaða frítíma í gæðastundir með krökkunum.“

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Ég á mér ýmsar fyrirmyndir óháð kynjum. En við erum heppin hér á Íslandi að hafa margar sterkar kvenfyrirmyndir í atvinnulífinu, sem hafa rutt brautina fyrir okkur sem á eftir komu.“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Almennt vöknum við hjónin milli 5:30 og 6:00 á virkum dögum, langt á undan börnunum. Við setjumst þá saman inn í eldhús og drekkum bolla af beinaseyði frá íslenska framleiðandanum Bone&Marrow á meðan við opnum fartölvurnar og undirbúum verkefni og fundi dagsins. Beinaseyðið gefur okkur orku og jafnar blóðsykurinn inn í daginn, og það munar miklu að ná að stilla sig fyrir daginn áður en maður mætir á skrifstofuna.“

Teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Það gerist oftar en ekki, enda væri ómögulegt að sinna öllu því sem í hlutverkinu felst á hefðbundnum vinnudegi. Vinnudagurinn fer oftast í að funda með ýmsum hagaðilum og fylgja eftir verkefnum. Það er lítill tími í amstri dagsins til þess að sökkva sér í gögn og greiningar um reksturinn, það er best að gera í friði og ró á kvöldin eða um helgar.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Við erum mjög meðvituð um að forgangsraða og ætla okkur ekki of mikið í áhugamálum. Okkur finnst gaman að ferðast innanlands sem utan og reynum að blanda ferðalögum saman við útivist á borð við stangveiði og skíði.“

5 hlutir sem þú hefðir viljað vita um tvítugt?

„Það er erfitt að tína til fimm hluti, enda felast kostirnir við það að vera tvítugur í því að vita ekkert rosalega mikið. En það er svolítið fyndið að hugsa til þess í dag hvað manni fannst maður vera óskaplega upptekinn á þessum árum þrátt fyrir að lífið hafi bara verið frekar þægilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda