Lista- og tónlistarmaðurinn Eyþór Eyjólfsson, einnig þekktur undir listamannanafninu Eyþóríó, var ungur þegar hann vissi að hann vildi fara alla leið í myndlistinni og var algjörlega heillaður af verkum eftir Erró. Hann útskrifaðist úr Bournemouth listaskólanum í Bretlandi árið 2020 og hefur síðan þá mótað stílinn sinn sem er undir áhrifum Erró, teiknimyndasagna og abstrakt list.
Aðspurður segist Eyþór hins vegar fá mestan innblástur frá tíðarandanum á Íslandi, en hann hefur slegið í gegn með Iceland's Next Top Selfie þar sem fólk getur pantað persónulegar sjálfsmyndir af sér með áhugamálum sínum í bakgrunni.
Hvaðan færðu innblástur?
„Ég get sagt að minn stærsti innblástur, eitt orð, fólk. Allt sem við erum megnug um, við erum líka algjörir hræsnarar en samt erum við öll yndisleg. Ég elska fólk, en við getum bara verið svo fyndin stundum. Eins og bara í dag, við erum orðin svo ótrúlega skipt í pólitík og hugsunarhætti. Allavega mikið meira en fyrir hundrað árum og við erum svona að tapa einstaklingnum. Það er ekki lengur hægt að hlusta á rök því allir hlusta bara á hópinn sinn. Mér finnst þetta svo hrikalega áhugavert.
Eins og með Wintris-málið og Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þegar hann seldi fyrirtæki konu sinnar á einn dollara. Á einni sýningunni minni var ég búinn að teikna hann alsberan með pínulítið typpi. Að sjálfsögðu er þetta bara húmor en verkið hét Pínulítill maður með mikil völd. Svo tók ég dollara og hengdi hann upp í lítinn ramma við hliðina á. Erró hefur líka átt mjög stóran part í mér, sérstaklega þegar ég var yngri, eins og með alla þessa myndasögulist þar sem allt er litríkt, stórt og mikið.“
Hvernig var samstarfið með Sólborgu Guðbrandsdóttur þegar þið gáfuð út bókina Fávitar?
„Þetta mjög skemmtileg verkefni og Sólborg er yndisleg því hún vakti svo mikla umræðu og ég var mjög sammála henni því það vantaði kynfræðslu. Það fyndna er að bókin er í rauninni bara byggð á spurningum frá ungu fólki. Ungu fólki sem er mjög forvitið eins og við öll. Sólborg svaraði öllu eins vel og hún gat. Ég fékk spurningarnar líka og ég lýsti spurningunum með myndum. Sumar myndir voru grófari en aðrar en húmorinn fylgdi samt alltaf. Ég tók eftir að sumar voru alveg umdeildar. Bækurnar voru samt teknar inn í skólana og við vorum mjög ánægð með það. Ein spurningin var til dæmis: „Getur maður sjálfur tottað sig?“ og ég teiknaði það.
Þetta er hluti af því að vera unglingur og að fullorðnast. Það var gaman að sjá hvert þetta leiddi, ég vann í skóla á þessum tíma og það var mjög sérstakt að sjá bækurnar. Krakkarnir voru virkilega forvitnir, oftast kom hlátur enda er þetta viðkvæmt mál og svo var bara rosalega gott að vinna með Sólborgu. Hún er mikil baráttukona.“
Hver er þín helsta fyrirmynd?
„Mamma og pabbi. Pabbi gamli gaf mér vinnusemina. Maður er alltaf að vinna og alltaf að hugsa einhvað. Hann kenndi mér líka að vera sterkur. Svo er mamma líka sterkasta manneskja sem ég þekki og er ekkert nema hvetjandi sem ég er ótrúlega þakklátur fyrir. Svo eru það bara listamennirnir sem ég lít mikið upp til sem búa bara í hausnum mínum. Þeir sem hafa mest áhrif á mig eru popplistamennirnir Andi Warhol og Jeff Koons, súrrealistarnir Dalí og Magritte og svo að sjálfsögðu Pablo Picasso þótt hann hafi verið algjör karlremba.“
Hvaðan kemur listamannanafnið Eyþóríó?
„Maður vill auðvitað vera smá alþjóðalegur í listinni. Það gerðist þó einhverntímann þegar ég var í menntaskóla í spænskutíma að ég var að „spænska“ upp íslensku nöfnin hjá félögum mínum í bekknum. Þegar ég gerði mitt eigið kom út Eyþóríó út og ég var bara: „Ómægad, þetta virkar!“
Hver er uppáhalds myndin sem þú hefur gert?
„Mér þykir rosalega vænt um þær allar. En mín uppáhalds er sú sem ég málaði fyrir mömmu og pabba en titillinn er The Beatles in the Yellow Submarine Meet Mona Friction. Þetta er verk sem lifir í fjölskyldunni minni og er mjög stórt verk, svona ekta popplist. Annars eru mín uppáhaldsverk þau sem valda mesta sjokkinu. Í gegnum tíðina hef ég t.d. oft teiknað Múhameð og ég hef líka mikið gert grín af samfélagsmiðla kynslóðinni.“
Hvernig mótaðist þú sem listamaður í Bournemouth listaskólanum í Bretlandi?
„Það var frábær upplifun að læra í Bournemouth. Þar sem fólk er minn mesti innblástur var maður var bara að fara í gegnum alla miðla, þannig að það var rosalega mikil persónusköpun. Síðan var ég stöðugt að taka inn menninguna sem var þarna, það er alltaf gott fyrir listamenn að fara út fyrir menningarrammann sinn og fara einhvert annað.
Eftir útskriftina fékk ég samt aldrei þessa tilfinningu eins og ég hafi afrekað eitthvað en þarna fann ég að ég klessti á múrvegg. Ég var rosalega mikið í vafra, en allir listamenn hafa gengið í gegnum að þeir þrói nýjan stíl. Svo bara kemur maður heim, kaupir sér íbúð og aðlagast lífinu á Íslandi. Síðan þá hef ég haldið eina listasýningu á ári síðustu fjögur árin. Ég er samt rosalegur einfari í myndlistinni. Ég vill fylla veggina alveg á sýningunum mínum. Fylla þá eins og listaverkin mín sjálf eru. Ég vill bara hafa nóg af þeim. Sýningarnar hafa samt alltaf ákveðið þema og eru úthugsaðar. En ég tel að grínið í listinni er mikilvægt. Líttu á heiminn, hann er svo alvarlegur. Við þurfum húmorinn og það má gera grín af öllu á réttan hátt. Við þurfum þess. Hræsnin getur verið svo grínleg og maður getur unnið svo mikið með hana.“
Eyþór, sem starfar líka sem stuðningsfulltrúi fyrir fötluð börn, stefnir á að setja enn meiri fókus á listina á næstu árum og lifa einungis á henni. Eyþór er einnig trommari í hljómsveitinni Mukka og hann er spenntur fyrir komandi vikum í tónlistinni. Hljómsveitin mun meðal annars koma fram á Flateyri um Verslunarmannahelgina og svo mun hljómsveitin gefa út nýja plötu í ágúst sem ber heitið Study More Nr. 4.