Prentaði út umsóknina og sagði upp vinnunni

Sunna Halla Einarsdóttir er fjármálastjóri Taktikal og KLAK - Icelandic …
Sunna Halla Einarsdóttir er fjármálastjóri Taktikal og KLAK - Icelandic Startups. mbl.is/Árni Sæberg

Sunna Halla Ein­ars­dótt­ir, fjár­mála­stjóri Taktikal og fjár­mála­stjóri KLAK - Icelandic Startups, á bæði fjöl­breytt­an starfs- og náms­fer­il að baki sem nýt­ist henni í frum­kvöðla- og ný­sköp­un­ar­geir­an­um. 

Sunna Halla hóf störf fyr­ir um átta árum í frum­kvöðla- og ný­sköp­un­ar­geir­an­um og þá opnaðist al­veg nýr og spenn­andi heim­ur fyr­ir henni. „Að mínu mati er þetta áhuga­verðasta og skemmti­leg­asta vinnu­um­hverfið til að starfa í. Að fá að vera að vinna með og í kring­um ein­stak­linga sem hafa brenn­andi áhuga á því að byggja upp eitt­hvað frá grunni – það er ein­hver sér­stök orka sem leyn­ist hér. Ég er það hepp­in að starfa sem fjár­mála­stjóri hjá ein­mitt tveim­ur fyr­ir­tækj­um í ný­sköp­un­ar­sen­unni, ann­ars veg­ar hjá tæknifyr­ir­tæk­inu Taktikal sem sér­hæf­ir sig í að umbreyta skjöl­um í sjálf­virka ferla sem lýk­ur með und­ir­rit­un og hins veg­ar sem fjár­mála­stjóri hjá KLAK - Icelandic Startups þar sem ég er kom­in hinu meg­in við borðið í stuðnings­um­hverfið þar sem við aðstoðum sprota­fyr­ir­tæki að hlaupa hraðar allt árið um kring,“ seg­ir Sunna Halla um störf­in sín tvö. 

„Á báðum þess­um stöðum er ég með fjár­mála­hatt­inn þar sem ég sé um allt fjár­mála­tengt sem teng­ist rekstr­in­um en þegar að maður er í litlu teymi þá ber maður oft marga hatta og því eru bæði störf­in mjög fjöl­breytt - allt frá viðburðastjórn­un, halda fyr­ir­lestra, pósta efni á sam­fé­lags­miðla og vökva blóm­in. Ég kynnt­ist í raun Taktikal í gegn­um þann stuðning sem við veit­um hjá KLAK, en Taktikal tók þátt í frum­kvöðlakeppn­inni Gul­legg­inu á sín­um tíma þegar það var að fara af stað að byggja upp fyr­ir­tækið svo ég hef fylgst með þeim í nokk­ur ár og virki­lega skemmti­legt að fá að vera hluti af því flotta teymi í dag ásamt því að vera hluti af upp­bygg­ingu ís­lensks ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæk­is.“

Sunna Halla hélt fyrirlestur á vegum KLAK á Gullegginu fyrr …
Sunna Halla hélt fyr­ir­lest­ur á veg­um KLAK á Gul­legg­inu fyrr á þessu ári. Ljós­mynd/​Eygló Gísla­dótt­ir

„Það hafa einnig gef­ist skemmti­leg tæki­færi út frá því að starfa í þess­ari senu en ég hef starfað náið með ís­lensku vísi­sjóðunum sem eru fjár­fest­inga­sjóðir sem fjár­festa í ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækj­um, en ég stýrði sam­tök­un­um Fram­vís sem eru sam­tök engla- og vísifjár­festa og síðastliðin 3 ár hef ég einnig verið að kenna í stærsta ný­sköp­un­ar­áfanga lands­ins í Há­skól­an­um í Reykja­vík. Svo það eru fjöl­breytt tæki­fær­in sem liggja í sen­unni.“

Fór fyrst í hús­stjórn­ar­skóla

Sunna Halla út­skrifaðist eft­ir Verzl­un­ar­skóla Íslands en í stað þess að fara beint í há­skóla­nám ákvað hún að fara í Hús­stjórn­ar­skól­ann á Hall­ormsstað. Þar varði hún einni önn á heima­vist og lærði að elda og lærði hannyrðir. 

„Þar tók­um við próf í að strauja og þvo ullarpeys­ur, sauma út, baka og elda og var þetta al­veg ynd­is­leg­ur tími. Mamma talaði mikið um að hún hefði farið í slík­an skóla á Ísaf­irði og þar sem við deil­um okk­ar hannyrðaráhuga­máli þá blundaði það alltaf í mér að skella mér. Eft­ir Hall­ormsstað langaði mig að vinna aðeins áður en ég héldi áfram í námi og var kom­in með vinnu sem messi á sama frysti­tog­ara og kærast­inn minn vann á. Kærast­inn minn lenti þó í slysi úti á sjó rétt áður en ég hefði hafið störf þar, svo ég ákvað að fara ekki ein án hans og endaði á að fara að vinna í ferðamála­geir­an­um,“ seg­ir Sunna Halla sem starfaði á hót­eli í tíu ár og var aðstoðar­hót­el­stjóri und­ir það síðasta. Sam­hliða því starfi kláraði hún BS í viðskipta­fræði frá Há­skóla Íslands og meist­ara­nám í reikn­ings­skil­um og end­ur­skoðun og fór í skipti­nám í viðskipta­há­skóla í Aust­ur­ríki.

Um tíma blundaði einnig flug­manns­draum­ur í Sunnu Höllu. „Ég reyndi einnig aðeins við flugnám á þessu tíma­bili en fann fljótt að að það var ekki fyr­ir mig – bara til­hugs­un­in að vera ein í sólóflugi varð allt í einu hálf ógn­væn­leg eft­ir að hafa klárað bók­lega hlut­ann í einka­flugnám­inu.“

Sunna Halla er mikil hannyrðakona. Þessa peysu prjónaði hún í …
Sunna Halla er mik­il hannyrðakona. Þessa peysu prjónaði hún í bíl­ferðum um landið eitt sum­arið. Ljós­mynd/​Aðsend

Tók áhættu og fékk starfið

Eft­ir tíu ár í ferðageir­an­um ákvað Sunna Halla að taka áhættu og taka þátt í Gul­legg­inu, frum­kvöðlakeppni KLAK, en þetta var áður en hún hún hóf störf þar. 

„Ég skráði mig í keppn­ina nokkr­um mín­út­um áður en það átti að lokast fyr­ir skrán­ingu þar sem syst­ir mín var að ýta á mig og ég man að ég hugsaði að ég ætti svo sann­ar­lega ekki heima þarna í þess­um hóp en ákvað að stökkva á þetta samt sem áður og var þetta svo vel út fyr­ir þæg­ind­aramm­ann minn á þess­um tíma. Keppn­inni er stillt upp þannig að topp 10 ný­sköp­un­ar­hug­mynd­irn­ar kom­ast áfram af hópi um­sækj­enda og var það teymi sem ég var í eitt af þeim,“ seg­ir Sunna Halla. 

„Til þess að gera langa sögu stutta þá sá ég fjár­mála­stjóra­stöðu aug­lýsta hjá KLAK og aft­ur hugsaði að ég tikkaði alls ekki í öll box­in sem voru listuð upp í aug­lýs­ing­unni en hafði svo mik­inn áhuga á þessu um­hverfi. Teymið sem vann þar var svo skemmti­legt og mig langaði svo mikið í þetta starf svo ég ákvað að sækja um. Ég man að ég prentaði meira að segja út um­sókn­ina mína og fór með hana á skrif­stofu KLAK ásamt kynn­ing­ar­bréfi, eitt­hvað sem ég hef aldrei gert áður. Ég sagði svo upp vinn­unni minni á hót­el­inu án þess að ég vissi fyr­ir víst hvort ég myndi verða ráðin til KLAK, hugsaði bara að ég myndi bara taka mér smá frí ef ég yrði ekki ráðin sem endaði sem bet­ur fer í engu fríi held­ur fór ég beint í djúpu laug­ina í skemmti­leg­asta starf sem ég hef nokk­urn tím­ann verið í.“ 

Sunna Halla segir frumkvöðla- og nýsköpunargeirann einstaklega skemmtilegan.
Sunna Halla seg­ir frum­kvöðla- og ný­sköp­un­ar­geir­ann ein­stak­lega skemmti­leg­an. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Hvað hefðir þú viljað vita þegar þú varst tví­tug?

„Það að fólk er ekki að spá eins mikið í manni eins og maður held­ur, og það var kannski ég sjálf sem var minn harðasti gagn­rýn­andi en hélt að aðrir væru það. Svo að maður á bara að gera það sem manni finnst skemmti­legt, vera maður sjálf­ur og vera óhrædd að ögra sjálf­um sér með krefj­andi verk­efn­um sem eru út fyr­ir þæg­ind­aramm­ann.“

Nýtt for­rit breytti öllu

Það skipt­ir Sunnu Höllu miklu máli að skipu­leggja sig vel enda ólíkt mörg­um öðrum er hún ekki bara í einni vinnu held­ur tveim­ur. 

„Þar sem ég er í tveim­ur vinn­um þá skipt­ir það mig miklu máli að vera með góða yf­ir­sýn yfir þau verk­efni sem ég þarf að sinna og gæti ég það ekki án verk­efna­stjórn­ar­tóls­ins sem ég nota fyr­ir allt sem ég geri á báðum stöðum og fyr­ir mín per­sónu­legu verk­efni. Ég byrjaði að nota for­ritið Todoist fyr­ir nokkr­um mánuðum og það hef­ur breytt öllu fyr­ir mig. Þar sem ég skipti mér niður á daga hjá Taktikal og KLAK þá enda ég alla daga á að skipu­leggja hvaða verk­efni ég mun vinna næsta dag og þá þarf ég ekki að taka það með mér heim eft­ir vinnu­dag­inn. Einu sinni í viku fer ég yfir næstu tvær til þrjár vik­ur í daga­tal­inu hjá mér og sé hvaða stóru verk­efni ég þarf að klára og skipu­legg hvenær ég mun vinna í þeim. Það að hafa náð utan um verk­efn­in mín svona hef­ur minnkað stress og sér­stak­lega það að ég sé ekki að taka allt með mér heim eft­ir vinnu sem ég var mjög gjörn á að gera. Ég set allt þarna inn í for­ritið og veit að það mun bíða mín þar fyr­ir næsta dag fyr­ir utan það hvað það er góð til­finn­ing að krossa hluti af list­an­um og yf­ir­fara þau verk­efni sem ég kláraði yfir dag­inn.“

Björt Baldvinsdóttir (t.v.), Sunna Halla í miðjunni og Tinna Hallbergsdótir …
Björt Bald­vins­dótt­ir (t.v.), Sunna Halla í miðjunni og Tinna Hall­bergs­dót­ir (t.h.). Þær eru sam­starfs­fé­lag­ar hjá Taktikal. Mynd­in var tek­in á viðburði Taktikal. Ljós­mynd/​Eygló Gísla­dótt­ir

Er vinnu­dag­ur­inn átta tím­ar eða teyg­ist hann fram á kvöld?

„Minn besti fókus­tími hef­ur yf­ir­leitt verið seinnipart­inn og á kvöld­in en ég hef ít­rekað í gegn­um tíðina verið að vinna langt fram eft­ir á kvöld­in því þá er meiri friður bæði í kring­um mig og í hausn­um og þar sem ég er oft í allskon­ar excel-æf­ing­um þá hafa kvöld­in oft verið nýtt í slíka vinnu. Ég hef þó mark­visst verið að reyna að breyta þessu og hef ég fundið að með því að skipu­leggja vik­urn­ar svona fram í tím­ann þá hef­ur kvöld- og helgar­vinn­an minnkað til muna. Ég erfði svo þann eig­in­leika frá hon­um pabba sem lýs­ir sér þannig að ég á það til að vera stund­um sein, og er oft og tíðum alltaf sein eitt­hvert, en hef þó alltaf unnið leng­ur í hinn end­ann á móti ef svo ber und­ir.“

Er alltaf að bæta sig

Hvernig er morg­un­rútín­an þín?

„Ég verð að viður­kenna að hún er mögu­lega ekki sú besta en maður er alltaf að reyna að bæta sig, er það ekki? Ég þarf helst að eiga góðan tíma heima áður en ég fer út ann­ars verður all­ur dag­ur­inn hálf beyglaður. Ætli ég byrji ekki á klass­ísku snúsi á morgn­ana í smá stund og opna svo sím­ann og kíki á miðlana, email­in, verk­efna­list­ann, daga­talið og vinnu­skila­boðin á meðan ég er enn uppi í rúmi – ég er að reyna að hætta því en það geng­ur ekki al­veg nægj­an­lega vel. Ég fer svo beint í sturtu, stórt vatns­glas og víta­mín, græja mig fyr­ir dag­inn og bruna svo í vinn­una. Ég er ekki mik­il morg­un­verðar­kona og við eig­um ekki kaffi­vél svo ég gríp mér bara yf­ir­leitt eitt­hvað sem er við hönd­ina heima, peru eða gul­rót og narta í það fyr­ir há­degið. Það sem ég myndi vilja bæta við er smá hreyf­ing – ég hef tekið syrp­ur þar sem ég mæti í rækt­ina fyr­ir vinnu eða hef hjólað í vinn­una á raf­magns­hjól­inu og finn hvað það er gott fyr­ir mig. Ég stefni á að dusta rykið af hjól­inu eft­ir vet­ur­inn og viðra það aðeins áður en þetta sum­ar okk­ar klár­ast.“

Hef­ur þú átt það til að of­keyra þig, og ef svo er, hvernig hef­ur þú brugðist við því?

„Já það var tíma­bil fyr­ir nokkr­um árum þar sem ég var að taka að mér alltof mörg verk­efni á sama tíma og var að gera ein­hver af þeim í fyrsta sinn sem var ákveðin brekka. Á þessu tíma­bili vann ég flest kvöld og mikið um helg­ar til að kom­ast yfir þetta og fann að þetta var ekki að gera mér gott og hef mark­visst síðan verið að skipu­leggja mig þannig að þetta muni ekki ger­ast aft­ur, bæði með því að skipu­leggja mig bet­ur fram í tím­ann og byrja á þeim verk­efn­um sem eru mik­il­væg­ust á lista dags­ins. “

Hvað ger­ir þú til þess að hlaða batte­rí­in?

„Sef út, horfi á Net­flix með kær­ast­an­um, hlusta mikið á hlaðvörp, er úti í nátt­úr­unni, prjóna og allskon­ar handa­vinna sem er hálf­gerð er hug­leiðsla fyr­ir mér, plús blak að sjálf­sögðu.“

Sunna Halla með erindi á sameiginlegum viðburði Taktikal og tveggja …
Sunna Halla með er­indi á sam­eig­in­leg­um viðburði Taktikal og tveggja ann­ara sprota­fyr­ir­tækja, 50sk­ills og Data Dwell, á Ice­land Innovati­on Week í fyrra. Ljós­mynd/​Eygló Gísla­dótt­ir

Spil­ar blak 

Sunna Halla spil­ar blak af mikl­um krafti og nýt­ur hún að gera það þegar hún er ekki í vinnu.

„Eitt af því skemmti­leg­asta sem ég geri er að stunda blak. Ég æfi blak hjá HK á vet­urna og eru þar æf­ing­ar þris­var í viku, ásamt því að spila strand­blak á sumr­in. Þetta er sport sem ég elska að hafa fundið bæði vegna þess að fé­lags­skap­ur­inn er svo skemmti­leg­ur, og þetta er hreyf­ing sem ég gæti eytt mörg­um klukku­stund­um í. Yf­ir­leitt þegar 1,5 tíma æf­ing­ar eru að klár­ast þá vill maður alltaf vera leng­ur svo ég tali nú ekki um ef það er sól og gott veður þegar maður er í sand­in­um. Það sem ég dýrka einnig við þetta er að maður hef­ur ekki svig­rúm til að hugsa um neitt annað á meðan svo að maður er svo mikið að kúppla sig út úr öllu þegar maður er að æfa, spila eða keppa. Þetta sport leyn­ir svo mikið á sér, það er svo stórt hér á landi og það eru svo marg­ir flott­ir strand­blaksvell­ir um allt land.“  

Sunna Halla fær mikið út úr því að æfa blak.
Sunna Halla fær mikið út úr því að æfa blak. Ljós­mynd/​Ein­ar Sig­urþórs­son

Hvað er á döf­inni?

„Núna er ég að fara að mæta aft­ur í vinnu eft­ir að hafa verið á góðu fríi bæði í Slóven­íu, Ítal­íu og Svíþjóð svo ég hafði hugsað mér að nýta ró­leg­an júlí í að vinna öll þau verk­efni á list­an­um sem hafa setið þar þangað til ég hef tíma, sem er núna. Ég og kærast­inn ætl­um að taka íbúðina aðeins í gegn á næstu vik­um, nokkr­ar úti­leg­ur planaðar og svo er næsta ferðalag til Þýska­lands í ág­úst þar sem við erum að fara að hitta gamla vini frá skipti­náms­tíma­bil­inu frá Aust­ur­ríki. Svo er ég með eitt nýtt stórt og spenn­andi verk­efni sem ég er að vinna í næstu mánuðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda