Prentaði út umsóknina og sagði upp vinnunni

Sunna Halla Einarsdóttir er fjármálastjóri Taktikal og KLAK - Icelandic …
Sunna Halla Einarsdóttir er fjármálastjóri Taktikal og KLAK - Icelandic Startups. mbl.is/Árni Sæberg

Sunna Halla Ein­ars­dótt­ir, fjár­mála­stjóri Taktikal og fjár­mála­stjóri KLAK - Icelandic Startups, á bæði fjöl­breytt­an starfs- og náms­fer­il að baki sem nýt­ist henni í frum­kvöðla- og ný­sköp­un­ar­geir­an­um. 

Sunna Halla hóf störf fyr­ir um átta árum í frum­kvöðla- og ný­sköp­un­ar­geir­an­um og þá opnaðist al­veg nýr og spenn­andi heim­ur fyr­ir henni. „Að mínu mati er þetta áhuga­verðasta og skemmti­leg­asta vinnu­um­hverfið til að starfa í. Að fá að vera að vinna með og í kring­um ein­stak­linga sem hafa brenn­andi áhuga á því að byggja upp eitt­hvað frá grunni – það er ein­hver sér­stök orka sem leyn­ist hér. Ég er það hepp­in að starfa sem fjár­mála­stjóri hjá ein­mitt tveim­ur fyr­ir­tækj­um í ný­sköp­un­ar­sen­unni, ann­ars veg­ar hjá tæknifyr­ir­tæk­inu Taktikal sem sér­hæf­ir sig í að umbreyta skjöl­um í sjálf­virka ferla sem lýk­ur með und­ir­rit­un og hins veg­ar sem fjár­mála­stjóri hjá KLAK - Icelandic Startups þar sem ég er kom­in hinu meg­in við borðið í stuðnings­um­hverfið þar sem við aðstoðum sprota­fyr­ir­tæki að hlaupa hraðar allt árið um kring,“ seg­ir Sunna Halla um störf­in sín tvö. 

„Á báðum þess­um stöðum er ég með fjár­mála­hatt­inn þar sem ég sé um allt fjár­mála­tengt sem teng­ist rekstr­in­um en þegar að maður er í litlu teymi þá ber maður oft marga hatta og því eru bæði störf­in mjög fjöl­breytt - allt frá viðburðastjórn­un, halda fyr­ir­lestra, pósta efni á sam­fé­lags­miðla og vökva blóm­in. Ég kynnt­ist í raun Taktikal í gegn­um þann stuðning sem við veit­um hjá KLAK, en Taktikal tók þátt í frum­kvöðlakeppn­inni Gul­legg­inu á sín­um tíma þegar það var að fara af stað að byggja upp fyr­ir­tækið svo ég hef fylgst með þeim í nokk­ur ár og virki­lega skemmti­legt að fá að vera hluti af því flotta teymi í dag ásamt því að vera hluti af upp­bygg­ingu ís­lensks ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæk­is.“

Sunna Halla hélt fyrirlestur á vegum KLAK á Gullegginu fyrr …
Sunna Halla hélt fyr­ir­lest­ur á veg­um KLAK á Gul­legg­inu fyrr á þessu ári. Ljós­mynd/​Eygló Gísla­dótt­ir

„Það hafa einnig gef­ist skemmti­leg tæki­færi út frá því að starfa í þess­ari senu en ég hef starfað náið með ís­lensku vísi­sjóðunum sem eru fjár­fest­inga­sjóðir sem fjár­festa í ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækj­um, en ég stýrði sam­tök­un­um Fram­vís sem eru sam­tök engla- og vísifjár­festa og síðastliðin 3 ár hef ég einnig verið að kenna í stærsta ný­sköp­un­ar­áfanga lands­ins í Há­skól­an­um í Reykja­vík. Svo það eru fjöl­breytt tæki­fær­in sem liggja í sen­unni.“

Fór fyrst í hús­stjórn­ar­skóla

Sunna Halla út­skrifaðist eft­ir Verzl­un­ar­skóla Íslands en í stað þess að fara beint í há­skóla­nám ákvað hún að fara í Hús­stjórn­ar­skól­ann á Hall­ormsstað. Þar varði hún einni önn á heima­vist og lærði að elda og lærði hannyrðir. 

„Þar tók­um við próf í að strauja og þvo ullarpeys­ur, sauma út, baka og elda og var þetta al­veg ynd­is­leg­ur tími. Mamma talaði mikið um að hún hefði farið í slík­an skóla á Ísaf­irði og þar sem við deil­um okk­ar hannyrðaráhuga­máli þá blundaði það alltaf í mér að skella mér. Eft­ir Hall­ormsstað langaði mig að vinna aðeins áður en ég héldi áfram í námi og var kom­in með vinnu sem messi á sama frysti­tog­ara og kærast­inn minn vann á. Kærast­inn minn lenti þó í slysi úti á sjó rétt áður en ég hefði hafið störf þar, svo ég ákvað að fara ekki ein án hans og endaði á að fara að vinna í ferðamála­geir­an­um,“ seg­ir Sunna Halla sem starfaði á hót­eli í tíu ár og var aðstoðar­hót­el­stjóri und­ir það síðasta. Sam­hliða því starfi kláraði hún BS í viðskipta­fræði frá Há­skóla Íslands og meist­ara­nám í reikn­ings­skil­um og end­ur­skoðun og fór í skipti­nám í viðskipta­há­skóla í Aust­ur­ríki.

Um tíma blundaði einnig flug­manns­draum­ur í Sunnu Höllu. „Ég reyndi einnig aðeins við flugnám á þessu tíma­bili en fann fljótt að að það var ekki fyr­ir mig – bara til­hugs­un­in að vera ein í sólóflugi varð allt í einu hálf ógn­væn­leg eft­ir að hafa klárað bók­lega hlut­ann í einka­flugnám­inu.“

Sunna Halla er mikil hannyrðakona. Þessa peysu prjónaði hún í …
Sunna Halla er mik­il hannyrðakona. Þessa peysu prjónaði hún í bíl­ferðum um landið eitt sum­arið. Ljós­mynd/​Aðsend

Tók áhættu og fékk starfið

Eft­ir tíu ár í ferðageir­an­um ákvað Sunna Halla að taka áhættu og taka þátt í Gul­legg­inu, frum­kvöðlakeppni KLAK, en þetta var áður en hún hún hóf störf þar. 

„Ég skráði mig í keppn­ina nokkr­um mín­út­um áður en það átti að lokast fyr­ir skrán­ingu þar sem syst­ir mín var að ýta á mig og ég man að ég hugsaði að ég ætti svo sann­ar­lega ekki heima þarna í þess­um hóp en ákvað að stökkva á þetta samt sem áður og var þetta svo vel út fyr­ir þæg­ind­aramm­ann minn á þess­um tíma. Keppn­inni er stillt upp þannig að topp 10 ný­sköp­un­ar­hug­mynd­irn­ar kom­ast áfram af hópi um­sækj­enda og var það teymi sem ég var í eitt af þeim,“ seg­ir Sunna Halla. 

„Til þess að gera langa sögu stutta þá sá ég fjár­mála­stjóra­stöðu aug­lýsta hjá KLAK og aft­ur hugsaði að ég tikkaði alls ekki í öll box­in sem voru listuð upp í aug­lýs­ing­unni en hafði svo mik­inn áhuga á þessu um­hverfi. Teymið sem vann þar var svo skemmti­legt og mig langaði svo mikið í þetta starf svo ég ákvað að sækja um. Ég man að ég prentaði meira að segja út um­sókn­ina mína og fór með hana á skrif­stofu KLAK ásamt kynn­ing­ar­bréfi, eitt­hvað sem ég hef aldrei gert áður. Ég sagði svo upp vinn­unni minni á hót­el­inu án þess að ég vissi fyr­ir víst hvort ég myndi verða ráðin til KLAK, hugsaði bara að ég myndi bara taka mér smá frí ef ég yrði ekki ráðin sem endaði sem bet­ur fer í engu fríi held­ur fór ég beint í djúpu laug­ina í skemmti­leg­asta starf sem ég hef nokk­urn tím­ann verið í.“ 

Sunna Halla segir frumkvöðla- og nýsköpunargeirann einstaklega skemmtilegan.
Sunna Halla seg­ir frum­kvöðla- og ný­sköp­un­ar­geir­ann ein­stak­lega skemmti­leg­an. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Hvað hefðir þú viljað vita þegar þú varst tví­tug?

„Það að fólk er ekki að spá eins mikið í manni eins og maður held­ur, og það var kannski ég sjálf sem var minn harðasti gagn­rýn­andi en hélt að aðrir væru það. Svo að maður á bara að gera það sem manni finnst skemmti­legt, vera maður sjálf­ur og vera óhrædd að ögra sjálf­um sér með krefj­andi verk­efn­um sem eru út fyr­ir þæg­ind­aramm­ann.“

Nýtt for­rit breytti öllu

Það skipt­ir Sunnu Höllu miklu máli að skipu­leggja sig vel enda ólíkt mörg­um öðrum er hún ekki bara í einni vinnu held­ur tveim­ur. 

„Þar sem ég er í tveim­ur vinn­um þá skipt­ir það mig miklu máli að vera með góða yf­ir­sýn yfir þau verk­efni sem ég þarf að sinna og gæti ég það ekki án verk­efna­stjórn­ar­tóls­ins sem ég nota fyr­ir allt sem ég geri á báðum stöðum og fyr­ir mín per­sónu­legu verk­efni. Ég byrjaði að nota for­ritið Todoist fyr­ir nokkr­um mánuðum og það hef­ur breytt öllu fyr­ir mig. Þar sem ég skipti mér niður á daga hjá Taktikal og KLAK þá enda ég alla daga á að skipu­leggja hvaða verk­efni ég mun vinna næsta dag og þá þarf ég ekki að taka það með mér heim eft­ir vinnu­dag­inn. Einu sinni í viku fer ég yfir næstu tvær til þrjár vik­ur í daga­tal­inu hjá mér og sé hvaða stóru verk­efni ég þarf að klára og skipu­legg hvenær ég mun vinna í þeim. Það að hafa náð utan um verk­efn­in mín svona hef­ur minnkað stress og sér­stak­lega það að ég sé ekki að taka allt með mér heim eft­ir vinnu sem ég var mjög gjörn á að gera. Ég set allt þarna inn í for­ritið og veit að það mun bíða mín þar fyr­ir næsta dag fyr­ir utan það hvað það er góð til­finn­ing að krossa hluti af list­an­um og yf­ir­fara þau verk­efni sem ég kláraði yfir dag­inn.“

Björt Baldvinsdóttir (t.v.), Sunna Halla í miðjunni og Tinna Hallbergsdótir …
Björt Bald­vins­dótt­ir (t.v.), Sunna Halla í miðjunni og Tinna Hall­bergs­dót­ir (t.h.). Þær eru sam­starfs­fé­lag­ar hjá Taktikal. Mynd­in var tek­in á viðburði Taktikal. Ljós­mynd/​Eygló Gísla­dótt­ir

Er vinnu­dag­ur­inn átta tím­ar eða teyg­ist hann fram á kvöld?

„Minn besti fókus­tími hef­ur yf­ir­leitt verið seinnipart­inn og á kvöld­in en ég hef ít­rekað í gegn­um tíðina verið að vinna langt fram eft­ir á kvöld­in því þá er meiri friður bæði í kring­um mig og í hausn­um og þar sem ég er oft í allskon­ar excel-æf­ing­um þá hafa kvöld­in oft verið nýtt í slíka vinnu. Ég hef þó mark­visst verið að reyna að breyta þessu og hef ég fundið að með því að skipu­leggja vik­urn­ar svona fram í tím­ann þá hef­ur kvöld- og helgar­vinn­an minnkað til muna. Ég erfði svo þann eig­in­leika frá hon­um pabba sem lýs­ir sér þannig að ég á það til að vera stund­um sein, og er oft og tíðum alltaf sein eitt­hvert, en hef þó alltaf unnið leng­ur í hinn end­ann á móti ef svo ber und­ir.“

Er alltaf að bæta sig

Hvernig er morg­un­rútín­an þín?

„Ég verð að viður­kenna að hún er mögu­lega ekki sú besta en maður er alltaf að reyna að bæta sig, er það ekki? Ég þarf helst að eiga góðan tíma heima áður en ég fer út ann­ars verður all­ur dag­ur­inn hálf beyglaður. Ætli ég byrji ekki á klass­ísku snúsi á morgn­ana í smá stund og opna svo sím­ann og kíki á miðlana, email­in, verk­efna­list­ann, daga­talið og vinnu­skila­boðin á meðan ég er enn uppi í rúmi – ég er að reyna að hætta því en það geng­ur ekki al­veg nægj­an­lega vel. Ég fer svo beint í sturtu, stórt vatns­glas og víta­mín, græja mig fyr­ir dag­inn og bruna svo í vinn­una. Ég er ekki mik­il morg­un­verðar­kona og við eig­um ekki kaffi­vél svo ég gríp mér bara yf­ir­leitt eitt­hvað sem er við hönd­ina heima, peru eða gul­rót og narta í það fyr­ir há­degið. Það sem ég myndi vilja bæta við er smá hreyf­ing – ég hef tekið syrp­ur þar sem ég mæti í rækt­ina fyr­ir vinnu eða hef hjólað í vinn­una á raf­magns­hjól­inu og finn hvað það er gott fyr­ir mig. Ég stefni á að dusta rykið af hjól­inu eft­ir vet­ur­inn og viðra það aðeins áður en þetta sum­ar okk­ar klár­ast.“

Hef­ur þú átt það til að of­keyra þig, og ef svo er, hvernig hef­ur þú brugðist við því?

„Já það var tíma­bil fyr­ir nokkr­um árum þar sem ég var að taka að mér alltof mörg verk­efni á sama tíma og var að gera ein­hver af þeim í fyrsta sinn sem var ákveðin brekka. Á þessu tíma­bili vann ég flest kvöld og mikið um helg­ar til að kom­ast yfir þetta og fann að þetta var ekki að gera mér gott og hef mark­visst síðan verið að skipu­leggja mig þannig að þetta muni ekki ger­ast aft­ur, bæði með því að skipu­leggja mig bet­ur fram í tím­ann og byrja á þeim verk­efn­um sem eru mik­il­væg­ust á lista dags­ins. “

Hvað ger­ir þú til þess að hlaða batte­rí­in?

„Sef út, horfi á Net­flix með kær­ast­an­um, hlusta mikið á hlaðvörp, er úti í nátt­úr­unni, prjóna og allskon­ar handa­vinna sem er hálf­gerð er hug­leiðsla fyr­ir mér, plús blak að sjálf­sögðu.“

Sunna Halla með erindi á sameiginlegum viðburði Taktikal og tveggja …
Sunna Halla með er­indi á sam­eig­in­leg­um viðburði Taktikal og tveggja ann­ara sprota­fyr­ir­tækja, 50sk­ills og Data Dwell, á Ice­land Innovati­on Week í fyrra. Ljós­mynd/​Eygló Gísla­dótt­ir

Spil­ar blak 

Sunna Halla spil­ar blak af mikl­um krafti og nýt­ur hún að gera það þegar hún er ekki í vinnu.

„Eitt af því skemmti­leg­asta sem ég geri er að stunda blak. Ég æfi blak hjá HK á vet­urna og eru þar æf­ing­ar þris­var í viku, ásamt því að spila strand­blak á sumr­in. Þetta er sport sem ég elska að hafa fundið bæði vegna þess að fé­lags­skap­ur­inn er svo skemmti­leg­ur, og þetta er hreyf­ing sem ég gæti eytt mörg­um klukku­stund­um í. Yf­ir­leitt þegar 1,5 tíma æf­ing­ar eru að klár­ast þá vill maður alltaf vera leng­ur svo ég tali nú ekki um ef það er sól og gott veður þegar maður er í sand­in­um. Það sem ég dýrka einnig við þetta er að maður hef­ur ekki svig­rúm til að hugsa um neitt annað á meðan svo að maður er svo mikið að kúppla sig út úr öllu þegar maður er að æfa, spila eða keppa. Þetta sport leyn­ir svo mikið á sér, það er svo stórt hér á landi og það eru svo marg­ir flott­ir strand­blaksvell­ir um allt land.“  

Sunna Halla fær mikið út úr því að æfa blak.
Sunna Halla fær mikið út úr því að æfa blak. Ljós­mynd/​Ein­ar Sig­urþórs­son

Hvað er á döf­inni?

„Núna er ég að fara að mæta aft­ur í vinnu eft­ir að hafa verið á góðu fríi bæði í Slóven­íu, Ítal­íu og Svíþjóð svo ég hafði hugsað mér að nýta ró­leg­an júlí í að vinna öll þau verk­efni á list­an­um sem hafa setið þar þangað til ég hef tíma, sem er núna. Ég og kærast­inn ætl­um að taka íbúðina aðeins í gegn á næstu vik­um, nokkr­ar úti­leg­ur planaðar og svo er næsta ferðalag til Þýska­lands í ág­úst þar sem við erum að fara að hitta gamla vini frá skipti­náms­tíma­bil­inu frá Aust­ur­ríki. Svo er ég með eitt nýtt stórt og spenn­andi verk­efni sem ég er að vinna í næstu mánuðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda