Láttu drauminn rætast á námskeiði

Það er hægt að læra margt á skemmtilegum námskeiðum í …
Það er hægt að læra margt á skemmtilegum námskeiðum í haust. Samsett mynd

Það þarf að þjálfa hugann rétt eins og aðra vöðva. Til þess að gera það er tilvalið að skella sér á námskeið og læra eitthvað nýtt, eða jafnvel láta gamlan draum rætast. Í haust eru fjölmörg námskeið í boði fyrir forvitið fólk sem vill láta ögra sér en hafa gaman í leiðinni.

Ólympíuleikarnir frá A til Ö

Þjóðin sat límd yfir Ólympíuleikunum í sumar. Endurmenntun býður fólki upp á að kynna sér sögu Ólympíuleikanna á námskeiði sem hefst í september. Á námskeiðinu leiðir sagnfræðingurinn Stefán Pálsson nemendur um sögu Ólympíuleika nútímans en það eru ekki bara íþróttaafrekin sem eru áhugaverð heldur líka pólitíkin og spillingin í kringum leikanna.

Simone Biles á Ólympíuleikunum.
Simone Biles á Ólympíuleikunum. AFP/ Paul ELLIS

Inn í eldhús

Haustin er tíminn til að hafa það notalegt og baka fyrir fjölskyldu og vini. Ef þú veist ekki hvar á að byrja er til dæmis hægt að taka námskeiðið Bakstur í vefskólanum Frama. Á námskeiðinu kennir Ágúst Einþórsson, oft kenndur við bakaríið Brauð & Co., fólki að baka í fjarnámi. Á meðal þess sem farið er yfir er súrdeigsbakstur, pizzur, eplakökubakstur, tiramisugerð og margt fleira.

Kanntu brauð að baka?
Kanntu brauð að baka? Ljósmynd/Colourbox

Lærðu að hanna heimilið

Áhugafólk um innanhússhönnun ætti að nýta haustið til þess að læra aðeins meira um hönnun og falleg heimili. Tækniskólinn býður upp á stutt námskeið í haust sem heitir Hönnun heimilisins og er meðal annars farið yfir grunnatriði við hönnun heimilis. Stefnur og straumar í innanhússhönnun verða kynntar fyrir nemendum. Einnig verður farið yfir uppröðun húsgagna, aðferðir við lita- og efnisval, hugað verður að lýsingu sem og uppröðun mynda og gluggalausnum. Hver veit nema heimili nemanda verði fallegri eftir námskeiðið þar sem á námskeiðinu er hægt að senda myndir af rýmum sem þarfnast breytinga og það rætt.

Lærðu að hanna heimilið upp á nýtt.
Lærðu að hanna heimilið upp á nýtt. Ljósmynd/Colourbox

Býr leirlistamaður innra með þér?

Fátt er fallegra en fallegur leirmunur og nú getur fullorðið fólk reynt sig við leirlistina á námskeiði hjá Myndlistaskólanum í Kópavogi. Á námskeiðinu Leirmótun fyrir byrjendur læra nemendur að tileinka sér nokkrar aðferðir leirmótunar, t.d. kúluaðferð, plötuaðferð og pylsuaðferð. Þá fá nemendur að prófa rennibekk og gerðar eru tilraunir með glerung. Seinna er hægt að sækja framhaldsnámskeið.

Það er hægt að læra að búa til eigið keramik.
Það er hægt að læra að búa til eigið keramik. Ljósmynd/Colourbox

Friður eftir framhjáhald

Akademias býður upp á hin ýmsu námskeið tengdum starfsferlinum en líka námskeið sem snúa að einkalífinu. Námskeiðið Framhjáhald og framhaldið er eitt af þeim námskeiðum sem snúa að einkalífinu. Ráðgjafinn Valdimar Þór Svavarsson fer yfir á stuttu og hnitmiðuðu stafrænu námskeiði hvernig hægt er að vinna sig í gegnum framhjáhald. Er námskeiðið fyrir alla sem hafa upplifað ótrúnað í parasambandi. Framhjáhald er talin ástæða í að minnsta kosti helmingi sambandsslita para og hjóna. Framhjáhald getur verið margs konar og þarf kynlíf ekki endilega hafa átt sér stað til þess að um framhjáhald sé að ræða.

Sveppatíminn er núna.
Sveppatíminn er núna. Ljósmynd/Colourbox

Allt um sveppi

Dreymir þig um að tína sveppi en veist ekki hvar á að byrja? Námskeiðið Sveppir og sveppatínsla hjá Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands gæti verið rétta svarið. Á námskeiðinu sem fer fram í lok ágúst fer Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor og skógvistfræðingur, yfir örugga ætisveppi og eitraða sveppi. Einnig verður gengið um skóglendi og sveppir tíndir og greindir. Að lokum verður farið í eldhús þar sem nemendur læra hvernig best er að haga geymslu sveppa og sveppir matreiddir.

Framhjáhald
Framhjáhald Ljósmynd/Colourbox

Smíðaðu eigin hluti

Heimasmíðuð húsgögn hafa oft meiri sál en önnur húsgögn. Handverkshúsið býður upp á létt átta daga námskeið í húsgagnasmíði. Kennarinn er Gústav Jóhannsson en hann hefur í mörg ár rekið íslenska húsgagnafyrirtækið Agustav. Á námskeiðinu verður smíðað fallegt box og er námskeiðið fyrir fólk sem vill læra að nota handverkfæri og vélar við fínsmíði á hlutum, til dæmis húsgögnum og nytjahlutum. Seinna er hægt að taka framhaldsnámskeið.

Húsgagnasmíði.
Húsgagnasmíði. Ljósmynd/Colourbox

Hola!

Það er skemmtilegra að ferðast þegar maður kann eitthvað í tungumálinu. Margir Íslendingar ferðast til spænskumælandi áfangastaða og þá er tilvalið að vera með grunnatriðin í spænsku á hreinu. Hjá fræðslufyrirtækinu Mími er boðið upp á spænskunámskeið fyrir byrjendur sem er fyrir þá sem hafa litla sem enga þekkingu á tungumálinu. Markmiðið er að nemendur læri að tjá sig með einföldum hætti, að fólk læri grunnorðaforða í spænsku og málfræði. Einnig er farið yfir menningu og lífshætti í spænskumælandi löndum. Seinna er hægt að fara á framhaldsnámskeið.

Það er gott að kunna spænsku í Barcelona.
Það er gott að kunna spænsku í Barcelona. Ljósmynd/Unslpash.com/D Jonez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda