„Ég lenti á hinum margumtalaða vegg og brotlenti“

Vigdís Másdóttir er kona á framabraut.
Vigdís Másdóttir er kona á framabraut. Ljósmynd/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Vigdís Másdóttir, kynningar- og markaðsstjóri menningarmála í Kópavogi, er kraftmikil, kappsöm og drífandi framakona. Hún hefur verið viðloðandi íslenskt listalíf í fjöldamörg ár og komið víða við á farsælum ferli sínum. Vigdís flutti í byrjun árs í Garðabæ og er að vinna í að koma sér fyrir þar ásamt dóttur sinni. 

Hvernig komstu þangað sem þú ert í dag?

„Einfaldlega með því að segja já. Ef að leiklistin staðfesti eitthvað þá er það að segja já við hugmyndum, sama hversu fáránlegar þær hljóma, maður veit aldrei hvað getur gerst.

Ég man eftir að hafa heyrt mömmu segja þetta við mig frá unga aldri. Það er mikilvægt að mæta með opnum hug og þora að taka slagi, taka pláss, hafa rangt fyrir sér, hafa rétt fyrir sér og gera betur þegar maður veit betur."

„Ég er svo heppin að það er gaman í vinnunni“

Vigdís var ráðin kynningar- og markaðsstjóri menningarmála í Kópavogi síðastliðið haust og var valin úr hópi 120 umsækjenda um starfið.

Út á hvað gengur starfið?

„Ég starfa við hlið hinnar einstöku Elísabetar Indru Ragnarsdóttur en hún er verkefnastjóri viðburða og hátíða undir styrkri hönd Soffíu Karlsdóttur sem er yfir menningarmálum hjá Kópavogsbæ, þvílíkar konur, ekkert nema gæði. Saman komum við að alls konar viðburðum, smiðjum, fræðslu og vinnum í nánu samstarfi við öll þau stórglæsilegu menningarhús sem standa í þyrpingu við Kópavogskirkjuna.“

Vigdís leggur mikinn metnað í vinnu sína.
Vigdís leggur mikinn metnað í vinnu sína. Ljósmynd/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Hvað gefur vinnan þér?

„Ég er svo heppin að það er gaman í vinnunni, þannig að gleði væri líkast til fyrsta svarið mitt. Ég leita uppi fólk og aðstæður sem geta kennt mér eitthvað því ég þoli illa stöðnun, ég þarf að fá reglulegan innblástur í formi áskorana og lærdóms.“

Hvað skiptir máli að hafa í huga ef fólk ætlar að ná langt á vinnumarkaði?

„Að mæta með opnum hug, skilja breytingar og þróun, halda fast í gildin sín og umfram allt að hafa gaman. Við eyðum svo stórum hluta æviskeiðs okkar í vinnu þannig að hún verður að gefa okkur eitthvað til baka. Það fer svo eftir gildunum þínum hvað það er, er það launaávísunin, tilfinningin að það sem þú gerir bætir heiminn og eða lífsgæði, að miðla mikilvægum upplýsingum til að viðhalda opnu og upplýstu samfélagi eða hvað annað sem þér finnst mikilvægast.“

„Ég sakna frekar ferilsins sem leiðir á sviðið“

Vigdís er með meistaragráðu í listkennslu og leikarapróf frá Listaháskóla Íslands og lék mikið á sviði hér á árum áður. 

Saknar þú sviðsins?

„Nei, ég get ekki sagt það. Ég sakna frekar ferilsins sem leiðir á sviðið, það er það sem hefur alltaf heillað, rannsóknin, grúskið, sviðsetningin og hvernig við framkvæmum galdurinn. Sviðið sem slíkt var bara afurðin af vinnunni, vissulega hélt maður áfram að vinna en aðdragandinn var alltaf mun meira spennandi.“

Vigdís segir mikilvægt að fylgja eigin innsæi.
Vigdís segir mikilvægt að fylgja eigin innsæi. Ljósmynd/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Er auðvelt að starfa sem leikari á Íslandi?

„Veistu, ég bara veit það ekki. Ég held að það sé bara eins og með allt annað. Þú uppskerð eins og þú sáir, svo er þetta líka oft bara heppni, að vera á réttum stað á réttum tíma. Ég hef séð frábæra leikara ekki fá tækifæri en þeir hafa haldið sig við fagið og uppskera svo seinna og þá með glæsibrag. En það er mjög lítið starfsöryggi í sviðslistum, fá störf og styrkjakerfið, þrátt fyrir nýlega innspýtingu, vanfjármagnað. Við eigum svo fáránlega mikið af hæfileikaríku, drífandi og skapandi fólki sem spyr samfélagið áleitinna og krefjandi spurninga (svona miðað við höfðatölu) að það er synd að við getum ekki veitt fleirum brautargengi.“

Af hverju leitaðir þú á önnur mið?

„Það var nú eiginlega bara þannig að miðin fundu mig. Ég fór aftur í nám eftir að ég eignaðist dóttur mína og þar með var það eiginlega bara ákveðið. Vigdís Jakobsdóttir, ein af fjölmörgum fyrirmyndum mínum, hvatti mig áfram og í kjölfarið tóku við verkefni sem kenndu mér margt um sjálfa mig. Ég gat miðlað án þess að standa á sviðinu, haft áhrif og spurt spurninga, skapað og efast.

Kristín Eysteinsdóttir bauð mér að sníða nám fyrir ungmenni í sviðslistum við húsið. Það varð úr og ég lagði grunninn að leiklistarskóla Borgarleikhússins, skrifaði námsskrá, stýrði og kenndi við skólann fyrstu þrjú árin. Þetta gerði ég ásamt því að starfa við uppáhalds menntastofnuna mína, Listaháskóla Íslands. Í Listaháskólanum fékk ég svo tækifæri til þess að stækka enn frekar í starfi og var treyst fyrir mörgum frábærum og lærdómsríkum verkefnum.

Ég hef farið víða á starfsferli mínum, unnið með fólki með fatlanir, í veitingageiranum, við viðburðastjórn, kvikmyndagerð og margt fleira en alls staðar reyni ég að tileinka mér eitthvað nýtt, sama hvort það sé nýtt verklag eða einhver hæfni. 

Ég held að ég sé þessi týpíski adhd-tvíburi (veit samt ekkert um stjörnumerkin). Ég er sjaldnast hrædd við að prófa eitthvað nýtt og vera með marga bolta á lofti. Það gerir það líkast að verkum að mér gengur yfirleitt vel að fóta mig, með gríðarlega aðlögunarhæfni, en að sama skapi er ég með afburðahæfni í að koma mér í klandur með því að taka að mér aðeins of mikið.“

Vigdís brotlenti eftir erfiða tíma og áföll.
Vigdís brotlenti eftir erfiða tíma og áföll. Ljósmynd/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

„Var komin í örmögnunarástand“

Vigdís gekk í gegnum miklar breytingar, meðal annars skilnað, skömmu áður en hún hreppti starf kynningar- og markaðsstjóra menningar og hefur verið að fóta sig í nýrri veröld síðustu mánuði. 

Fannst þér þú uppskera á einhverjum tímapunkti að þú værir búin að ná markmiðum þínum?

„Já, auðvitað, en markmiðin breytast eftir því sem maður þroskast og lærir. Ég reyni að temja mér í seinni tíð að vera með „dash“ af raunsæi í bland við drauma og þrár. Þegar maður hefur gengið í gegnum erfiða tíma og áföll er svo gott að geta stigið til baka og metið hvað það er sem raunverulega skiptir máli og leitast við að ná þeim markmiðum og ég er á mjög góðri siglingu núna.“ 

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Heldur betur! Ég lenti á hinum margumtalaða vegg og brotlenti. Ég var að vísu búin að lenda á honum áður en tók því ekki alvarlega. Þá bara tekur líkaminn við og segir stopp. Ég bara fékk engu ráðið og upplifði þá ömurlegu staðreynd að ég var komin í örmögnunarástand.

Ég á sem betur fer á góða að og var það heppin að komast að á Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði. Það varð mín lífsbjörg því ég var mjög langt komin án þess að skilja það sjálf. Þar fékk ég heldur betur skellinn, endaði í minnisþjálfun, viðtölum, sjúkraþjálfum, en með þeirri faglegu og framúrskarandi hjálp sem ég fékk þar og buglega genginu mínu (duglegustu konur landsins sem hafa bugast undan álaginu) þá hef ég öðlast skilning og þekkingu á þörfum mínum og hvað ég þarf að gera til þess að halda heilbrigði. Þetta þýddi róttækar breytingar á lífi mínu sem hafa skilað mér miklu meiri ró og vellíðan.

Ég er komin með nýtt lífsmottó sem kjarnar þetta að mér finnst svo ótrúlega vel: „Not my monkey, not my cirkus.“ Við sem manneskjur stöndum og fyrir framan okkur eru mismargir apar að hoppa og skoppa og vilja athygli. Þá spyr ég mig: „Á ég þennan apa?“ Ef já þá tek ég hann í fangið ef nei þá spyr ég: „Langar mig í þennan apa?“ Ef já þá tek ég hann í fangið ef nei þá þarf hann að fara eitthvað annað. Þetta iðka ég nær daglega og fyrir vikið er ég miklu hamingjusamari.“ 

Vigdís segir margt spennandi á dagskrá hjá Kópavogsbæ.
Vigdís segir margt spennandi á dagskrá hjá Kópavogsbæ. Ljósmynd/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

„Er erfitt að „jöggla“ móðurhlutverkinu og fullu starfi?

„Erfitt er kannski ekki rétta orðið en það getur verið krefjandi. Ég hef þurft að fórna gæðatíma með dóttur minni en ég er svo heppin að við eigum mjög gott skap saman. Ég er alin upp á heimili þar sem hlutirnir voru ræddir, bæði mamma og pabbi voru dugleg að hlusta og setja hlutina í samhengi, og ég reyni eftir fremsta megni að vera til staðar fyrir dóttur mína og hlúa að henni eins og foreldrar mínir gerðu fyrir mig. Annars er ég alveg svakalega heppin með eintak, hún er svo hlý, klár og hrikalega fyndin að það er aldrei leiðinlegt að verja tíma með henni.

Ég og fyrrverandi maðurinn minn erum mjög góðir vinir og það er okkur mikið kappsmál að hlúa vel að dóttur okkar, erum mjög samstiga þegar kemur að henni og vinnum vel saman.“ 

Ertu opin fyrir ástinni?

„Auðvitað, annað væri galið, en ég er ekki að leita eftir henni, ef hún kemur þá bara gerist það. Við skulum bara segja að ég er mjög upptekin af því að njóta lífsins.“

Fimm hlutir sem þú hefðir viljað vita um tvítugt? 

  • Mistök eru gjöf 
  • Hlusta á innsæið 
  • Treysta á innsæið 
  • Fylgja innsæinu 
  • Enginn veit neitt og allir eru að gera sitt besta.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Eldhúsið er griðastaðurinn minn, mér finnst fátt skemmtilegra en að gefa góðu fólki að borða, sér í lagi þeim sem kunna að meta það. Samtalið sem á sér stað við matarborðið er svo dýrmætt.

Ég held að ég sé selur í áttunda lið, mér líður mjög vel í vatni. Sjórinn hefur gríðarlegt aðdráttarafl. Mér finnst það stórkostleg tilfinning að dýfa mér og synda í sjónum. Ég ber mikla virðingu fyrir hafinu, það bæði gefur og tekur og það þarf að sýna varfærni vilji maður stunda sjósund. Að sama skapi er það einstaklega heilandi sem og öll iðkun á hvers kyns vatnasporti. Við erum mjög rík hér á Íslandi að eiga allar þessar frábæru sundlaugar sem ég nýti mikið. Svo er tónlist mikilvægur hluti af lífi mínu og ég hlusta mikið og á alls konar. Og ótrúlegt en satt þrátt fyrir að hafa unnið í menningartengdum störfum síðustu ár þá reyni ég að komast á sem flest sem ég kemst yfir og þá eru undir listir í sinni víðustu skilgreiningu.“

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Já, og þær eru margar.

Fyrst og síðast eru allar konurnar í fjölskyldunni minni með mömmu, Guðrúnu Einarsdóttir, í fararbroddi. Hún hefur kennt mér svo margt, að hlusta á innsæið, vinna vinnuna, ekki hræðast að taka erfiðar ákvarðanir og taka fólki eins og það er, ég get bara stjórnað mínum gjörðum. Svo á ég fáránlega flottar systur og vinkonur sem gæða líf mitt með visku, þolinmæði, og hlýju. Thelma Björk Jónsdóttir, mín nánasta vinkona, sýnir það og sannar á hverjum degi að hún er gangandi kraftaverk. Hún er ótrúleg, ég hef sjaldan ef nokkurn tímann hitt manneskju sem býr yfir jafn miklu æðruleysi og hún, uppfull af ást og þakklæti og býr yfir einhverjum óraunverulegum styrk til fyrirgefningar. Nafna mín Finnbogadóttir er átrúnaðargoð – alltaf fundist hún svo falleg blanda af gáfum, gæðum og alúð. Fríða Björk Ingvarsdóttir, fyrrverandi rektor Listaháskólans, hefur haft gríðarleg áhrif á sjálfsmynd mína í starfi, hún hefur ávallt verið gjöful á samtal og einstaklega hvetjandi. Hún kenndi mér að treysta, vita hvenær maður sækir og hvenær maður leyfir hlutunum að spilast út. Ég er svo heppin að hafa tengst henni persónulega og það hefur verið mjög falleg vinátta sem mér þykir mjög vænt um. Vigdís Jakobsdóttir áðurnefnd hefur kveikt neista, virkjað forvitni mína og hvatt, á mjög stóran stað í hjarta mínu. Snæbjörg Sigurgeirsdóttir, raddkennari og Björg Jóna Birgisdóttir, fyrrum námsstjóri hafa kennt mér mildi og sjálfsást sem gleymast svo oft í amstri dagsins. Ef ég stækka svo myndina út fyrir persónulega tengsl þá hafa orð Mayu Angelou oft haft djúpstæð áhrif sér í lagi þegar kemur að sjálfsmyndinni og þeim kröfum sem við eigum til að setja á okkur að óþarfa.“

Vigdís er mikil stemningskona og hlakkar til að kveikja á kertum og njóta samvista með góðu fólki yfir góðum mat. 

Hvernig leggst veturinn í þig?

„Þrusuvel, kertatíminn er að koma, rútínan að detta inn og það er svo margt skemmtilegt að gerast. Viðburðarskjalið okkar í Mekó er að springa af spennandi verkefnum og þvílíkir listamenn sem koma að hinum ýmsu viðburðum og verkefnum. Það er búið að vera mjög spennandi að fylgjast með bæjarlistamanninum okkar í ár, Kristofer Rodriguez Svönusyni slagverksleikara, en hann er með svo flottar hugmyndir og mikla ástríðu fyrir listinni. 

Dóttir mín er svo að stíga sín fyrstu skref í unglingadeildinni og það er mjög skemmtilegt að fá að fylgjast með henni blómstra.“

Hvað ætlar þú að gera til þess að hann verði sem bestur?

„Allt sem nærir mig! Ég ætla að stökkva á sem flest tækifæri til þess að gera eitthvað nýtt, njóta samvista við besta fólkið, borða góðan mat og hlúa að mínu og mínum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál