Kristín Gunnarsdóttir og Ólöf Skaftadóttir seldu miða á kvöldstund í Iðnó upp á fjórum mínútum. Þær halda úti einu vinsælasta hlaðvarpi landsins, Komið gott. Hugmyndin að kvöldstundinni í Iðnó er hlaðvarp í beinni útsendingu þar sem þær ætla að láta gamminn geisa ásamt valinkunnum, ólæsum gestum.
Þau heppnu sem náðu miða mega búast við yfirferð á niðurstöðum Alþingiskosninga og lúkningu á fyrstu seríu hlaðvarpsins.
„Það eru einhverjir til sem hafa smekk fyrir þessu rausi í okkur. Það kemur okkur mjög á óvart í raun og alveg ljóst að miðaverð var of lágt. Sem kapítalistar munum við læra af þessu og kippa því í liðinn á nýju ári,“ segir Ólöf.