Takk fyrir allt – sætt og súrt!

Marta María Winkel Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is.
Marta María Winkel Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is. Ljósmynd/Kári Sverriss

2024 var viðburðaríkt ár og vil ég þakka lesendum fyrir samfylgdina í ár og auðvitað síðustu 13 ár. Það er ekki sjálfgefið að lestur og vinsældir aukist ár frá ári. Nú siglir fjölmiðillinn inn í sitt 14. ár og ef marka má árafjöldann hlýtur örlítil unglingaveiki að fara að gera vart við sig.

Hvernig var 2024? 

Íbúar Smartlands létu ljós sitt skína, klæddu sig fallega, blésu á sér hárið eða Dysonuðu það eins og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Fólk flutti líka töluvert á árinu en það var enginn eins mikill kóngur í fasteignaviðskiptum og Inga Lind Karlsdóttir, fjölmiðlakona og sjónvarpsframleiðandi, sem seldi dýrasta hús Íslandssögunnar og keypti tvær fasteignir í kjölfarið og þjóðin fylgdist agndofa með.

Það komst þó enginn í spor Laufeyjar Línar Jónsdóttur djasstónlistarmanns sem sló eftirminnilega í gegn á árinu og sópaði að sér viðurkenningum en hún er einmitt manneskja ársins að mati lesenda Smartlands. Velgengni fylgir alls konar auka í pakkanum og ekki leið á löngu þar til heimsþekkt tískuhús fóru að sýna þessari íslensku undrakonu djasstónlistarinnar athygli. Franska tískuhúsið Chanel klæddi Laufeyju á nokkrum viðburðum og svo var hún á fremsta bekk þegar tískuhúsið sýndi nýjustu línur sínar í haust svo eitthvert smáræði sé nefnt.

Klæðaburður var mikið í umræðunni á árinu en Smartland ákvað að ganga skrefinu lengra og þjónusta lesendur enn betur, án þess þó að opna netverslun, og reyndi að upplýsa hvaðan fatnaður væri og hvað hann kostaði. Frægt varð þegar Halla Tómasdóttir klæddist bleikum jakka, sem fékkst í Hjá Hrafnhildi, í lokakappræðum í sjónvarpssal RÚV og var með lítinn silkiklút um hálsinn vegna flensu. Litlir silkiklútar hafa í gegnum áratugina verið vinsælir hjá hástétt Evrópu og hjá elítunni í Bandaríkjunum. Í vor varð klútabylting hérlendis í kringum forsetaframboð Höllu, eða Höllu T House mix eins og hún var kölluð hjá unga fólkinu, sem flykktist á kjörstað til að kjósa þessa hressu djammdrottningu sem þau kynntust á félagsmiðlinum TikTok.

Það að upplýsa lesendur um hvaðan fatnaður var fenginn og hvað hann kostaði fór almennt vel í landsmenn, fyrir utan örfáa sem ákváðu að bera gremju sína á torg á vegg Smartlands á Facebook.

„Mér finnst að það ætti að vera skylda að segja alltaf frá því hvaða merki er á fötum til að spara mér ómældan tíma við leit ef ég vil kópera lúkkið,“ sagði þekktur lögmaður í einkaskilaboðum til undirritaðrar eftir að eldri dömur býsnuðust yfir tæplega 700.000 króna kjól sem Halla Tómasdóttir klæddist í kóngsins Kaupmannahöfn í haust.

Stuttu síðar hitti ég ráðherra í boði og lýsti hún yfir þakklæti fyrir verðmiðann á kjól Höllu forseta. Börn ráðherrans höfðu býsnast yfir því hvað móðir þeirra klæddist dýrum fatnaði en verðmiðinn hafði ratað í Smartlandsfréttir. Þá gat móðirin bent á kjól Höllu forseta og þar með sópaðist það sjálfkrafa undir teppið að móðir þeirra hefði eytt 64.000 krónum í kjól. Allt er afstætt.

Það er hins vegar skýrt að ef við sem þjóð ætlum ekki að verða okkur til skammar á alþjóðlegum vettvangi þá þurfum við að kunna helstu grunnreglurnar í klæðaburði. Smartland mun halda áfram að fara yfir þær á nýju ári enda af nægu að taka.

Gleðilegt ár, elsku hjartans lesendur, og takk fyrir allt – sætt og súrt!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda