Reynir Grétarsson, eigandi fjárfestingarfélagsins InfoCapital, hefur verið fyrirferðarmikill í íslensku viðskiptalífi síðustu tvo áratugina. Nú hefur hann breytt miklu hjá sér, segist hættur að vinna við viðskipti og stunda fyrst og fremst innri vinnu. Það sem hann vill gera er að skrifa bækur og reyna að hjálpa öðru fólki í stað þess að græða peninga.
Skrifstofa InfoCapital er við Lágmúla og þaðan er útsýni yfir Reykjavík, sem skartar sínu fegursta þegar við hittumst. Á sama stað eru önnur fyrirtæki í eigu hans, en Reynir hefur verið að sýsla í hinu og þessu síðan hann seldi CreditInfo árið 2021. Reynir grínast með að hann sé aðallega í því núna að betrumbæta sig, það sé alveg full vinna.
„Staðan hjá mér breyttist rosalega mikið fyrir að verða tveimur árum. Bæði í vinnu og persónulega. Ég ætlaði bara að halda áfram eins og ekkert væri. En svo komst ég að því að ég þyrfti að fara í mikla vinnu með sjálfan mig og finna nýjan tilgang í lífinu,“ segir Reynir.
„Fólk lendir í svona, að finnast það ekki hafa tilgang í lífinu, og verri hlutum, ég er alls ekkert sér á báti. Kannski frekar að ég sé lánsamur að hafa meira svigrúm en flestir til að reyna að bæta úr þessu,“ segir Reynir.
„Ég er að vinna með nýja útgáfu, Reynir 2.0 - þetta er Beta-útgáfan. Test-útgáfan,“ segir hann og við hlæjum svolítið. Hann er ekki mjög alvarlegur í sinni nálgun og játar að það sé ferlega erfitt að sleppa tökunum af gömlu útgáfunni.
Og þá spyr ég hann hvernig gamla útgáfan af honum hafi eiginlega verið.
„Gamla útgáfan var með hugmynd um einhvern vísitölugaur, þar sem vinna og fjölskylda voru æðstu gildin. Hann ætti að vinna mikið og lengi og vera duglegur. Það þyrfti að sjást eitthvað af því sem hann var að gera. Og, síðast en ekki síst, hann þyrfti að vera góður. Allt eitthvað fyrir utan hann sjálfan,“ segir Reynir og segist í dag efast um þetta allt.
Hvað gera svona menn eins og þú þegar þeir eru að reyna að finna sig?
„Þetta er ekki eins og einhver fjársjóðsleit. Og ég er í sjálfu sér ekki týndur, ég er hérna í þessum líkama. Þetta er meira kannski að reyna að kynnast sér, ekki sem viðskiptamanni eða fjölskyldumanni, syni og þar fram eftir götunum. Heldur hver maður er innst inni. Til dæmis ákvað ég að vera erlendis í nokkra mánuði í fyrra til að geta betur einbeitt mér. Ég var fyrst á Tene, það er nánast nauðsynlegt í upphafi árs. Svo næst til Þýskalands og var þar í þrjá mánuði,“ segir Reynir, sem dvaldi í Wiesbaden.
Hann var ekki ókunnugur þeim stað því hann bjó þar um tíma á CreditInfo-árunum. Ferðalagið byrjaði reyndar í Barcelona en að mati hans var það ekki rétti staðurinn til að hugsa því þar var of mikil kannabislykt og of margt fólk með skrítið hár. Ekki rétta umhverfið fyrir hann.
„Ég var bara einn að labba um, hlusta á bækur og podköst, hugsa málið og skrifa. Ég skrifaði sjálfsævisögu að gamni. Í sögunni lít ég inn á við og velti fyrir mér hver ég sé og hvað ég vilji gera. Hvers ég þarfnist. Ég er búinn að átta mig á því að allar mikilvægustu orrusturnar í lífinu eiga sér stað inni í hausnum á mér. Þær eru ekki við annað fólk. Þetta er ekkert ný þekking, þetta hefur viturt fólk sagt lengi. En það er ekkert sannleikur fyrir manni sjálfum fyrir en maður ákveður það,“ segir Reynir og þylur upp tvær mikilvægustu möntrurnar í lífinu. Önnur er „Let shit go“ og hin er „Get shit done“ eða eins og það myndi kallast á einfaldri íslensku: slepptu tökunum!
„Í kjarnanum er þetta ekki mikið flóknara, held ég á þessum tímapunkti,“ segir Reynir.
Reynir er spurður að því hvort þetta sé ekki bara aldurinn. Fólk um fimmtugt sé í þessum pælingum.
„Kannski er þetta ítarlegri lýsing á því sem fólk kallar „midlife crisis“ eða eitthvað í þá áttina. Ég held að fólk fari oft ekki að hugsa um þessa hluti fyrr en það verður miðaldra, ekki svona djúpt. Það hefur ekki tíma til þess fyrr,“ segir Reynir.
„Þegar við erum yngri snýst lífið um að vinna sér í haginn, lækka lánin og fólk er með þá von í brjósti að allt verði betra seinna. Það er rangt að hugsa svona því það er afsökun fyrir því að gera ekkert í sínum málum núna, fresta því að auka gæði lífsins. Það að ætla að sér að allt verði gott seinna er ekki góð nálgun,“ segir Reynir og bætir við:
„Þetta er það sem ég er að hugsa akkúrat núna. Vonandi sé ég þetta viðtal eftir einhvern tíma og finnst ég hafa verið einfaldur. Það væri merki um þroska,“ segir hann og brosir.
„Við erum flest eitthvað beygluð. Ég er að tala um þetta hérna við þig til að draga þá skoðun fram. Flestir geta bætt líf sitt með einhverjum einföldum aðferðum sem þeir geta vanið sig á. Ég held að fólk sé að skaða sig með of miklu sjónvarps- og símaglápi. En svo er fullt af fólki komið í alls konar hluti til að reyna að laga eitthvað, oft eitthvað gamalt í sér. Það er vakning í gangi og mig langar að vera með í því. Ekki af því að ég sé svo heilbrigður sjálfur, heldur frekar af því að ég er það ekki,“ segir hann.
Þú hefur samt gert margar breytingar á lífinu. Þú drekkur ekki og skráðir þig í nám í haust. Hvað ertu búinn að vera edrú lengi?
„29 ár,“ segir hann og bætir við:
„Sko, það að ég hætti að drekka þarf ekki að þýða að ég hafi hætt að forðast vandamál. En já, ég fór í nám í haust. Var að hugsa um að fara í sálfræði en endaði á fagi sem heitir Jákvæð sálfræði. Því gæði lífs okkar fara að mestu eftir því hvað gerist hérna uppi,“ segir Reynir og bendir á hausinn á sér.
„Get ég varið tíma mínum eitthvað betur en að stúdera það hvernig er hægt að eiga gott líf? Jákvæð sálfræði tekur einn vetur og er ekki alveg fullt nám. Þetta eru sex tarnir. Það er verið að stúdera og skilja hamingjuna. Hvað er gott líf? Þetta er það sama og Sókrates og þeir voru að tala um fyrir 2.500 árum. Er það að líða rosalega vel? Að ná markmiðum eða að hafa tilgang? Þetta þarf að vera þannig að þú náir að stýra hugsunum þínum og tilfinningum svo að þér líði sem best. Ég er búinn að ná mínum markmiðum viðskiptalega og ég hef ekki metnað til þess að græða meira. Ég hef ekki ástríðu lengur fyrir því, eða ekki í augnablikinu allavega. Ég bý einn og sit því uppi með mig,“ segir Reynir.
Er ekki auðvelt fyrir mann eins og þig að segja þetta? Mann sem hefur grætt svona mikla peninga?
„Jú, ég er algjört forréttindapakk,“ segir hann og við skellum upp úr.
„Ég er mjög meðvitaður um það. Varla marktækur með mín vandamál. En ég deili minni sögu af því að ég held að það geti hjálpað öðrum. Ég sagði einu sinni í podkasti að ég tæki geðlyf og hefði verið þunglyndur. Ég hef aldrei fengið eins sterk viðbrögð við neinu sem ég hef gert. Þakklæti frá fólki sem tengdi við það sem ég sagði.“
Eftir að Reynir var búinn að verja þremur mánuðum í Wiesbaden í Þýskalandi lá leið hans til Asíu, þar sem hann fór á nokkur jógasetur.
„Þetta er í þriðja sinn sem ég fer til Asíu og er í fjórar til fimm vikur í senn. Þá kaupi ég mér flug út og flug heim og svo ákveð ég bara úti hvað ég geri. Ég lét flæðið taka mig til Austur-Tímor, þar sem hvalagöngur voru í gangi. Þetta er þannig að maður fer út í bát, finnur hval, stímir fram fyrir hann og hoppar út í. Það er einhver galdur í því að vera með steypireyði að synda. Hún varla hreyfir sig en stingur mann samt af um leið. Maður finnur auðmýkt einhvern veginn, það snertir mann að vera minntur á það að maður er bara hluti af náttúrunni og ekki endilega sá mikilvægasti. Þetta var toppurinn í þessari ferð,“ segir hann.
Svo lá leiðin til Balí.
„Maður þarf að passa sig á því að fara ekki á of fín hótel á Balí því á þessum fínu hótelum eru bara feitir Ástralir og ástfangið fólk,“ segir hann og glottir.
Sá sem er að ferðast einn vill kannski ekki vera innan um fólk í brúðkaupsferðum?
„Síður,“ segir hann og við skellihlæjum.
„Ef þú ert ekki önnur af þessum týpum er betra að vera einhvers staðar annars staðar. Það var þannig að ég fór á jógamiðstöð sem heitir Yogabarn, þar eru karlarnir meira berfættir með karlahnúð í hárinu og Yin and Yang-tattú. Ég skar mig úr því ég mætti í Boss-inniskóm með víkingatattú. Mesta áskorunin er að hverfa inn í fjöldann þegar allir eru öðruvísi en þú,“ segir hann.
Hvernig fer svona maður eins og þú að því að hverfa inn í fjöldann?
„Láta eins og maður eigi heima þarna. Alveg eins og ef þú ferð í réttir eða á fund á Wall Street,“ segir hann og brosir.
Ég er forvitin um jógaferðir. Hvernig eru dagarnir, varstu í jógaflæði allan sólarhringinn?
„Í upphafi ferðarinnar fór ég á jógasetur á Taílandi sem er á eyju sem heitir Koh Samui. Þegar ég var þarna úti birtist frétt í Viðskiptablaðinu sem fjallaði um það að ég ætti að hafa miklar áhyggjur af því hvað ég væri að tapa miklum peningum í Sýn og bera út sósíalisma,“ segir Reynir en félag hans er stæsti hluthafinn í Sýn sem rekur Stöð 2 og fleiri miðla ásamt Vodafone.
„Ég fann að ég var kominn á réttan stað þegar þessi fréttaflutningur hafði ekki áhrif á mig. Ég svaraði fyrst kurteisilega en nennti svo ekki að pæla í þessu. Pínu fyndið að einhver sé að hafa áhyggjur af mínum áhyggjum þegar ég hef þær ekki. Ég hef áhyggjur ef ég heyri að fólk sé að hætta í fyrirtækinu og að fólki líði ekki vel af einhverjum ástæðum. Það er aldrei gott. En ég bauð mig fram í stjórn Sýnar og fékk ekki kosningu. Það varð því ekki af því að ég færi eitthvað að vinna tengt Sýn. Sem er bara jákvætt því ég er búinn að gera svo margt annað síðan,“ segir hann.
Er það ekki mælikvarði að þér sé að þoka áfram með verkefnið ef þér er sama um það sem öðrum finnst?
„Jú, ég held það. Engum er alveg sama hvað öðrum finnst. En ég er að verða betri í því.“
Aftur að jógaferðinni því ég er svo forvitin um þær. Hvernig er að vera á jógasetri? Er það gaman?
„Dagarnir byrja snemma á jóga. Alltaf þægilegt, allt utandyra. Svo færðu einhvern morgunmat, ekkert kjöt, engan sykur og allt mjög hollt. En eftir nokkra daga ertu farinn að rölta og finna steikur og þú ert alltaf með eitthvað inni á herbergi til að borða. Ég er þannig, ekki fyrirmynd fyrir neinn að því leyti. Svo er aftur jóga seinni partinn, nudd og ristilskolun og alls konar í boði."
Fórstu í þetta allt?
„Já.“
Hvernig breytist lífið við það?
„Það hægir á lífinu. Fókusinn, sem er úti um allt, hann færist inn á við. Svo ferðu að sitja í þér og verða sáttur. Eða þannig á það að vera. Og svo á þetta helst að vera þannig að þú fáir nóg og langi til að fara heim. Það tókst líka. En þú breytir ekkert lífinu varanlega í einni ferð. Þetta er endalaus vinna. Og ég langt í frá búinn með hana,“ segir Reynir og bætir við:
„Sko, þótt ég segist kannski vera að leita að hamingjunni eða tilgangi lífsins í jóga á Taílandi veit ég alveg að þetta eru hlutir innra með mér sem er þar að finna. Það er bara miklu betra að gramsa í þessu í umhverfi sem er ekki með endalaust áreiti að kalla á athygli þína.“
En svo þráðir þú að koma heim. Vildir bara komast í Lágmúlann og fá þér kaffi?
„Já, og mig langaði bara að verða kalt. Vera illa klæddur í íslenskum vetri eins og við gerum. Síðustu dagana fór ég ekki í jóga og var farinn að gera eitthvað annað. Farinn að æfa Muai Thai í slagsmálaklúbbi sem ég fann. Bardagaíþróttir. Það er svo gott að bæta því inn í. Það er bæði líkamlegt og andlegt,“ segir hann.
Gerðist eitthvað þegar þú varst lítill sem gerir það að verkum að þú ert á þessari vegferð?
„Það gerist eitthvað hjá okkur öllum.“
Já, ég veit það, en hvað gerðist hjá þér?
„Sko, það sem gerðist hjá mér, og ég treysti mér að segja frá, er að einhvers staðar fæddist sú hugmynd að ég væri ekki nóg. Ég þyrfti að gera betur, þyrfti að gera rosalega vel til að vera nóg. Það keyrir mann áfram í gegnum lífið. Fær mann til þess að ná árangri, en þessi sami eiginleiki kemur oft í veg fyrir hamingjuna eða skilyrðir hana.“
Við tölum aðeins um æskuna og tíðarandann sem ríkti þegar Reynir var barn. Á þeim tíma átti enginn að væla. Þeir sem vældu voru aumingjar.
„Tíðarandinn var bara á þeim stað og á þeim tíma að annar hver maður um fimmtugt eða yfir tengir við það. Það var enginn vondur eða neitt þannig en maður átti ekki að vera með væl. Maður átti bara að halda áfram. Vertu duglegur, það var æðsta gildið. Þegar fólk verður fullorðið er það oft aftengt tilfinningum sínum því það fékk ekki að hafa þær þegar það var að alast upp, mátti ekki vera með einhvern aumingjaskap,“ segir Reynir og heldur áfram:
„Ég get alveg sagt þér að ef þú ert kominn inn á Vog 22 ára án þess að hafa snert nein eiturlyf þá er ekkert í lagi með þig,“ segir Reynir.
„Áfengi var einkenni vandans frekar en vandinn sjálfur. Vandinn var hvernig mér leið sjálfum. Ég þurfti að fatta það og fara að vinna í því. Fara til geðlæknis og fá lyf til að láta mér líða betur,“ segir Reynir. Á þessum tíma var hann í lögfræði og segist í raun aldrei hafa tengt við lögfræðina.
„Við stofnuðum Lánstraust, sem síðar varð Creditinfo, þegar ég var að klára lögfræði. Ég var löngu búinn að fatta það áður en ég útskrifaðist að lögfræði væri ekki fyrir mig að vinna við. Ég þurfti að klára það samt. Ég náði að skrifa ritgerðina með náminu og losna fyrr út,“ segir Reynir.
Leið þér ekki eins og þú værir kóngur þegar það byrjaði að ganga vel í Creditinfo?
„Nei, ég hef aldrei upplifað mig sem einhvern kóng eða ég væri meira en eitthvað annað fólk. Aldrei. Ég er venjulegur strákur.“
Núna ertu í háskólanum, búinn að jóga yfir þig í Asíu. Hvað næst?
„Ég hef ákveðið að gerast rithöfundur. Ég ákvað að gerast smiður fyrir tveimur árum og smíðaði í ár eða svo þegar við vorum að byggja upp Hótel Blönduós og eignir í kringum það en núna er það tilbúið. Núna er ég að skrifa skáldsögur og ævisöguna og svo langar mig að skrifa sjónvarpsþætti.“
Um hvað ertu að skrifa?
„Það sem við höfum mest gaman af. Einhvers konar ofbeldi, hamingjuna, kynlíf og ástir.“
Eru þetta glæpasögur? Endar þetta illa?
„Ég reyni að skrifa um lífið en það er einhvern veginn áhugaverðara og meira spennandi ef einhver er drepinn og einhver er í hættu.“
Ertu kominn með bókaútgefanda eða ætlar þú að gefa bókina út sjálfur?
„Ég er ekki kominn svo langt. Ég er bara að vinna í þessu,“ segir hann og sýnir mynd af forsíðu bókarinnar, sem er frekar ógnvekjandi. Hann segist vera með drög að þremur bókum og eitthvað komi út á þessu ári. Þá komi í ljós hvort einhver vilji lesa og hvort hann verði áfram rithöfundur eða geri eitthvað annað.
Reynir vill alls ekki hljóma eins og nýalki sem vill bjarga öllum heiminum. Hann hefur þó tileinkað sér hluti sem hann heldur að geti gagnast öðru fólki til að láta sér líða betur.
„Ég talaði við eina konu sem var alltaf brosandi og kát og spurði hana hvernig hún færi að því að vera svona glöð. Hún sagðist vera miðjubarn og hafa varið lífi sínu í að reyna að þóknast öllum en núna væri hún markmisst að vinna í því að vera glöð. Hún vaknaði snemma, borðaði hollt og hugsaði þetta eins og vinnu. Þetta kveikti í mér. Ég hugsaði að þetta væri nú eitthvað sem ég gæti gert. Við látum það alltaf mæta afgangi að hugsa um okkur sjálf. Þú átt að stunda hugleiðslu í tíu mínútur á dag nema þú hafir alls ekki tíma til þess, þá skaltu gera það í klukkutíma, en við látum það mæta afgangi,“ segir Reynir og þrátt fyrir að leggja sitt af mörkum svífur hann ekki um á bleiku skýi.
Hvað dreymir þig um?
„Að vera besta útgáfan af sjálfum mér.“
Það er nú svolítil klisja. Hvað dreymir þig um í raun og veru?
„Að vera óhræddur. Að gera líf mitt gott. Að sætta mig við sjálfan mig og fortíðina. Fyrirgefa öllum. Að eiga góðan dag. Ókei, þetta eru allt klisjur. En það er af því að þetta er endurtekið efni, af því að það er vit í því,“ segir Reynir og vill ekki vera í þeim hjólförum að allt verði æðislegt seinna.
„Ég ætla alveg að játa það en mig langar rosalega mikið að hjálpa fólki kerfisbundið. Kannski ég telji mig hafa fundið leiðir til að bæta mig og vilji koma þeim til sem flestra. Eins og nýalki sem vill koma öllum í meðferð. En ég hef lært ákveðna hluti sem ég vil deila. Kannski ég opni heilunarsetur, skrifi bækur eða haldi fyrirlestra. Ég kann þetta ekki en ég hef ekki látið vanþekkingu stoppa mig hingað til. Ég á hótel á Blönduósi sem stendur autt allan veturinn. Hvers vegna er ég ekki með jógasetur þar á veturna? Einhver námskeið? Mig langar til að búa eitthvað til fyrir fólk svo að því líði betur. Ég er samt ekki að segjast handhafi einhvers sannleika. Ég er bara að segja að eitthvað er gott fyrir mig, kannski líka fyrir einhverja aðra,“ segir Reynir.