Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi hjá Endurskoðun & ráðgjöf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá lífeyrisþega sem spyr út í það hvort greiðslur skerðist ef viðkomandi leigir út íbúðina á meðan dvalið er erlendis.
Sæll
Ég er lífeyrisþegi og fer erlendis á veturna. Ég var að hugsa um að leigja íbúðina út á meðan. Má ég það án þess að fá skerðingar?
Takk fyrir mig.
Sæll gamli.
Leigutekjur af langtímaleigu til einstaklinga eru fjármagnstekjur og eru skattlagðar sem slíkar með 22% fjármagnstekjuskatti (ennþá). Hinsvegar er veittur 50% afsláttur af þessum tekjum þannig að skattlagning er 11%.
Allar fjármagnstekjur skerða bætur frá Tryggingastofnun, en greiðslur frá lífeyrissjóðum skerðast ekki. Þú getur nálgast upplýsingar um skerðingar á vef Tryggingastofnunar www.tr.is
Ég vil líka ennfremur benda þér á að bætur frá Tryggingastofnun bera launaskatt sem er um 37% meðan að fjármagnstekjur bera 11% skatt með 300.000 frítekjumarki. Þannig að ég bendi þér á að í lok dagsins kemur mun hagstæðara út fyrir þig að hafa leigutekjur þrátt fyrir að bætur frá Tryggingastofnun skerðist, frekar en að hafa þær ekki.
Kveðja,
Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Eymundi spurningu HÉR.